Skagfirðingabók - 01.01.1966, Page 75
í GÖNGUSKÖRÐUM
snerist í lið með þeim. Hittist svo á, að hann kom á hólinn, þar sem
ég lá sofandi. Jón þreif í handlegg mér og segir: „Vaknaðu, dreng-
ur! Vaknaðu, drengur!" Og dregur hann mig þegar af stað hálf-
sofandi. Varð ég bæði hræddur og hissa á þessum aðförum, þorði
hvorki að hljóða né tala, en spyrnti við fótum eftir mætti annað
slagið; hann hélt mér sem í skrúfstykki, og varð ég að fylgjast með,
hvort ég vildi eða ekki. Þegar í nánd við kotið kom, kallaði Jón til
foreldra minna, sem voru úti stödd: „Hér er barn! Hér er barn, sem
þið eigið!" Móðir mín fór þegar og tók við mér, en ég þóttist aldrei
verri för farið hafa, þá 5—6 ára.
Næsta vor eftir þennan atburð mun Jón hafa farið frá Veðra-
móti að Hjaltastöðum í Blönduhlíð. Þar giftist hann og bjó þar
nokkur ár. Fór þá til Ameríku, kom hingað aftur og dó háaldraður
á Sauðárkróki (þá oftast kallaður Jón hjalti).
Að Veðramóti fluttist Stefán Stefánsson, sem lengi hafði búið á
Heiði þar í Skörðunum. Kona hans var Guðrún Sigurðardóttir,
skálds frá Heiði.
Þegar Stefán var tekinn við Veðramóti og þá þar með orðinn
landsdrottinn föður míns, setti hann honum tvo kosti: annað hvort
að fara úr kotinu eða láta af hendi túnkragann, sem Stefán kvaðst
sjálfur þurfa að nytja. Tók faðir minn síðari kostinn, með því að
hann átti enga kúna, og eins af hinu, að hann sá ekki fram á, að
hann gæti neins staðar fengið inni, þar eð áliðið var orðið vors
Fékk hann svo slægjur hjá Kálfárdalsbóndanum, sem þá var Skúli
Bergþórsson. Skúli var góður bóndi, greindur vel, bókhneigður og
bókmargur, fróður og hagmæltur.
Eins og áður er sagt, man ég mjög fátt úr lífi mínu þessi æskuár
á Mosfelli, sízt svo að frá því verði sagt. Þó sveimar það í huga mín-
um, að oft muni hafa verið erfitt um lífsbjörg í kotinu á vorin, og er
það ekki undarlegt, þegar þess er gætt, að engin var kýrin. Það var
reynt að lifa á fjallagrösum, en þau gátu ekki heitið mannamatur,
ef ekkert mjöl eða kornvara var til, sem nota mætti saman við þau;
kornvöru var alls ekki hægt að fá á vorin, áður en skip komu, sem
stundum gat dregizt alllengi í ísaárum. En þegar ærnar báru,
mjólkuðu þær svo vel með lömbunum, að til mikilla nota var.
73