Skagfirðingabók - 01.01.1966, Side 16
SKAGFIRÐIN GABÓK
bæ, Jón Arnason frá Víðivöllum, Haraldur Jónasson frá Völlum og
margir fleiri. Bak við stóð svo Benedikt á Fjalli með alla sína
ljúfmennsku og lífsgleði og óþreytandi dugnað að æfa raddir og
kenna söng.
Bændakórinn stóð lengi með blóma og við vaxandi vinsældir,
meðan Péturs Sigurðssonar naut við, en hann dó ungur, og var
mikill mannskaði að honum. Eins tók Benedikt fast að eldast
og kraftar hans að dvína, og sumir góðir Bændakórsmenn fluttu
burt úr Skagafirði, aðrir dóu. Lengi var þó þraukað, því að allir
elskuðu kórfélagarnir sönglíf og íþrótt sína.
Það var með fádæmum, hvað kórfélagarnir lögðu á sig mikið
erfiði við það að sækja æfingar, oftast að vetrinum, þegar allra
veðra var von. En þeir létu ekkert vos á sig bíta, heldur stunduðu
æfingar af kappi. Söngsamkomur héldu þeir oftast á Sauðár-
króki, en annars víðar um allan Skagafjörð, og vestur um Húna-
vatnssýslur fóru þeir söngför. Alls staðar var þeim vel tekið, alls
staðar glæddist sönglíf, þar sem þeir komu, og seinna meir komu
upp karlakórar, þar sem þeir höfðu sungið sig inn í hug og hjörtu
tilheyrenda sinna.
Meðan Bændakórinn var upp á sitt bezta, hafði hann glæsi-
legum röddum á að skipa. Má þar nefna Þorbjörn Björnsson,
Sigurð Skagfield og Harald Jónasson, sem allt voru afburða
söngmenn. En hvað mesta athygli mun þó Benedikt á Fjalli hafa
vakið; flestir, sem á kórinn hlustuðu, luku upp einum munni um
það, að þeir hefðu aldrei heyrt eins fagra bassarödd í neinum
manni. Benedikt var líka ágætur smekkmaður á söng, eins og hann
átti kyn til að rekja í föðurætt sína. Og hann hélt rödd sinni
blæfagurri og mjúkri til elliáranna.
Að vallarsýn var Benedikt í gildara meðallagi og snoturlega
vaxinn. Hann var röskur til burða, vel sterkur og heilsugóður
fram á efri ár. Hann var einstaklega mikið prúðmenni í allri
framkomu og sérstaklega aðlaðandi og vinsamlegur í umgengni
sinni við fólk, hver svo sem í hlut átti. Þó bar það af, hvað and-
litssvipur hans var hreinn og góðmannlegur, enda held ég, að
hann hafi enga óvini átt á ævi sinni.
14