Gerðir kirkjuþings - 01.01.2011, Qupperneq 56
56
18. mál 2011. Tillaga að starfsreglum um kosningu biskups Íslands og
vígslubiskupa.
Kirkjuráð ákvað að endurskoða starfsreglur um kosningu biskups Íslands og
vígslubiskupa. Helstu markmið endurskoðunarinnar eru að fjölga kosningabærum
leikmönnum frá því sem nú er. Samkvæmt núgildandi starfsreglum eru vígðir þjónar
kirkjunnar í miklum meirihluta þeirra sem kjósa biskup Íslands og vígslubiskupa.
Þykir rétt að auka hlut leikmanna og eins að búa svo um hnúta að biskupar sæki
umboð sitt að hluta beint til grunneingar þjóðkirkjunnar sem er sóknin. Er því lagt til
að formenn allra sóknarnefnda kjósi biskup Íslands. Jafnframt að formenn
sóknarnefnda í vígslubiskupsumdæmi kjósi við kjör vígslubiskups í því umdæmi.
Þá þykir kirkjuráði rétt að kosningar verði rafrænar og fari fram í einni umferð. Enn
fremur að þeir sem gefa kost á sér til kjörs sendi yfirlýsingu þar að lútandi til
kjörstjórnar og ekki þurfi meðmælendur.
20. mál 2011. Tillaga til þingsályktunar um stefnumótun um málefni fatlaðra innan
íslensku þjóðkirkjunnar.
Lögð er fram á kirkjuþingi stefnumótun um málefni fatlaðra innan íslensku
þjóðkirkjunnar. Á kirkjuþingi 2009 var lögð fram þingsályktunartillöga um stefnu-
mótun í málefnum fatlaðra og samþykkti kirkjuþing að skipuð yrði nefnd til að marka
stefnu í málefnum fatlaðra í kirkjunni.
Á grundvelli framangreindrar þingsályktunartillögu skipaði kirkjuráð nefnd og var
hún skipuð þeim sr. Guðnýju Hallgrímsdóttur, presti fatlaðra, sr. Birgi Ásgeirssyni og
dr. Gerði Aagot Árnadóttur. Nefndin skilaði drögum að stefnumótun sem lögð voru
fram til kynningar með skýrslu kirkjuráðs 2010. Nú hafa þessi drög verið yfirfarin og
sett upp í samræmi við þær stefnumarkanir sem kirkjuþing hefur samþykkt á
undanförnum árum. Eins hefur verið litið til þess sem alþjóðleg kirknasamtök hafa
gert í þessum efnum og tekið mið af því.
21. mál 2011. Tillaga til þingsályktunar um stofnun æskulýðsnefndar
þjóðkirkjunnar.
Hér lagt til að stofnuð verði æskulýðsnefnd þjóðkirkjunnar. Hlutverk hennar er fyrst
og fremst að vera vettvangur fyrir umræðu um barna- og unglingastarf kirkjunnar um
land allt, stöðu þess og þróun. Nefndin á að vera biskupi, prófastsdæmum og öðrum
þeim er eiga fulltrúa í nefndinni, til ráðgjafar og stuðnings um stefnu og mótun í
æskulýðsstarfi kirkjunnar. Gert er ráð fyrir að nefndin starfar náið með þjónustusviði
Biskupsstofu sem sé tengiliður nefndarinnar við biskup.
22. mál 2011. Tillaga til þingsályktunar um stefnu þjóðkirkjunnar um kristniboð.
Þjóðkirkjan lítur á kristniboðið sem málefni kirkjunnar allrar, hjartans mál og hugsjón
í sérhverjum söfnuði sínum og vinnur að því að söfnuðir þjóðkirkjunnar styrkist í
kristniboðsköllun sinni, finni sig hluta hinnar alþjóðlegu kirkju og minnist hlutverks
síns í boðun og útbreiðslu trúarinnar heima og heiman. Með bæn, boðun og þjónustu
um land allt vinnur þjóðkirkjan að friði, skilningi milli einstaklinga og þjóða, kynþátta
og trúarbragða, og vill á þann hátt vekja og glæða vitund fyrir köllun sérhvers kristins
manns að stuðla að réttlæti og sáttargjörð í heiminum. Biðjandi, boðandi og þjónandi
kirkja vinnur að því á vettvangi safnaða sinna að móta og styrkja samfélag sem stuðlar
að heimi sem er laus úr viðjum ranglætis og kúgunar, þar sem konur og karlar njóta
manngildis, virðingar, réttlætis, jafnræðis og frelsis til að lifa lífi sínu í friði og sátt.
Því er sett fram þessi stefna til að unnið verði markvisst að kristniboði.