Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2010, Blaðsíða 59
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 1. tbl. 86. árg. 2010 55
Ritrýnd fræðigrein
auk þess ranga mynd af viðfangsefnum hjúkrunarfræðinga.
Nelson og Gordon (2006) benda enda á að óheillavænlegt sé
að í opinberri orðræðu um umhyggju falli færni, flókin líkamleg
aðhlynning, notkun tækni og læknisfræðileg þekking í skuggann
af sálfélagslegu hlutverki og fræðslu hjúkrunarfræðingsins.
Fræðimenn í hjúkrun hafa vissulega bent á að fagleg umhyggja
feli alltaf í sér faglega færni, hún sé alltaf virk og feli yfirleitt í
sér að gera eitthvað fyrir sjúklinginn eða að vera með honum
(Halldórsdóttir og Hamrin, 1997). Þessi skilningur kom fram
í frásögnum hjúkrunarfræðinganna þar sem fagleg umhyggja
birtist gjarnan í dæmum um tæknileg verk og aðhlynningu
og sýnir að líkamleg og andleg aðhlynning getur vel farið
fram á sama tíma. Eftirtektarverðar eru þó einnig niðurstöður
rannsóknar Allan (2001) um að hjúkrunarfræðingar geti sýnt
umhyggju þannig að þeir sjái til þess að sjúklingar fái það sem
þeir þurfa en tengjast sjúklingunum ekki og að sjúklingarnir
ætlist heldur ekki til meira af þeim. Slíkt kemur einnig fram í
tveimur rannsóknum á þörfum sjúklinga og aðstandenda þeirra
á bráðamóttöku en þar kemur skýrt fram sú afstaða sjúklinga
og ættingja að mikilvægast sé að hjúkrunarfræðingar vinni störf
sín af færni og kunnáttu (Guðrún Björg Erlingsdóttir, 2008;
Gyða Baldursdóttir, 2000).
Áhrif umhverfis á störf hjúkrunarfræðinga
Hjúkrunarfræðingar eru í starfi sínu háðir húsnæði og öðru ytra
umhverfi og þurfa sífellt að endurmeta aðstæður. Þátttakendur
í þessari rannsókn minntust aldrei á að sjúklingarnir sjálfir
væru þeim ofviða en hins vegar kom fram að utanaðkomandi
aðstæður töfðu störf þeirra. Hjúkrunarfræðingarnir stjórna því
ekki alltaf tíma sínum í vinnunni líkt og rannsókn á störfum
hjúkrunarfræðinga á gjörgæsludeild sýndi því að ytri aðstæður
ráða iðulega hvernig tíma þeirra er varið (Adomat og Hicks,
2003). Einnig kom fram að störf þeirra eru ekki alltaf í
samræmi við þjálfun þeirra eða færni. Er þetta samhljóða okkar
niðurstöðum þar sem hjúkrunarfræðingarnir sinna störfum,
sem ekki tengjast sjúklingnum beint eða falla undir verksvið
annarra, til að tryggja öryggi sjúklinganna og allt gangi
snurðulaust fyrir sig. Þetta hlutverk telur Allen (2007) til komið
af miðjustöðu þeirra í kerfinu. Hjúkrunarfræðingar eru staðsettir
í miðju þar sem ýmsir meginferlar stofnunarinnar mætast og á
þeim vettvangi þurfa þeir að hafa samskipti við sjúklinga og
fjölskyldur þeirra, aðra heilbrigðisstarfsmenn og fleiri og sinna
mismunandi störfum eftir því hvar þeir eru staðsettir innan
heilbrigðisþjónustunnar (Herdís Sveinsdóttir, 2007). Kanna þarf
hvort aðrar starfsstéttir geta létt álagi af hjúkrunarfræðingum;
þó þyrfti að velja vandlega hverju ætti að breyta og hvaða
afleiðingar það hefði á líðan hjúkrunarfræðinga í starfi og á
afdrif sjúklinganna.
Samskipti og ímynd hjúkrunarfræðinga
Hnökrar í samskiptum við lækna, langar boðleiðir og fjarvera
lækna af deildum valda nokkrum áhyggjum enda tefur það
meðferð líkt og kemur til að mynda fram í rannsókn Torjuul
og Sorlie (2006) á siðfræðilega erfiðum aðstæðum sem
hjúkrunarfræðingar á skurðlækningadeildum standa frammi
fyrir. Umhugsunarvert er að reyndir hjúkrunarfræðingar þurfi
að fara langa boðleið að sérfræðingum, jafnvel þegar mikið
liggur við. Þannig eru þeir settir á sama bás og nýgræðingar
í læknastéttinni og framlag þeirra til greiningar og meðferðar
gert lítt sýnilegt. Sýnu verra getur verið ef langar boðleiðir frá
reyndum hjúkrunarfræðingum að sérfræðingum tefja fyrir að
viðeigandi læknisfræðileg meðferð sé veitt um leið og þess
er þörf. Einnig er ámælisvert að hjúkrunarfræðingar eyði
dýrmætum tíma í að ganga á eftir annarri stétt til að nauðsynleg
verk séu unnin. En því er þetta hluti hjúkrunarstarfsins? Allen
(2007) segir hjúkrunarfræðinga stýra samskiptum mismunandi
heilbrigðisstétta og samhæfa störf þeirra til að leitast við að
tryggja samfellu í umönnun og séu með þessu að vinna í þágu
sjúklinganna.
Þá vakti athygli að svo virtist sem þátttakendur hefðu að miklu
leyti náð að samræma eigin veruleika hugmyndum í hjúkrun,
svo sem umhyggju, virðingu fyrir skjólstæðingum, rétti þeirra
og sérstöðu hvers og eins. Þeir virðast því ekki ósáttir við sína
eigin ímynd ólíkt því sem fram kemur í lýsingu Dingwall og
Allen (2001). Þetta gæti skýrst af starfsreynslu þeirra og hæfni
til að forgangsraða úrræðum. Þó kom fram dæmi um hversu
lítið má út af bera til að hjúkrunarfræðingar nái ekki að sinna
sjúklingum á fullnægjandi hátt. Slíkt vekur upp spurningar um
hvort og hvernig sé hægt að tryggja viðeigandi aðstoð við slíkar
aðstæður.
Takmarkanir og styrkur rannsóknarinnar og notagildi
Rýnihópar eru ekki endilega rétti vettvangurinn til að kafa
nægilega djúpt í starfið enda hefur verið bent á að gallar
þeirrar gagnasöfnunaraðferðar séu meðal annars þeir að sumir
þátttakendur eigi erfitt með að greina frá viðhorfum sínum
og lýsa reynslu sinni fyrir framan hóp (Polit og Beck, 2006)
og aðrir frásagnarbetri geti ráðið umræðunni (Goodman og
Evans, 2006). Í þessari rannsókn, þar sem einungis er um að
ræða einn hóp, var hins vegar hver fundur hópsins skipulagður
þannig að á hverjum fundi sagði einn þátttakandi frá vakt í
starfi sínu og stýrði því umræðunni í það skipti. Þá þarf að
hafa í huga að þátttakendur höfðu víðtæka reynslu og ekki
óvanir umræðu um hjúkrunarstarfið. Einnig má geta þess,
að þrátt fyrir að þátttakendur séu valdir af deildarstjórum er
hér um að ræða reynslumikla hjúkrunarfræðinga sem geta
dregið upp raunsanna mynd af degi í starfi sínu og spurt
raunhæfra spurninga á jafningjagrunni enda ekki um nein
valdatengsl innan hópsins að ræða. Þá hefur það verið
talið rýnihópum til lasts að niðurstöður þeirra geti orðið
yfirborðskenndar (Webb og Kevern, 2001). Á móti má benda á
að rýnihópar gera rannsakendum fært að ná fram málnotkun,
forgangsröðun og viðhorfum þátttakenda og þetta er ein af
fáum gagnasöfnunaraðferðum sem gerir þeim kleift að móta
skoðanir sínar og hugmyndir meðan á gagnasöfnun stendur
(Goodman og Evans, 2006). Þar eð hópaviðtöl byggjast á
virkri þátttöku og gagnkvæmum samskiptum (Krueger, 1994)
geta komið fram upplýsingar sem ekki fást með viðtölum við
einstaklinga (Sóley S. Bender, 2003).
Til að skýra störf hjúkrunarfræðinganna betur og fá víðari
sýn á störfin þarf þó að beita fjölþættari aðferðum við
gagnaöflun. Því hefur verið saminn spurningalisti sem byggist