Skagfirðingabók - 01.01.1966, Síða 102
SKAGFIRÐINGABÓK
Skagamenn, Reykstrendinga og Skarðamenn, því á þeim slóðum
var hann kunnugastur.
Jón Sigurðsson á Reynistað lýsir Jóni á þessa leið í Skagfirzkum
æviskrám: „Jón var tæplega meðalmaður á hæð og manna létt-
astur á fæti, vel greindur, drjúglyndur og iéttur í máli. Hann var
hagmæltur, fróður og minnugur, og hefir nokkuð birzt eftir
hann í blöðum og tímaritum."
Þættir Jóns, þeir sem nú birtast, eru valdir héðan og handan úr
syrpum hans og teknir að mestu leyti upp eins og höfundurinn
gekk frá þeim. Þó reyndist nauðsynlegt að hnika lítillega til
efnisskipun sums staðar, svo heildarsvipur frásagnarinnar yrði
betri. Eins voru fáeinar skilgreiningar gerðar fyllri. Fyrirsagnir
allar eru frá hendi útgefandans, einnig neðanmálsgreinar.
H.P.
SJÓSLYS UM 1860
Það var að vori til á eyjarvertíðinni, að sjófarendur voru
að sigla að næturlagi frá Sauðárkróki til Drangeyjar út með Reykja-
ströndinni. Smásævi var, en mjög misvinda; stóð úr dölunum, svo
rok var annað veifið. Þorkell hét formaðurinn, en á honum get ég
ekki gert söguleg skil.1 Þeir höfðu fasta seglklóna, svo ekki var
hægt að gefa úr seglinu í vindhviðunum.
Þegar þeir komu norður fyrir Drangsnesið, milli Hólakots og
Daðastaða, gerði snarpa vindhviðu. Þegar skipshöfnin sá rokuna
nálægjast skipið, hölluðu þeir á kulborða, en allt í einu kom hring-
roka á móti og sló í baksegl, svo skipið fyllti á svipstundu og
hvolfdi síðan. Sex menn voru á skipinu, og komust tveir á kjöl,
Pétur Pétursson og annar maður til. Pétur þessi var mjög liðugur
1 Ekki hefur að svo stöddu tekizt að afla frekari vitneskju um mann
þennan, né heldur um Pétur Pétursson, sem nefndur er hér litlu neðar.
100