Morgunblaðið - 26.11.2015, Blaðsíða 38
38 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 26. NÓVEMBER 2015
ÚR BÆJARLÍFINU
Skapti Hallgrímsson
Eyjafjörður
Morgunverkin eru óhefðbundin hjá
einhverjum nemendum Giljaskóla á
Akureyri á hverjum einasta degi. Í
skólanum eru nefnilega 13 hænur
sem börnin sjá um; þessa vikuna eru
það 4. bekkingar. Nokkrir þeirra
hófu gærdaginn á því að kíkja í
hænsnakofann og komu til baka með
átta egg.
Hænurnar komu í Giljaskóla í
haust en voru áður á dvalarheimilinu
Hlíð, þar sem gamla fólkið hugsaði
um þær. Þangað fara hænurnar aftur
í vor, þegar nemendur Giljaskóla
halda í sumarfrí.
Þegar bekkjarfélagarnir Þórunn
Helga Stefánsdóttir, Soffía Sunna
Engilbertsdóttir, Gunnþór Andri
Björnsson og Sigurður Kári Ingason
gengu út í innigarðinn, sem er undir
berum himni í skólahúsinu miðju, í
bítið í gær voru allar hænurnar á
vappi úti í blíðunni nema ein. Hún lá á
fjórum eggjum.
Ekki er alltaf mjög þrifalegt í
kringum hænur eins og margir vita,
en það er ekki vandamál í Giljaskóla
vegna þess hve krakkarnir eru
áhugasamir um að hugsa vel um þær.
Þrjár stelpur úr 9. bekk, Margrét
Tómasdóttir, Guðbjörg Heiða Stef-
ánsdóttir og Guðrún Margrét Stein-
grímsdóttir, taka sig til vikulega og
þrífa vel í kringum hænurnar, úti og
inni.
Alda Björk Sigurðardóttir heim-
ilisfræðikennari er alsæl með búskap-
inn enda eru eggin öll nýtt í tímum
hjá henni. Venjulega fær hún 8 til 12
egg á dag. Í gær voru krakkar úr 7.
bekk að baka pítsasnúða þegar blaða-
mann bar að garði.
Börnin hafa bersýnilega mjög
gaman af hænsnabúskapnum og að
geta notað egg úr eigin hænum í tím-
um. Segja þau að rauðan í þessum
eggjum sé mun dekkri og fallegri en
venjulega. Alda Björk segir ástæðu
þess einfalda: hænurnar fái svo gott
að éta. Þær fá auðvitað afgangana úr
skólaeldhúsinu og þar er alltaf hollt
og gott í boði.
Matráður í Giljaskóla er Dusanka
Kotaras. Hún er ánægð með hve
börnin taka almennt hraustlega til
matar síns og hve lítið þau skilja eftir.
Mun meiri afgangur var reyndar
í mötuneytinu áður en Dusanka greip
til skemmtilegs ráðs í haust. Nú eru
matarleifar frá hverjum bekk vigt-
aðar eftir hverja máltíð og sigurveg-
arinn er sá sem leifir minnstu. Alltaf
gaman að keppa!
Tuttugu ár eru síðan Giljaskóli
tók til starfa í húsnæði leikskólans
Kiðagils árið 1995. Börnum fjölgaði
ört í hverfinu en bygging sérstaks
skólahúsnæðis dróst á langinn. Það
var svo 1. febrúar að flutt var úr
Kiðagili í fyrsta áfanga nýja skólans.
Haldið var upp á afmælið með há-
tíð í skólanum föstudaginn 13. nóv-
ember þegar nemendur, foreldrar og
starfsmenn skólans gerðu sér glaðan
dag.
Nemendur í Giljaskóla eru 386, í
1. til 10. bekk; 196 drengir og 190
stúlkur. Skólastjóri er Jón Baldvin
Hannesson.
Síðari umræðu um fjárhags-
áætlun Akureyrarbæjar fyrir næsta
ár hefur verið frestað frá 1. til 14. des-
ember. Forráðamenn bæjarins segja
að m.a. megi rekja þá ákvörðun til ný-
gerðra kjarasamninga
Logi Már Einarsson, oddviti Sam-
fylkingarinnar í bæjarstjórn, hefur
tekið við formennsku í skólanefnd af
Bjarka Ármanni Oddssyni varabæj-
arfulltrúa, sem er fluttur úr bænum.
Unnar Jónsson hefur tekið við for-
mennsku í Akureyrarstofu af Loga
Má.
Eins og undanfarin 14 ár mun fjöl-
skyldan í Freyjulundi við utanverðan
Eyjafjörð, Aðalheiður S. Eysteins-
dóttir, Jón Laxdal, Arnar Ómarsson
og Brák Jónsdóttir, opna vinnustofur
sínar og heimili um aðventuhelgar frá
kl. 14 til 18 fyrir áhugasama og vel-
unnara.
Einnig verður opið á vinnustofu
Aðalheiðar í Alþýðuhúsinu á Siglu-
firði í miðri viku, og þar mun hún
opna sýningu í Kompunni á litlum
tréskúlptúrum, 1. desember frá kl. 16
til 20. Á báðum stöðum verða til ýmis
listaverk eftir fjölskylduna.
Málþing um kosningarétt kvenna
verður haldið í Deiglunni í dag og
hefst kl. 17 í tilefni 100 ára kosninga-
afmælis kvenna í ár. Allir eru vel-
komnir á málþingið og aðgangur
ókeypis.
Erindi á málþinginu flytja Margrét
Guðmundsdóttir sagnfræðingur (Nú
er nóg komið. Baráttan fyrir kosn-
ingarétti og pólitísk þátttaka kvenna),
Jakob Þór Kristjánsson stjórnmála-
fræðingur (Í sálarþroska svanna býr
sigur kynslóðanna) og dr. Sigurgeir
Guðjónsson sagnfræðingur (Um kosn-
ingarétt kvenna: Ólík afskipti tveggja
húnvetnskra kvenna á Akureyri.)
Setja á nýtt svell í Skautahöllina á
Akureyri á næsta ári. Skv. nýfram-
kvæmdaáætlun bæjarins verða þá
settar 150 milljónir kr. í verkið en
íþróttaráð Akureyrar hefur óskað eft-
ir því að stjórn Vetraríþrótta-
miðstöðvar Íslands taki fjárhagslega
þátt í verkinu.
Rokksveitin Sólstafir heldur tón-
leika á Græna hattinum á föstudags-
kvöldið. Sólstafir hafa ekki spilað á Ís-
landi síðan 2011 en komið fram á yfir
170 tónleikum erlendis frá útgáfu síð-
ustu plötu.
Sólstafir hafa starfað í 20 ár og
munu í tilefni af því flytja síðustu
plötu, Ótta, í heild sinni í bland við
eldra efni. Hljómsveitin Oni frá Nes-
kaupstað hitar upp.
Hipphoppsveitin Úlfur Úlfur verð-
ur svo á Græna hattinum á laugar-
dagskvöldið.
Morgunverkin Nemendur úr 4. bekk sóttu eggin í gærmorgun. Frá vinstri: Þórunn Helga Stef-
ánsdóttir, Soffía Sunna Engilbertsdóttir, Gunnþór Andri Björnsson og Sigurður Kári Ingason.
Vikuleg þrif Þessar stúlkur úr 9. bekk sjá um að þrífa hænsnakofann vikulega. Frá vinstri:
Margrét Tómasdóttir, Guðbjörg Heiða Stefánsdóttir og Guðrún Margrét Steingrímsdóttir
Bakað úr eggjum Aðalsteinn Máni Elmarsson, til vinstri, og Birkir Þór Ara-
son voru í heimilisfræðistofunni í gær ásamt fleiri nemendum úr 7. bekk.
Hamingjusöm börn og hænur í Giljaskóla
Fjögur! Gunnþór Andri Björnsson
gladdist þegar hann fann fjögur egg
hjá einni hænunni í gærmorgun.
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Ljúffengt Júlíana Árnadóttir var áhægð með fiskinn í hádeginu í gær. Val-
dís Þorvaldsdóttir og Dusanka Kotaras, matráður, skömmtuðu á diskana.
Suðurhrauni 4, Garðabæ | Furuvellir 3, Akureyri | Sími 575 800 | samhentir.is
Heildarlausnir
í umbúðum og öðrum rekstrarvörum
fyrir sjó- og landvinnslu
◆ KASSAR
◆ ÖSKJUR
◆ ARKIR
◆ POKAR
◆ FILMUR
◆ VETLINGAR
◆ HANSKAR
◆ SKÓR
◆ STÍGVÉL
◆ HNÍFAR
◆ BRÝNI
◆ BAKKAR
◆ EINNOTA VÖRUR
◆ HREINGERNINGAVÖRUR
Allt á
einum
stað