Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2013, Page 57
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 1. tbl. 89. árg. 2013 53
Ritrýnd fræðigrein
SCIENTIFIC PAPER
því eftir að það sé gert og ekki síður að færa til verkefni svo hægt
sé að komast yfir allt sem vinna þarf. Einn sagði:
„Hjúkrunarfræðingar á hjúkrunarheimilum þurfa að vera miklu
meiri stjórnendur þar sem þeir eru með marga ófaglærða
starfsmenn og jafnvel eini hjúkrunarfræðingurinn á vaktinni.
Þeir eru „vaktstjórar“ og vasast í öllum hlutum; meira heldur
en á spítala.“
„Það getur verið rosalega mikið, við þurfum að vera inni í svo
mörgu þó það sjáist ekki alltaf.“
Óvæntir atburðir eru dagleg viðfangsefni, svo sem að kalla út
starfsmann og hagræða verkefnum ef einhver forfallast. Því
þurfa hjúkrunarfræðingar að vera vel skipulagðir og kunna að
forgangsraða verkefnum en mikill tími fer í þessi störf:
„Hjúkrunin byggist mikið á því að skipuleggja, forgangsraða
og stýra verkum og sjá til þess að fólkið fái sína þjónustu.“
Hjúkrunarfræðingarnir leysa einnig alls konar viðfangsefni
óviðkomandi hjúkrun, svo sem að skipta um ljósaperur, hreinsa
niðurföll og sjá um ýmsa snúninga fyrir heimilismenn.
Lágt hlutfall hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða í samanburði við
aðstoðarfólk veldur því að hjúkrunarfræðingar þurfa stöðugt
að kenna og fræða aðstoðarfólk. Það þarf að upplýsa
aðstoðarfólkið um þarfir aldraðra, sérstaklega varðandi svefn
og hreyfingu og leiðbeina um hvernig umönnunin er innt af
hendi. Við þessa leiðsögn þurfa hjúkrunarfræðingarnir að vera
úrræðagóðir. Þeir þurfa að vera góðir greinendur og leiknir í að
finna styrkleika starfsfólks. Engu að síður getur verið erfitt að
halda uppi gæðum hjúkrunarinnar við þessar aðstæður. Sögðu
þátttakendur að um 30% til 60% af tíma hjúkrunarfræðinga
færi í starfsmannahald, leiðbeiningu, eftirlit og að fylgja því eftir
að hlutirnir séu gerðir. Mikill munur er á því að starfa á spítala
eða á hjúkrunarheimili þar sem færra fagmenntað fólk starfar á
hjúkrunarheimilum:
„Þú gekkst út frá því á spítalanum að ef þú sagðir: Það þarf
að gera þetta, þá var það gert og gert rétt. En hér þarft þú að
fylgja því eftir og sýna hvernig á að gera og það fer náttúrlega
mikill tími í það.“
Jafnframt kom fram að erfitt væri að virkja aðstoðarfólk til að nýta
þann tíma sem það hefði til að sinna öðrum þáttum en beinni
aðhlynningu, svo sem afþreyingu, því það skorti frumkvæði.
Þannig færi mikill tími í það hjá hjúkrunarfræðingum að fá það til
að gera eitt og annað til viðbótar við nauðsynlega aðhlynningu:
„Ef ég er á tánum alla daga sem ég er að vinna þá finn ég að
deildin lagast.“
Fjárhagsleg ábyrgð hjúkrunarfræðinga á rekstrarföngum hefur
aukist að undanförnu:
„Hjúkrunarfræðingar þurfa að vera vakandi varðandi kostnað:
ekki of mikil hanskanotkun, ekki of mikil bleiunotkun eða að
nota þær rétt. ... og lyfin líka, horfa í lyfjakostnað og krem
fjárhagsábyrgðin hefur aukist rosalega.“
Tímaskortur hjúkrunarfræðinga til að sinna störfum sínum og
skortur á fagmenntuðu starfsfólki eru veruleg hindrun þess að
unnt sé að veita gæðahjúkrun á hjúkrunarheimilum að mati
þátttakenda. Þetta er ástand sem hefur farið hratt versnandi
síðustu árin. Afbragðsstarfsfólk vinnur á hjúkrunarheimilum en
oft fær það ekki að njóta sín í starfi og sýna hvað í því býr; það
fær ekki tækifæri til að leggja rækt við samskipti og hlúa að
heimilisbrag á hjúkrunarheimilunum. Þannig er mikið vinnuálag
á öllu starfsfólki og undirmönnun er viðvarandi. Á sama tíma
hefur hjúkrunarþyngd aukist:
„Maður sér það á RAI-tölunum hvað hjúkrunarþyngdin hefur
hoppað upp en mönnunin fylgir því ekki eftir [RAI mælir
hjúkrunarþyngd].“
„Það eru gerðar meiri kröfur til okkar og það þarf meiri
mönnun vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar. En það er ekki
bara fjármagnið sem hjúkrunarheimilin eru að fá [sem er
of lítið]; það er aðeins einn þátturinn. Vistunarmatið er að
breytast og við fáum alltaf þyngri og þyngri [einstaklinga sem
leggjast] inn. Við erum að fá fólk með svo mikla heilabilun sem
þarf svo mikið eftirlit.“
Við þessar aðstæður er ekki hægt að vera öruggur um að
hagur skjólstæðinga sé tryggður. Álag og undirmönnun vex og
stöðugt er verið að draga saman og spara:
„Ég hef stundum áhyggjur af því heima hjá mér á kvöldin að ég
hafi ekki lokið verkunum, ekki tekið þvaglegginn eða eitthvað og
að það sé ekki nógu vel fylgst með ef þvagleggurinn er tekinn.“
„Það er ekki gott að fara heim af vakt og finnast ég ekki hafa
klárað eins og ég hefði viljað gera. [Það er] mjög slæmt og
maður með tíð og tíma byrjar að étast eitthvað upp að innan.“
Þátttakendur töldu rútínuvinnu hamlandi fyrir góða hjúkrun.
Frá því sjónarhorni liti starfsfólk svo á að það hefði lokið vinnu
sinni þegar það hefði lokið við viss „verk“. Þetta á við um
ýmsa starfsmenn, hjúkrunarfræðinga sem aðra. Það væri þó
á engan hátt svo að nóg væri að fylgja rútínunni. Í hjúkrun
fælist miklu fleira en framkvæmd fyrirframtilgreindra verka og
engar þarfir fólks væru nákvæmlega eins frá degi til dags.
Kröfur og þrýstingur frá starfsumhverfi um að viðhalda rútínu í
vinnulagi virkar oft hindrandi á störf og getu hjúkrunarfræðinga
til að annast ýmis mikilvæg viðfangsefni. Þó gat rútínuvinna
komið sér vel ef álag var mikið þar sem hún tryggði að
lágmarksumönnun væri veitt. Hjúkrunarfræðingarnir ganga í öll
verk þó að þau felist ekki í starfslýsingu þeirra. Fyrst og síðast
bera þeir lagalega og siðferðilega ábyrgð á allri hjúkruninni
og á að allt gangi upp dags daglega. Þeir bera ábyrgð á
hjúkrun alls heimilisfólks, að öllum fyrirmælum sé framfylgt
og að heimilisfólk fái þá þjónustu sem því er ætlað, svo sem
sjúkraþjálfun og hárgreiðslu:
„Hérna er það bara þannig að öll ábyrgðin er hjá okkur á einni vakt.“
Árvekni, að hafa yfirsýn og vera vakandi yfir öllu
Árvekni og að hafa yfirsýn vísar til þess að koma auga á alla þá
þætti sem þarf að huga að til að viðhalda og bæta gæði hjúkrunar
og lífsgæði heimilisfólks. Þannig standa hjúkrunarfræðingarnir
fyrst og síðast vörð um velferð heimilisfólks. Starfssviðið er vítt:
„Ég held að það sé auðveldara að telja upp það sem við
gerum ekki; mann vantar orð til að setja á hlutina sem maður
er að gera.“
„Mér finnst það fyrst og fremst vera viðfangsefni hjúkrunar-
fræðinga [á hjúkrunarheimilum] að halda utan um starfið