Gerðir kirkjuþings - 01.01.2011, Page 145
145
Þingslitaræða forseta kirkjuþings, Péturs Kr. Hafstein
Virðulega kirkjuþing.
Þá erum við komin að leiðarlokum í þessari lotu sem hefur í senn verið krefjandi og
gefandi. Sú hugsun verður æ áleitnari að kirkjuþing þurfi að koma saman oftar en einu
sinni á ári til þess að geta í raun gegnt því mikilsverða hlutverki að fara með æðsta
vald í málefnum þjóðkirkjunnar. Aukakirkjuþing voru kvött saman í ár og í fyrra en
þar á undan var það nánast óþekkt. Þessi aukakirkjuþing voru haldin vegna sérstakra
aðstæðna, annars vegar vegna niðurskurðarkröfu ríkisins og erfiðrar fjárhagsstöðu
þjóðkirkjunnar og hins vegar vegna skýrslu rannsóknarnefndar kirkjuþings um
viðbrögð og starfshætti kirkjunnar vegna ásakana um kynferðisbrot. Með frumvarpi til
nýrra þjóðkirkjulaga, sem væntanlega fær brautargengi á næsta ári, sækist kirkjuþing
eftir enn meiri ábyrgð og ákvörðunarvaldi, þar á meðal raunverulegu fjárstjórnarvaldi
innan kirkjunnar. Náist þetta fram er enginn efi á því að kirkjuþing þurfi að koma
saman að minnsta kosti tvisvar á ári. Hér skiptir líka máli að forysta kirkjuþings í
stefnumarkandi málum kirkjunnar á svo mörgum öðrum sviðum en fjármálum kallar á
meiri samfellu og stöðugleika í störfum og ákvörðunartöku þingsins. Vikutími að
hausti nægir ekki lengur til þess að kjörnir fulltrúar á kirkjuþingi nái að koma sjónar-
miðum og stefnumótun í viðunandi farveg til þess að kirkjuþing geti haft þau áhrif
sem því eru nauðsynleg til þess að veita raunhæfa forystu. Að þessu þarf að gefa
gaum á næstu misserum vegna þess að í umróti samtímans aukast kröfur til kirkjunnar
og hún verður að gera allt sem í hennar valdi stendur til að reynast vandanum vaxin.
Eftir aukakirkjuþingið í sumar um einhuga fyrstu viðbrögð við skýrslu rannsóknar-
nefndar kirkjuþings var ómaklega að því vegið. Sumir sögðu að kosning úrbóta-
nefndarinnar hefði verið til þess eins fallin að kæfa málið og svæfa þótt öllum
hugsandi mönnum hefði átt að vera ljóst að hér var aðeins verið að stíga fyrsta skrefið.
Öðrum sýndist, með orðum Páls postula til Korintumanna, að nú væri „hagkvæm tíð“,
nú væri „hjálpræðisdagur“ fyrir alla forystu þjóðkirkjunnar, hvern einasta kirkju-
þingsfulltrúa, forseta kirkjuþings, kirkjuráð og biskup Íslands, að stíga til hliðar og
viðurkenna að henni hefði mistekist að stýra skipinu heilu út úr brotsjónum – og var
þó rétt verið að láta úr höfn! Í forystugrein Fréttablaðsins skömmu eftir aukaþingið
var sagt að margir hafi bundið vonir við kirkjuþingið og viðbrögð þess hljóti því að
vera mikil vonbrigði öllum þeim sem vilji vera þátttakendur í samfélagi kirkjunnar og
vilji treysta fulltrúum hennar. Hér er á ferðinni mikil dómharka án allrar ábyrgðar, án
sanngirni og án sannleiksleitar. Öll þessi viðbrögð bera vott um vanstillingu og veik-
burða kristilegt þolgæði og eru í raun og veru í algjörri mótsögn við málefnalegt
framlag ykkar kirkjuþingsfulltrúa, bæði á aukaþinginu og á þessu þingi. Um það
verður ekki lengur deilt að þjóðkirkjan er í forystu þeirra sem vilja taka höndum
saman um fyrirmyndarvinnubrögð vegna ásakana um ofbeldi og misnotkun á kirkju-
legum vettvangi. Það hefur ljóslega sýnt sig í störfum þessa kirkjuþings og það mun
koma enn betur í ljós í þeim viðamiklu verkefnum á þessu sviði sem framundan eru.
Fyrir þetta kirkjuþing voru lögð 36 mál. Tíu þeirra voru þingmannamál, kirkjuráð
flutti 15 mál, biskup Íslands átta mál, forsætisnefnd eitt mál og innanríkisráðherra eitt
mál. Auk þess var sú nýlunda á þessu kirkjuþingi að undir sérstöku málanúmeri voru
lagðar fram til umræðu skýrslur Þjóðmálanefndar og hins svonefnda framtíðarhóps
kirkjuþings. Verkaskiptingu nefnda var þannig háttað að allsherjarnefnd fékk 12 mál
til meðferðar, fjárhagsnefnd tíu mál og löggjafarnefnd 13 mál. Kirkjuþing hefur
afgreitt þessi mál með níu starfsreglum, 21 þingsályktun, einu frumvarpi til laga um
breytingu á þjóðkirkjulögum auk breytingar á stofnskrá fyrir Stofnun dr. Sigurbjörns