Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2010, Blaðsíða 58
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 1. tbl. 86. árg. 201054
Jæja, nú ætlum við að búa um hann og hvort hún vilji fara fram
á meðan. Hún segir: „Nei, ég vil bara vera hér. Ég vil bara taka
þátt í þessu.“ Þannig að við bjuggum tvær um líkið. Þetta var
mjög sérstök reynsla.
Hjúkrunarfræðingnum leið vel eftir þetta, var ánægður með
hversu vel hafði gengið að sinna þessari athöfn og að hugsa
um aðstandandann þannig að hann væri sáttur. Annar
hjúkrunarfræðingur lýsti því hvernig hann virðir skoðanir
sjúklingsins og getur tekið því að hann hafi skoðanir á
meðferðinni sem ganga gegn hefðbundnum venjum:
Hann var einn af þeim sem þótti að mörgu leyti ... erfiður
sjúklingur. Vegna þess að ... hann hafði ofsalega skýrar
skoðanir á sinni meðferð, hann hafði mikla þekkingu og ...
hikaði ekkert við að segja sínar skoðanir ... hann náttúrlega fór
mikið út fyrir það sem aðrir sjúklingar gera, en mér fannst ég,
mér fannst allt í lagi að sætta mig við það.
Því skiptir máli að „geta látið af stjórninni án þess að finnast
maður vera að missa tökin“. Þessi hjúkrunarfræðingur vissi að
ef hann hefði verið nýútskrifaður hefði hann átt erfitt með að
hjúkra sjúklingnum en með reynsluna að vopni gat hann átt
góð samskipti við hann og hjúkrað honum þrátt fyrir framkomu
hans.
Hjúkrunarfræðingarnir vilja einnig að „reynsla“ þeirra og
„sérþekking“ sé virt. Því til stuðnings nefndu tveir atvik sem
þeir nefndu „faglega móðgun“. Fyrra tilfellið var þegar persóna,
háttsett í þjóðfélaginu, var sjúklingur á deildinni og sérfræðingur
úthlutaði deildarlækni verki sem hjúkrunarfræðingar vinna að
öllu jöfnu og hafa mun meiri reynslu af að sinna heldur en þeir. Í
hinu dæminu spyr læknir, sem ekki hefur reynslu af viðkomandi
sjúklingahóp, hjúkrunarfræðinginn ráða: „Ég vissi alveg hvað
átti að gera en þeir vissu það ekki. Svo labba þeir út og ég
gerði vinnuna þeirra. Svo koma þeir á stofugang næsta dag og
þá mátti maður ekki taka neina ákvörðun sjálfur.“
Þá er grundvallaratriði að finna að starfið ber árangur, sjá að
sjúklingnum batnar og kemst heim og fá þakklæti fyrir að leggja
sig fram. Það gerir „starfið skemmtilegt“ og jafnvel „heldur
þeim hreinlega í starfi“. Það skiptir því öllu máli að fá að njóta
uppskerunnar því „annars væru þeir ekki þarna“: „Það er alveg
gífurlegt þakklæti sem maður fær. Dag eftir dag ...“
UMRÆÐA
Hvatinn að þessu verkefni, eins og fram kom í inngangi, var
vinna Allen (2004) og ákváðum við að byggja umræðukaflann
að hluta til á flokkunum átta sem hún telur lýsa störfum breskra
hjúkrunarfræðinga. Við samanburðinn verður að hafa hugfast
að gagnasöfnun var með ólíkum hætti; í rannsókn Allen var
gagna aflað á vettvangi og með athugun (e. observation). Okkar
niðurstöður byggjast hins vegar einvörðungu á frásögnum
hjúkrunarfræðinganna sjálfra. Samanburður sýnir að störf
hjúkrunarfræðinga á skurðlækningasviði falla að einhverju
leyti undir flokkana átta. Það sem einkum virðist ólíkt er hve
íslensku hjúkrunarfræðingarnir virðast í litlu styðjast við reglur
eða staðla til að stýra flæði sjúklinga eða fella þá að vinnukerfi
stofnunar en slík atriði komu lítið sem ekkert fram í frásögnum
eða umræðum þátttakenda. Það gæti einfaldlega skýrst af
skorti á slíkri umgjörð á stofnuninni. Þá virtist skráning ekki
skipa háan sess í hugum þátttakenda eða vera umfangsmikil,
þvert á það orðspor sem af hjúkrunarfræðingum kann að
fara um að þeir eyði miklum tíma í þá iðju. Þetta gæti þó
samræmst rannsóknarniðurstöðum um að sú hjúkrun, sem
veitt er, sé aðeins að litlum hluta skráð og einn þeirra þátta sem
valda ósýnileika hjúkrunarstarfsins (Butler o.fl., 2006; Kristín
Björnsdóttir, 1994). Sé það raunin felur slíkt jafnframt í sér að
þátttakendur finni ekki þörf hjá sér, né fyrir þeirri kröfu gagnvart
sér, að þeir skrái meira en þeir gera.
Ekki varð þess heldur vart að þátttakendur litu fram hjá
tilfinningalegum hluta starfsins við forgangsröðun úrræða
eins og Allen heldur fram. Þvert á móti eru andlegir þættir
og samskipti innifaldir í sýn þeirra á starfið og hluti af
starfsþroskanum. Að ná færni á þessum sviðum virðist hafa
mikið að segja varðandi ánægju þeirra í starfi. Þessi áhersla,
sem þátttakendur leggja á að öðlast, nýta og njóta þroskans,
og þau viðmið, sem að baki liggja, eru lítt áberandi í umræðu
um hjúkrunarstarfið og verðskulda frekari athygli.
Þá er nauðsynlegt að draga betur fram hve fagleg umhyggja
er oft hluti starfinu og jafnframt að hafa í huga að verkefnin eru
margslungin og flóknari en í fyrstu virðist. Daglegu spjalli er
þannig markvisst beitt til að meta andlegt og líkamlegt ástand
en með spjallinu gefst einnig tækifæri til að nálgast sjúklinga
og ættingja og fjalla eðlilega um viðkvæm málefni. Það skyldi
því varast að skilgreina hjúkrunarfræðistarfið út frá verkþáttum
starfsins eða jafnvel hvað fer fram þegar sjúklingur er tekinn
tali, því án frekari ígrundunar er erfitt að meta ýmiss konar
eftirlit eða meðferð sem samhliða fer fram. Rannsakendur, sem
eingöngu beita athugun við gagnasöfnun, gætu þannig gefið
ranga mynd af því hvað felst í störfum hjúkrunarfræðinga. Oft
er auðvelt að koma auga á verklega þætti hjúkrunarstarfsins
en eftirlit og árvekni eru frekar falinn þáttur í starfinu, og það
þrátt fyrir að árvekni hjúkrunarfræðinga yfir hverri skyndilegri
eða fyrirsjáanlegri breytingu á ástandi sjúklingsins sé talið
aðalsmerki stéttarinnar sem fagstéttar (Latimer, 1998). Orsakir
þess að eftirlit og árvekni er frekar dulið má ef til vill rekja
til þess að þessa þætti starfsins vinna hjúkrunarfræðingar á
meðan þeir sinna sýnilegri verklegri eða tæknilegri störfum. Þá
ætti að fara varlega í að sundurgreina störf hjúkrunarfræðinga
um of, hvað þá að stilla verklegum eða tæknilegum athöfnum
upp sem andstæðu við umhyggju eða heildræna hjúkrun
sjúklinga. Slíkt getur leitt til þess að hjúkrunarfræðingar ræða
lítt um tæknilegan eða læknisfræðilegan hluta starfs síns
(Gordon, 2006). Fari svo að hjúkrunarsamfélagið skilgreini
inntak hjúkrunar (e. nursing mandate) sem tilfinningavinnu
fyrst og fremst geta verk, sem falla undir verklegar athafnir og
aðhlynningu, orðið í andstöðu við sjálfsmynd hjúkrunarfræðinga
og aukið á óánægju þeirra þar sem þeim finnst þeir þá vera að
gera eitthvað annað en þeir ættu að vera að gera. Með hliðsjón
af niðurstöðum okkar rannsóknar teljum við líkt og Allen að slík
skilgreining sé til þess fallin að draga úr þróun hjúkrunar og gefi