Jón á Bægisá - 01.02.2007, Blaðsíða 10
ögmundur Bjarnason
og réð sig um tíma sem handritshöfund að fræðslukvikmyndaveri breska
ríkisins (GPO). Tókust þar kynni með honum og tónskáldinu unga, Ben-
jamin Britten, sem áttu eftir að bera ávöxt í frjóu samstarfi þeirra utan
veggja kvikmyndaversins, m.a. óperettunni Paul Bunyan, sem samin var
í Bandaríkjunum veturinn 1939, auk þess sem Britten samdi lagaflokkana
Our Hunting Fathers (1936) og On This Island. (1937) við kvæði Audens og
setti þess utan tónlist við leikrit þeirra Isherwoods, The Ascent of F6. Til
allrar óhamingju fyrir tónlistarunnendur slitnaði upp úr þessu samstarfi
í upphafi fimmta áratugarins, þegar virðist hafa komið til einvers konar
vinslita milli þeirra Brittens, að því er sumir segja vegna ástleitni skáldsins
við hið unga tónskáld (sem eins og margir vita var þó alla tíð líkt farið í
kynferðislegum efnum og Auden sjálfum).
Sumarið 1936 leggur Auden svo upp í hina fyrstu miklu utanlands-
reisu sína eftir Þýskalandsdvölina, er hann heldur sjóveg norður til Is-
lands í kompaníi við vin sinn frá háskólaárunum og bróður í skáldlistinni,
írska skáldið Louis MacNeice. Höfðu þeir félagar báðir kynnst nokkuð
Islendingasögum í enskum þýðingum og hrifist af - einkum þó Auden,
sem taldi sig auk þess eiga að rekja ættir hingað eins og að ofan getur. Þegar
Auden bauðst samningur við bókaútgáfuna Faber & Faber um ritun ferða-
bókar gegn greiðslu alls ferðakostnaðar, var honum ekkert að vanbúnaði að
halda til fundar við eyjuna í norðri sem hann hafði í æskudraumum sínum
séð fyrir sér sem „heilaga jörð“. Mun Auden hafa siglt út hingað nokkru á
undan MacNeice og dvalist hér röskan mánuð áður en félagi hans kom til
fundar við hann. Snemma í júlímánuði 1936 stígur hann á land í Reykjavík
og finnst ekki mikið til höfuðstaðarins koma, hvorki að útliti né menn-
ingarbrag, skoðar þó Þjóðminjasafnið, Listasafn Einars Jónssonar, Alþing-
ishúsið og barinn á Hótel Borg og þykir þar „ekki fleira markvert að sjá,
utan Óla Maggadon niðri á höfn, Odd Sigurgeirsson [„Odd sterka“] út um
allt, málarann Kjarval og Arna Pálsson, prófessor í Islandssögu.“ Á næstu
vikum og mánuðum ferðast þeir MacNeice svo vítt og breitt um landið,
vestur í Reykholt, norður á Akureyri og Mývatn og austur í Hallormsstað,
og hrífast af fegurð landsins, gestrisni og menningarbrag landsmanna.
Þegar þeir svo halda aftur utan um miðjan septembermánuð, eftir þriggja
mánaða dvöl hér, sem löngu síðar stendur í minning skáldsins „upp úr sem
einhver ánægjulegasti tími í lífi manns, sem hingað til hefur lifað óvenju
ánægjulegu lífi“, hafa þeir í farteskinu uppkast að sameiginlegri leiðangurs-
lýsingu sinni, ferðabókinni Letters from Iceland (1937), undarlegu sam-
blandi af kveðskap og prósa, lýsingu á fólki og staðháttum, handbók fyrir
ferðamenn, samantekt á hnyttilegum klausum úr eldri ferðalýsingum og
broslegum hugleiðingum um lífið og skáldskapinn.
Árið 1936 kom einnig út önnur kvæðabók Audens, On Ihis Island,
8
á dÐagpálá — Tímarit þýðenda NR. II / 2007