Gerðir kirkjuþings - 01.01.2011, Qupperneq 5
5
Setningarræða forseta kirkjuþings, Péturs Kr. Hafstein
Aukakirkjuþing 2011 er sett, 45. kirkjuþing.
Verið öll hjartanlega velkomin til þessa aukakirkjuþings á öndverðu sumri. Látum
kærleika og heilindi, sáttfýsi og sanngirni stýra verkum okkar öllum í dag og jafnan
endranær á akri þjóðkirkjunnar.
Í starfsreglum um þingsköp kirkjuþings er forseta heimilað að boða til auka-
kirkjuþings þegar brýna nauðsyn ber til „með eigi skemmri fyrirvara en eins
mánaðar.“ Þetta er ekki í góðu samræmi við það ákvæði þjóðkirkjulaganna að forseta
beri að kalla þingið saman innan viku frá því krafa um slíkt kemur fram frá þriðjungi
kirkjuþingsmanna. Forsætisnefnd mun á haustþinginu leggja fram tillögu um lag-
færingu þingskapa að þessu leyti. Til þessa aukakirkjuþings hefur verið boðað af
brýnni ástæðu í því skyni að þingið geti rækt skyldur sínar í erfiðu máli sem æðsta
stofnun þjóðkirkjunnar – sá lýðræðislegi vettvangur sem mótar og markar stefnu
kirkjunnar, stærstu fjöldahreyfingar íslensku þjóðarinnar. Ef enginn hreyfir and-
mælum lítur forseti svo á að þingheimur samþykki afbrigði frá þingsköpum og til
þessa aukakirkjuþings sé þá réttilega stofnað.
Á síðasta kirkjuþingi í nóvember á liðnu ári var eitt sæti autt og er enn, sæti vígslu-
biskupsins í Skálholti. Séra Sigurður Sigurðarson var þá rúmfastur á sjúkrahúsi og
háði lokabaráttu sína við illvígan sjúkdóm. Eftir slit kirkjuþings 19. nóvember sendi
ég honum blóm og kveðju í nafni þingsins með góðri fyrirbæn. Sex dögum síðar var
vígslubiskup allur.
Séra Sigurður var fæddur á prestssetrinu í Hraungerði í Flóa 30. maí 1944, nokkrum
dögum fyrir lýðveldistöku á Íslandi í skugga heimsstyrjaldar. Hann var sonur
hjónanna frú Stefaníu Gissurardóttur og séra Sigurðar Pálssonar, prests í Hraungerði
og á Selfossi, síðar prófasts í Árnesprófastsdæmi og vígslubiskups í Skálholtsstifti.
Séra Sigurður tók við prestsstarfi af föður sínum á Selfossi 1971 og gegndi því til
ársins 1994 er hann var skipaður vígslubiskup í Skálholti með aðsetur þar á staðnum.
Sem slíkur sat hann á kirkjuþingi í hálfan annan áratug. Séra Sigurður gegndi marg-
víslegum trúnaðarstörfum um sína daga, var m.a formaður Prestafélags Suðurlands
1972 til 1974, stjórnarmaður í Prestafélagi Íslands 1984 til 1990, þar af formaður
félagsins 1987 til 1989, og átti um langt árabil sæti í helgisiðanefnd þjóðkirkjunnar.
Eftirlifandi eiginkona séra Sigurðar er frú Arndís Jónsdóttir skólastjóri og áttu þau tvö
börn og einn fósturson sem er látinn. Við minnumst hins fallna vígslubiskups í
Skálholti með virðingu og þökk með því að rísa úr sætum.
Virðulegi þingheimur.
Ég sagði að kirkjuþing væri nú kallað saman til aukafundar til að geta rækt skyldur
sínar í erfiðu máli sem æðsta stofnun þjóðkirkjunnar. Kirkjuþing samþykkti einum
rómi í nóvember á liðnu ári að setja á laggirnar rannsóknarnefnd til að kanna viðbrögð
og starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni biskupi um
kynferðisbrot. Þetta var óhjákvæmileg ákvörðun eins og mál höfðu þróast á liðnum
misserum. Þetta var gert í því skyni að hreinsa andrúmsloftið og líta í eigin barm, að
þjóðkirkjan sýndi að hún vildi og gæti horfst í augu við raunveruleikann og dregið
lærdóma af því sem miður kynni að hafa farið í hennar húsum. Kirkjuþing stofnaði
einnig og ekki síður til þessarar rannsóknar til að styrkja og efla kirkjuna til viðnáms