Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2013, Síða 51

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2013, Síða 51
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 1. tbl. 89. árg. 2013 47 Ritrýnd fræðigrein SCIENTIFIC PAPER o.fl., 2004). Kvíði í tengslum = (ýkt + óttablandin) – (traust + losaraleg) og hliðrun í tengslum = (losaraleg + óttablandin) – (traust + ýkt) (Sibley og Liu, 2006). Gæði í samböndum (perceived relationship quality component inventory). Þessi spurningalisti kannar gæði í rómantískum samböndum (Fletcher o.fl., 2000). Rómantískt samband einkennist af ástúðlegum tengslum milli maka eða þeirra sem eru í traustu ástarsambandi og inniheldur flókið félagslegt og tilfinningalegt ferli (Hazan og Shaver, 1987). Spurningalistinn inniheldur sex spurningar sem skoða ánægju, skuldbindingu, nánd, traust, ástríðu og ást. Þátttakendur merkja við á sjö gilda Likert-kvarða sem nær frá 1 (alls ekki ánægð(ur)) til 7 (ákaflega ánægð(ur)). Dæmi um spurningu: „Hversu ánægð(ur) ertu í sambandinu?“ Því fleiri stig sem þátttakandi fær því meiri gæði telur hann að séu í sambandinu. Notaður var allur kvarðinn í þessari rannsókn. Kannaður var innri áreiðanleiki spurningalistans með Chronbach-alfa og var hann α=0,84, sem samræmist öðrum rannsóknum (α=0,85–0,88) (Fletcher o.fl., 2000). Rannsóknarleyfi Áður en gagnasöfnun hófst lá fyrir leyfi frá Vísindasiðanefnd (VSNb2004020040/03-1) fyrir rannsókninni auk þess sem rannsóknin var tilkynnt til Persónuverndar (S1872). Jafnframt var aflað skriflegs leyfis frá deildarforsetum þeirra deilda í Háskóla Íslands þar sem gögnum var safnað. Rannsóknin var kynnt fyrir þátttakendum áður en könnunin var lögð fyrir og fengu þeir afhent kynningarbréf um tilgang rannsóknarinnar og rétt þeirra áður en hún var lögð fyrir á skólatíma. Framkvæmd Spurningalistarnir voru lagðir fyrir nemendur í lok kennslu- stundar. Rannsóknin var kynnt fyrir þeim og fengu þátttakendur í hendur kynningarbréf um rannsóknina og rétt sinn. Það tók nemendur um 30 mínútur að svara spurningalistunum. Að lokinni þátttöku fengu þeir blað með nánari upplýsingum um rannsóknina frá ábyrgðarmanni alþjóðlegu rannsóknarinnar, David P. Schmitt. Gagnagreining Gögnin voru skráð og greind með aðstoð tölfræðiforritsins SPSS (14. útgáfu). Kannaður var innri áreiðanleiki þriggja spurningalista með Chronbach-alfa. Stuðst var við fylgniútreikninga Pearson við skoðun á hugsmíðarréttmæti líkansins og við gagnagreiningu meginbreyta rannsóknarinnar (tengslagerðir, tengslavíddir, sjálfsvirðing og gæði í rómantískum samböndum). Miðað er við miðlungssterka fylgni þegar hún er á bilinu 0,30-0,60 (Levin og Fox, 2003). Miðað var við marktæknimörk p<0,05. Kannað var hugsmíðaréttmæti líkansins af sjálfinu og líkansins af öðrum sem leitt er af tengslakvarðanum. Tilgangurinn var sá að fá úr því skorið hvort spurningalistinn kannaði það sem honum var ætlað að kanna en það var gert með því að skoða tengsl skyldra eða svipaðra hugtaka en einnig með því að skoða tengsl andstæðra hugtaka. Í þessu sambandi var kannað hvort líkanið af sjálfinu tengdist sjálfsvirðingarkvarðanum og leiddu niðurstöður í ljós marktæka jákvæða fylgni, p<0,001. Einnig var kannað hvort líkanið af öðrum tengdist vingjarnleikakvarðanum og kom þar í ljós marktæk jákvæð fylgni, p<0,005. Í sambandi við gæði í rómantískum samböndum var annars vegar notað heildarhugtakið gæði, sem er breyta búin til úr sex gæðaþáttum, og hins vegar voru skoðaðir einstakir þættir gæða, þ.e. ánægja, skuldbinding, nánd, traust, ástríða og ást. NIÐURSTÖÐUR Í rannsókninni tóku 423 háskólastúdentar þátt, þar af voru 287 konur (67,9%) og 136 karlar (32,1%). Þetta er svipað kynjahlutfall og var meðal þeirra 7749 nemenda sem stunduðu nám í grunnnámi við Háskóla Íslands á vorönn 2005 þegar gögnunum var safnað, það er 63,0% konur og 37,0% karlar. Stærð úrtaksins í þessari rannsókn er því um 5,5% af heildarfjölda nemenda í grunnnámi Háskóla Íslands á þessum tíma. Aldur þátttakenda var á bilinu 19-36 ár og var meðalaldur þeirra 22,8 ár (SD=2,7). Meðalaldur kvenna var 22,9 ár en karla 22,6 ár. Niðurstöður um hugsmíðarréttmæti sýndu að það var í flestum tilfellum gott því marktæk miðlungssterk jákvæð fylgni var á milli líkansins af sjálfinu og sjálfsvirðingarkvarðans og marktæk veik jákvæð fylgni var á milli líkansins af öðrum og vingjarnleikakvarðans. Einnig var marktæk miðlungssterk neikvæð fylgni milli andstæðra tengslagerða. Þessar niðurstöður eru í samræmi við það sem gert er ráð fyrir út frá líkani Bartholomew um tengsl (Schmitt o.fl., 2004). Niðurstöðurnar gefa því vísbendingar um að tengslakvarðinn gefi rétta mynd af því sem hann á að skoða. Þegar skoðað var samband traustrar tengslagerðar við sjálfs- virðingu reyndist ekki vera marktækt samband milli þeirra en hins vegar kom fram marktæk neikvæð fylgni á milli þeirra sem voru með óttablandna (r=-0,18) eða ýkta tengslagerð (r=-0,18) ásamt kvíða í tengslum (r=-0,22) við sjálfsvirðingu (tafla 3). Einnig var skoðað (ekki sýnt í töflu) hvort samband væri á milli sjálfsvirðingar og heildargæða í rómantískum samböndum og kom í ljós að marktæk jákvæð fylgni var á milli þessara þátta (r=0,16). Þegar athugað var samband tengslagerða og tengslavídda við heildargæði í rómantískum samböndum og einstaka þætti þeirra þá kom í ljós jákvæð fylgni (r=0,17) á milli einstaklinga með trausta tengslagerð og heildargæða í rómantískum samböndum. Þegar þetta var skoðað nánar út frá einstökum þáttum gæða reyndist vera marktækt samband við tvö atriði, ánægju (r=0,15) og ástríðu (r=0,25). Við skoðun á öðrum tengslagerðum kom í ljós að aðeins þeir sem höfðu óttablandna tengslagerð voru með marktækt neikvætt samband (r=-0,32) við heildargæði í rómantískum samböndum og við nánari athugun voru það allir gæðaþættirnir sex sem komu fram með marktæka neikvæða fylgni (r=-0,17 til -0,29). Einstaklingar með kvíða (r=-0,23) og hliðrun (r=-0,24) í tengslum voru einnig með marktæka neikvæða fylgni við heildargæði. Við frekari athugun kom í ljós að þeir sem sögðust vera með kvíða í tengslum höfðu marktækt neikvætt samband við alla sex gæðaþættina (r=-0,13 til -0,25) nema skuldbindingu. Þeir sem síðan sögðust vera með hliðrun í tengslum höfðu marktækt neikvætt samband við alla gæðaþættina (r=-0,15 til -0,26) nema traust.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.