Skagfirðingabók - 01.01.1966, Page 179
SIGVALDI SKAGFIRÐINGUR
Áður er að því vikið, að Sigvaldi hafi lagt nokkra stund á að
kveða skamma- og klámvísur, og er ástæðulaust að ganga fram hjá
þeim í þessum kynningarþætti. Þó skal vægt í sakirnar farið þeirra
vegna, sem ekki mega Ijótt heyra.
Sigvaldi var eitt sinn að leiðbeina stúlku einni í skrift. en gekk
stirt, stúlkan komin af barnsárum, er kennslan hófst, og þótti Sig-
valda árangurinn ekki í réttu hlutfalli við fyrirhöfn. Einkum gekk
stúlkunni illa að rita stafinn ð, svo að Sigvalda líkaði. Hreytti hann
þá einu sinni út úr sér:
Eð-ið liggur aftur á bak,
eins og mær í fleti,
nær hún reynir þyngsta þjak,
og það af mannaketi.
Fíngerðasti skammakveðlingur Sigvalda er erindi, sem heitir
Mœðumaðurinn:
Hver er mæðumaður
meiri heldur en sá,
er vex upp velgáfaður
vönduðu fólki hjá,
títt áminntur um trú og dyggð,
en sig gjörir innan skamms
allra viðurstyggð?
Steinn Vigfússon í Stóru-Gröf var orðlagður búmaður og bjarg-
vættur mikill sveitunga sinna. Nokkuð þótti hann fljótfær, og kom
því margt á afturfótunum út úr honum. Um þennan kunningja
sinn orti Sigvaldi í gamni:
Oft ég hlæ að orðum Steins.
Er það ljótur siður,
— en varla fæðist annar eins
axarskaftasmiður.
12
177