Gerðir kirkjuþings - 01.01.2011, Side 64
64
Nefndarálit allsherjarnefndar um skýrslu kirkjuráðs
Nefndin hefur fjallað um skýrslu kirkjuráðs, fylgiskjöl með henni svo og þær ræður
og ávörp sem flutt voru við setningu kirkjuþings.
Á fund nefndarinnar komu vígslubiskupinn í Skálholti, ríkisendurskoðandi og
starfsfólk hans, prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, verkefnisstjóri sem annast
vefmál á Biskupsstofu og fjármálastjóri Biskupsstofu.
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagði í ávarpi við setningu kirkjuþings:
„Kirkjuráði hefur verið mikill vandi á höndum að mæta stórfelldum tekjumissi
þjóðkirkjunnar, sjóða kirkjunnar og sókna landsins. Höfum við þurft að velta við
hverjum steini ... Samkvæmt upplýsingum ráðherra þá hafa sóknargjöld lækkað um
20% frá fjárlögum ársins 2008 að teknu tilliti til úrsagna úr þjóðkirkjunni. Á sama
tíma hafa greiðslur til stofnana innanríkisráðuneytisins hækkað vegna verðlagsbóta
um 5%. Þetta er umhugsunarvert. Við höfum verið í góðri trú í samskiptum við ríkið
um að mæta áföllum þjóðarbúsins og tekið undir þau sjónarmið að þjóðkirkjunni væri
ekki vandara um en öðrum að taka á sig skerðingar. Hér kemur í ljós að söfnuðir og
sameiginlegir sjóðir þjóðkirkjunnar og önnur trúfélög hafa þurft að axla þyngri byrðar
en aðrir.“
Allsherjarnefnd tekur undir orð biskups. Brýnt er að stjórnvöld tryggi að trúfélög í
landinu fái leiðréttingu sóknargjalda til að geta sinnt verkefnum sínum.
Tillögur um nýja stjórnarskrá
Allsherjarnefnd harmar að þjóðkirkjunnar skuli að engu getið í tillögum stjórnlagaráðs
til Alþingis um nýja stjórnarskrá. Eigi hin evangelíska lútherska kirkja áfram að vera
þjóðkirkja á Íslandi hlýtur það að heyra til grundvallarþátta samfélagsins og eiga
heima í þeim samfélagssáttmála sem stjórnarskrá lýðveldisins felur í sér.
Þjóðkirkjan nýtur þeirrar sérstöðu í núgildandi stjórnarskrá að Alþingi getur tekið
sérstaka ákvörðun um breytingu á kirkjuskipan og þar með afnám þjóðkirkju úr
stjórnarskrá. Slíka ákvörðun ber að leggja undir atkvæði allra kosningabærra manna í
landinu til samþykktar eða synjunar.
Allsherjarnefnd leggur fyrir kirkjuþing 2011 að skora á Alþingi að hafa ákvæði um
íslenska þjóðkirkju í því frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár sem þingið afgreiðir með
formlegum hætti eða leggur undir ráðgefandi þjóðaratkvæði. Að öðrum kosti verði
þess gætt að ákvörðun um afnám þjóðkirkju úr stjórnarskrá verði tekin á þann veg
sem núgildandi stjórnarskrá býður svo að þjóðin sjálf fái notið þess réttar að greiða
sérstaklega atkvæði um slíka ákvörðun.
Tilgátu-miðaldakirkja
Allsherjarnefnd hvetur kirkjuráð til að kanna, án skuldbindinga, alla þætti í
fjármögnun, skipulagi og rekstri varðandi byggingu tilgátukirkju í Skálholti, sem
áhugahópur fjárfesta um byggingu miðaldakirkju kynnti á kirkjuþingi 2011.
Verkefni Biskupsstofu
Ríkisendurskoðun hefur lagt fram þarfar ábendingar um Biskupsstofu, sóknir og sjóði
kirkjunnar. Hugmyndirnar hafa áður verið ræddar innan þjóðkirkjunnar. Allsherjar-
nefnd hvetur kirkjuráð til að vinna að umbótum í anda skýrslunnar.