Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1987, Síða 13
MÚLAÞING
11
Fullvíst má telja og sögnum ber saman um það að brú hefir verið á
ánni hjá Fossvöllum allt frá dögum Þorsteins hvíta eða söguöld. Því
er trúað af sumum að steinbogi hafi verið á Jökulsá hjá Fossvöllum.
Kaalund, sem hefir ritað bók um sögustaði landsins, vill ekki fallast á
þessa skoðun og heldur að brú sú á ánni sem getur um til forna hafi
verið gerð af mannahöndum.
Sagnir eru til um aðra brú á Jökulsá til forna, hafi hún verið á ánni
hjá bænum Brú á Jökuldal. Örnefni benda til þess, bæði bæjarnafnið
Brú, Brúarskógur og Brúardalir. í Hrafnkels sögu Freysgoða segir á
þessa leið: „Sámr snýr aðra leið ór dalnum. Hann ferr norðr til brúa
ok svá yfir brú ok þaðan yfir Möðrudalsheiði, ok váru í Möðrudal um
nótt.“ Til baka fór Sámur ásamt þeim Þjóstarsonum alla hina sömu
leið þar til þeir koma að Jökulsá. Um það segir svo: „ - þeir koma í
nætrelding í Jökulsdal, fara yfir brú á ánni og var þetta þann morgin
er féránsdóm átti að heyja. Þá spyrr Þorgeirr, hversu þeir mætti helzt
á óvart koma. Sámur kvaðzk mundu kunna ráð til þess. Hann snýr
þegar af leiðinni ok upp á múlann ok svá eptir hálsinum milli Hrafnkels-
dals og Jökulsdals.“ Eftir þessari glöggu staðháttalýsingu má ljóst vera
að brú sú er um getur hefir ekki verið hjá Fossvöllum, heldur nálægt
því þar sem mætast Jökuldalur og Hrafnkelsdalur. Líklegt er að heitið
Jökulsá á Brú sé dregið af brú sem þarna hafi verið til forna, enda
sagnir um að steinbogi hafi verið á ánni þarna en síðar hrunið. Minnist
Þorvaldur Thoroddsen á þetta í ferðabók sinni. Líklegt þykir mér að
hafi einhvern tíma verið steinbogi á Jöklu, hafi hann verið hjá Brú og
af þeirri brú dragi bærinn nafn. í Droplaugarsona sögu segir á þá leið,
eftir víg Helga Ásbjarnarsonar á Eiðum: Létu þeir sem sáu um eftirmál
vígsins - „halda vörð á vöðum öllum ok sitja við brúar á Jökulsá,“ til
þess vegandinn Grímur Droplaugarson kæmist ekki brott úr héraðinu.
En Grímur átti frænda og vina að leita í Vopnafirði. Var hann syndur
vel og forðaðist því brýr allar, þar sem hann vissi um fyrirsátir sér
gerðar. Lagðist hann til sunds yfir ár og komst í Vopnafjörð.
Eins og áður segir tók trébrú af Jökulsá hjá Fossvöllum 1625. Ekki
löngu síðar var brúin endurbyggð. Um 1670 laskast brúin í svokölluðum
Brúarbyl, en er fljótt endurbyggð. Kostnaði öllum við þá brúarsmíði
skipt niður á sýslubúa í Múlasýslu. í Fitjaannál segir svo við árið 1695:
„Jökulsá í Jökulsárdal austur stífldist upp af frostum og jöklasafni,
hver stífla að þess var orkandi, að trébrúin á ánni, sem eigi hefur af
farið, svo menn viti, hljóp með öllu gersamlega, svo að af tók brúna;
er þó skilvíslega sögð 20 álna hæð frá brúnni ofan að vatninu.“ Enn