Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1999, Síða 68
Múlaþing
Viðbót um búðir og skála á Fljótsdalsafréttum
Á síðustu tveimur áratugum hafa risið
nokkrar byggingar fyrir rannsóknamenn
og annað starfsfólk á fyrirhuguðum virkj-
unarsvæðum á Fljótsdalsafréttum. Þar er
oftast um að ræða tilbúna timburskúra, að
lögun sem járnbrautarvagnar, sem fluttir
hafa verið á viðkomandi staði og settir
þar niður á grunna. Oftast eru nokkrir
slíkir skúrar samtengdir, og kallast þá
almennt búðir. Auðvelt er að taka búð-
irnar upp og flytja þær, enda mun ekki til
þess ætlast að þær verði varanlegar. Tvo
slíka skúra hefur Orkustofnun afhent eða
selt heimamönnum, eins og þegar var
getið, þ.e. skálana við Syðri-Lindur á
Vesturöræfum og Laugafell undir Fellum,
og eru þeir m.a. notaðir af gagna-
mönnum. Síðan 1970 hafa líka sprottið
upp nokkur sæluhús eða skálar fyrir
ferðafólk á Fljótsdalsöræfum. Þeir eru
einnig timburhús, sem annaðhvort hafa
verið reist á staðnum, eða sérbyggð og
flutt þangað. Olíkt búðunum er þeim
ætlað að standa til framtíðar, enda vel til
þeirra vandað.
Geldingafellsskáli á Múlaafrétt
„Húsið er byggt af Ferðafélagi
Fljótsdalshéraðs á 7 dögum. Lagt var af
stað á 8. degi með húsið fullunnið, með
kabyssu og kojum, 25. apríl 1980, á
dráttarbíl Eðvalds Jóhannssonar, á
undanþágu Vegagerðarinnar vegna
þungatakmarkana. Flutti hann húsið á
Grenisöldu... Síðan var ferðinni haldið
áfram á snjóbílnum Tanna og tveim
snjósleðum...haldið suður yfir Jökulsá
við Eyjabakkafoss, og tekin þar komp
ásstefna á Geldingafell /'/> tíma í myrkri
og dimmviðri, og ekki allir á eitt sáttir
um staðarákvörðun í náttstað 26. apríl.
Veður slæmt og skyggni ekkert fram
yfir hádegi, en þá rofaði til og sást til
Geldingafells. Var þá ferðinni fram
haldið, og húsinu komið fyrir á þessum
stað. Grjót var sótt ífell vestur afhúsinu,
og það skírt Grjótfell í tilefni þess...
Eldavélin var sett saman, en reykrör
vantar. Smíðaðar voru hyllur og unnið að
ýmsum frágangi fram til kl. 24 og þá
farið að sofa... Eldavélin er fengin frá
Finnsstaðaseli, þar sem hún hefur legið
ónotuð í 30 ár. “
Þetta eru upplýsingar úr gestabók
Geldingafellsskála, sem komin er á Hér-
aðsskjalasafnið. Húsið var stækkað
(lengt) í september 1993, og rúmar nú 16
manns í kojum, en hægt er að koma allt
að 20 manna hópum fyrir. Björn Ingvars-
son teiknaði viðbygginguna, og Hermann
Eiríksson var yfirsmiður. Um 11 manns
úr Ferðafélaginu unnu við þessar
breytingar í sjálfboðavinnu.
Skálinn stendur á tungu norðan undir
Geldingafelli (1087 m y.s.) þar sem
Keldá og jökulkvíslin Blanda koma
saman. Keldá á upptök í Keldárvatni,
nyrst í Vatnadæld, austan við Geldinga-
fell. Skálinn er í um 750 m h. y.s. og
stendur um 4,5 km suðaustan við Berg-
kvíslakofann. Staðsetning hússins var
miðuð við hæfilega dagleið gangandi
manna yfir Eyjabakkajökul frá Snæfelli,
og áfram þaðan í skála er nefnist Egilssel
við Kollumúlavatn á Lónsöræfum. Ekki
er fært nema torfærubílum að Geldinga-
fellsskála. Skálinn er eign Ferðafélags
Fljótsdalshéraðs.
66