Skagfirðingabók - 01.01.1966, Síða 85
ENN UM HAFLIÐA
En nú var það snemma, að Kristján kom að máli við hann og vill
vita, hvað þetta eigi að þýða, hvort hann ætli að setjast þar þannig
upp, og ef svo sé, muni hann fljótlega senda til sýslumanns og verði
hann þá tekinn fastur og fluttur út á Krók. Ekki kvaðst Hafliði það
vilja. Sagði Kristján hann þá verða að fara alfarinn strax og ekki
skuli honum líðast að hafa aðsetur í Tinnárseli, vilji hann ekki, að
brennd séu hey sín þar, en hætta gat verið á því, þar hann reykti
drjúgum tóbak, er honum var gefið. En það höfðu þeir feðgar séð,
að aðsetur hafði hann haft í hlöðudyrum og rifið niður hey undir
sig. Kvaðst Kristján sjá mundu um, að ekki yrði hann þar, og læsa
skyldi hann húsunum.
Fór karl nú að hafa sig til vegs. Litlu eftir að hann er farinn,
taka þeir feðgar hross og ríða fram eftir, og áður Hafliði kemur á
húsin, eru þeir búnir að læsa, en tóku áður poka karls út úr öðru
húsinu.
Kemur nú karl og ætlar inn í húsið það, er pokinn átti að vera í,
en bregður í brún, er lás er fyrir. Sér hann þá pokann og þrífur
hann og fer, og eru kveðjur stuttar. Sýnist karl J->á annað tveggja
reiður eða hræddur.
Leggur hann þá frá húsunum og stefnir á Tinnárdal, sem hann
ætli norður yfir Nýjabæjarfjall, í Eyjafjörð, en af þeirri leið var
Kristján búinn að segja honum.
Varð ég þeim fegðum nú samferða heim. Tafði ég venju frem-
ur lengi á Arbæ, hjálpaði þeim til að þekja hey til að flýta fyrir.
Bjó Kristján sig þá og varð mér samferða fram í tjald, ætlaði að
tína einiber í Lönguhlíð á sunnudag og fara þaðan í göngur á
mánudag. Fórum við þá sem leið lá vestur yfir, fyrir sunnan og
neðan Arbæ, fram Sperðil. Var í byrjun rökkurs, er við komum í
Hrafnsurð. Sjáum við þá, hvar Hafliði kemur framan Fögruhlíð
og heldur út eftir. Er nú líklegt, að hann hafi villzt úr Tinnárdals-
botninum og í botninn á Ytri-Hvítárdal, þar stutt er á milli. Hafði
nú Kristján við orð að snúa til baka heim, en þó varð ekki af því.
Var Iíklegt, að háttað yrði á Arbæ, er karl kæmi þar og að honum
yrði ekki hleypt inn, en hann myrkfælinn, og kynni hann þá að
halda burt, máske áleiðis í Merkigil.
83