Bjartur og frú Emilía: tímarit um bókmenntir og leiklist - 01.01.1994, Blaðsíða 57
ANTON tsjekhov
Um ástina
Daginn eftir fengu gestirnir mjög ljúffenga kjötsnúða í morgunverð,
krabba og lambakótelettur og meðan þeir voru að borða kom kokkur-
inn Níkanor upp til að spyrja hvað þeir vildu fá í hádegismatinn. Hann
var meðalmaður á hæð, feitur í framan með lítil augu, nauðrakaður svo
engu var líkara en yfirskeggið hefði ekki verið skafið af honum heldur
reytt hár fyrir hár.
Aljokhín sagði frá því að Pelageja fagra væri ástfangin af þessum
matsveini. Hún vildi ekki giftast honum vegna þess að hann var
fylliraftur og þá illur viðskiptis, en féllst á að lifa með honum bara
svona hinsegin. En hann var mjög guðhræddur og trúin leyfði honum
ekki að lifa sisona; hann heimtaði að hún gengi að eiga sig og vildi hana
ekki annars og skammaði hana þegar hann drakk og barði hana meira
að segja. Þegar hann drakk faldi hún sig uppi á lofti og grét og Aljokhín
og þjónustufólkið fóru þá ekki úr húsi til að geta varið hana ef á þyrfti
að halda.
Þeir fóru að tala um ástina.
- Hvernig ástin verður til, sagði Aljokhín, hvers vegna Pelageja fékk
ekki ást á einhverjum öðrum sem betur hæfði henni að innræti og útliti,
heldur elskar hún einmitt Níkanor, þetta líka trýnið, eins og við köllum
hann öll - allt er það alþekkt og hægt að leggja út af því eins og hverj-
um sýnist. Fram til þessa hafa fram komið aðeins ein sannindi um ást-
ina sem ekki verður um deilt, og það er að „mikill er sá leyndardómur".
Allt annað sem menn hafa sagt og skrifað um ástina varðar ekki lausn
vandans heldur voru menn barasta að bera upp spurningu sem láðst
hefur að svara síðan. Sú skýring á ástinni sem sýnist eiga við í einu til-
felli passar hreint ekki við tíu önnur, og ég held það sé skást að útskýra
hvert dæmi út af fyrir sig og reyna ekki að draga af því almennar álykt-
T í
marit u m bókmenntir og leiklist
55