Morgunblaðið - 07.01.2016, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 07.01.2016, Blaðsíða 28
28 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 7. JANÚAR 2016 ✝ Málmfríðurfæddist á Arn- arvatni í Mývatns- sveit 30. mars 1927. Hún lést þann 28. desember 2015 á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri. Foreldrar henn- ar voru Sigurður Jónsson, f. 25. ágúst 1878, d. 24. febrúar 1949, kennari, skáld og bóndi Arnarvatni, og Sólveig Hólmfríður Pétursdóttir, f. 17. desember 1889, d. 1. febr- úar 1974, húsfreyja og kvenrétt- indakona. Alsystkini: Þóra Sig- urðardóttir, f. 1920, d. 2001, hús- freyja Arnarvatni. Arnheiður Sigurðardóttir, f. 1921, d. 2001, íslenskufræðingur í Reykjavík. Jón Sigurðsson, f. 1923, d. 2014, verkstjóri á Húsavík. Eysteinn Arnar Sigurðsson, f. 1931, d. 2004, bóndi Arnarvatni. Hálf- systkini samfeðra: Freydís Sig- urðardóttir, f. 1903, d. 1990, hús- freyja Álftagerði í Mývatnssveit. Ragna Sigurðardóttir, f. 1906, d. 1999, húsfreyja Egilsstöðum í Flóa. Heiður Sigurðardóttir, f. 1909, d. 1987, húsfreyja Húsavík. Arnljótur Sigurðsson, f. 1912, d. 2001, bóndi Arnarvatni. Huld Börn Hólmfríðar: a) Haraldur Helgi, b) Óli Hjálmar, c) Hinrik. Hjörleifur á sjö börn. Barnabörn og barnabarnabörn þeirra eru 26. 6) Sigríður, f. 1964, gift Gunnari Skúlasyni. Börn þeirra: a) Hróbjartur, b) Guðrún Eva, c) Helga María. Barnabörn þeirra eru sex og eitt barnabarnabarn. Fyrir átti Haraldur soninn Jón, f. 1941, sem kvæntur er Guðrúnu Ólafsdóttur. Afkom- endur þeirra eru 29 talsins. Málmfríður lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1947. Hún var húsmóðir á Jaðri í Reykjadal 1948-1992, ráðskona á sumrum hjá Vegagerð ríkisins 1968-1985, aðstoðarráðskona við Kristnesspítala á vetrum 1981- 1985, í heilsársstarfi frá 1985- 1987. Hún starfaði um tíma sem kennari við Barnaskóla Reyk- dæla og Gagnfræðaskólann á Laugum. Hún var bókavörður við Amtsbókasafnið á Akureyri frá 1992 og þar til hún lét af störfum vegna aldurs. Málmfríður var kjörin á Al- þingi fyrir Samtök um kvenna- lista 1987 og sat á þingi til 1991. Kjörtímabilið á undan hafði hún sest á þing sem varaþingmaður. Hún var formaður þingflokks Samtaka um kvennalista 1990- 1991 og sat í Vestnorræna þing- mannaráðinu 1989-1991. Útför Málmfríðar verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag, 7. janúar 2016, kl. 10.30. Jarðsett verður í Einarsstaðakirkjugarði í Reykjadal að athöfn lokinni. Sigurðardóttir, f. 1913, d. 2002, hús- freyja Húsavík. Sverrir Sigurðsson, f. 1916, d. 1996, húsasmíðameistari Akureyri. Málmfríður gift- ist hinn 24. júlí 1948 Haraldi Jónssyni frá Einarsstöðum í Reykjadal, f. 5. jan- úar 1912, d. 11. apr- íl 1976, bónda á Jaðri í Reykja- dal. Börn þeirra eru: 1) Þóra, f. 1948. 2) Sigurður Örn, f. 1951, kvæntur Guðrúnu Jónu Svavarsdóttur. Börn þeirra: a) Ása Birna, b) Svavar Hafþór, c) Jón Þór, d) Málm- fríður. Barnabörnin eru níu og eitt barnabarnabarn. 3) Jón Ein- ar, f. 1953, kvæntur Sigurveigu Björnsdóttur. Börn þeirra: a) Hrefna Salvör, f. 1988, d. 1989, b) Haraldur Ölvir, c) Birna Ey- vör. 4) Helgi, f. 1956, kvæntur Kristínu Óladóttur. Börn þeirra: a) Anna Dóra, b) Jón Óli, c) Helgi Garðar. Barnabörnin eru fimm. 5) Margrét, f. 1958, gift Jósep Rúnari Sigtryggssyni. Þeirra dætur eru: a) Ásta Björg, b) Rak- el Fríða. 6) Hólmfríður Sólveig, f. 1962, gift Hjörleifi Gíslasyni. Við mér blasa æsku minnar ævintýralönd, óravíður fjallahringur rís við sjónarrönd. Átthaganna von og trú í brjósti bærist heit og björtust finnst mér sólin vera hér í Mývatnssveit. (Hákon Aðalsteinsson) Þegar ég fyrst heyrði þessar ljóðlínur varð mér hugsað til mömmu. Æsku hennar ævin- týralönd voru í Mývatnssveit þar sem hún fæddist og ólst upp á menningarheimilinu Arnarvatni. Síðar vógu myndir af Bláfjalli – hennar uppáhaldsfjalli – á móti söknuðinum eftir óravíðum fjallahringnum. Taugin til átt- haganna var sterk og heit til hinstu stundar. Í hennar huga var sólin ávallt björtust í Mý- vatnssveit og var hugurinn gjarnan umvafinn ljóma minn- inga alls þess besta sem íslensk sveitamenning bauð upp á. Hún var frá fyrstu tíð mjög móttækileg og opin fyrir allri fræðslu. Snemma varð hún læs og upp frá því bókelsk með af- brigðum, mundi allt sem hún las og gegnum tíðina las hún allt sem hún komst yfir, var víðlesin. Hún hafði unun af og var vel fróð um nánast alla tónlist, söng í kór og hlustaði á tónlist í útvarpi og oft talaði hún um hve tilkoma út- varpsins hefði haft mikil og góð áhrif, einkum fyrir þá sem þráðu að fræðast, eins og hún. Hún naut þess að fræða okkur og öll nutum við aðstoðar hennar við heimalærdóminn. Hún kunni góð skil á íslenskum bókmenntum, allri sögu og flestu í okkar skóla- námi. Við og fleiri gengum að þekkingu hennar vísri ef á þurfti að halda. Hún las hin norrænu tungumálin og bjargaði sér á þeim, auk ensku og þýsku. Það var ómetanlegt að hafa aðgang að slíkri aðstoð og hún var jafn- vel að matbúa eða sauma á okk- ur um leið. Framan af saumaði hún flest á okkur öll í fótstignu Singer-vélinni og var listakona við saumaskap. Vélin var í eld- húsinu þar sem hún eldaði, bak- aði og tók á móti gestum. Á Jaðri var stjórnlaus gestagangur í bú- skapartíð foreldra minna og vinnudagur mömmu langur og strangur. Oft gekk hún í útiverk auk húsfreyjuhlutverksins. Næt- urgestir voru algengir og við vöknuðum ekki endilega að morgni þar sem við höfðum sofn- að kvöldið áður, það þurfti að hagræða svo allir kæmust fyrir. Síðustu árin hefur mamma mín smám saman verið að hverfa mér. Ég kynntist nýjum og áður óþekktum hliðum á henni. Í raun og veru kvaddi ég fyrir all- nokkru þá mömmu sem ól mig upp og það var líklega sárara en kveðjustundin nú. Ég er þess fullviss að ferð hennar yfir á ei- lífðarengið er lausn fyrir hana, þar sem ég veit að tekið var á móti henni af þeim sem hún hafði svo lengi saknað; honum pabba sem fór frá okkur mjög skyndilega fyrir tæpum fjörutíu árum. Hún saknaði hans og eftir því sem árin liðu varð söknuður- inn meiri. Hún hafði hins vegar ekki orð á því, hún var ekki margmál um eigin hagi og kvart- aði sjaldan eða aldrei. Lífið var henni gott og gæfuríkt en einnig fékk hún flóknari verkefni í fangið eins og gengur. Hún mætti þeim af hinu mesta æðru- leysi, vann sín verk af samvisku- semi og gerði það besta sem hún gat úr hverri stöðu sem upp kom. Ég er stolt af því að hafa átt þessa atorkusömu, hæfileika- ríku, fluggreindu og góðviljuðu konu að móður. Hólmfríður Sólveig Haraldsdóttir. Meira: mbl.is/minningar Ég á svo góðar og skemmti- legar minningar um ömmu mína. Hún passaði alltaf upp á að við töluðum rétt mál og hikaði ekki við að leiðrétta okkur sem var mjög gott því þetta síaðist hægt og rólega inn í höfuðið á okkur systrum. Hún var mjög fróð kona og sagði okkur alltaf svo skemmtilegar sögur frá því í gamla daga, alls kyns fróðleiks- mola. Það var alltaf stutt í húm- orinn hjá henni. Hún reytti af sér brandarana. Hún hjálpaði mér oft við að læra þegar hún var hjá okkur og ef hún var ekki hjá okkur þá hringdi ég bara í hana. Alltaf hafði hún amma góð svör fyrir mig. Hún var mikið fyrir að spila á spil þegar hún var hjá okkur. Það var til hjá okkur lítill spila- stokkur sem var sérstaklega fyr- ir hana því hún spilaði bara á lítil spil. Hún kenndi mér mörg lög og vísur sem við sungum oft saman. Hún hugsaði alltaf svo vel um mig, kenndi mér og hló með mér. Hún var dásamleg og svo góð- hjörtuð. Mér fannst hún alveg hreint frábær amma og það eru svo mikil forréttindi að hafa fengið að kynnast henni ömmu minni. Hún var fyrirmyndin mín. Amma mín var svo góð og fín. Svona vil ég minnast þín. Þú varst eins og lóan sem syngur dirrindí … Núna væri gott að geta hringt í ömmu, þá gæti hún klárað þetta með mér … Rakel Fríða Jósepsdóttir. Þann 28. desember kvaddi hún elskuleg amma Malla heim- inn. Ég mun sakna hennar sárt alla mína tíð. Hún var mjög vitur kona og mikill lestrarhestur og það væri örugglega hægt að gera heilt bókasafn úr öllum þeim bókum sem hún las. Ég minnist þess alltaf að ef mig langaði að fræð- ast um eitthvað eða fá hjálp við námið gat ég alltaf hringt í hana og spurt hana og hún var alltaf með svör við öllu. Það var alltaf gaman að heyra sögurnar henn- ar um það sem hún hafði upp- lifað sem var sko ekki lítið. Hún barðist fyrir kvenréttindum, sat á Alþingi fyrir Kvennalistann, upplifði kreppuna fyrir mörgum árum. Ég man að þegar kreppan kom núna þá fussaði hún og sagði „þetta er engin kreppa“. Ég man þegar ég var lítil og pabbi var að vinna úti á landi, þá fórum við mæðgur og gistum heilt sumar hjá ömmu Möllu á Akureyri. Ég minnist þess sum- ars með hlýhug í hjarta og allra annarra stunda sem ég fékk með henni. Það var engin amma eins og amma Malla. Ásta Björg Jósepsdóttir. Málmfríður Sigurðardóttir var ein greindasta og áhugaverð- asta kona sem ég hef nokkru sinni kynnst. Það sem meira var, hún var alltaf hlý og traust vin- kona og svo ljómandi skemmti- leg. Fyrstu kynni okkar voru á vorþingi Kvennalistans á Sel- fossi, rétt eftir kosningarnar 1983. Það var kátt á hjalla og vakað lengi á gistiheimili á ár- bakkanum. Við Málmfríður upp- götvuðum þarna sameiginlegan áhuga okkar á íslenskum ljóðum og þuldum þau ófá hvor fyrir aðra, hún þó snöggtum fleiri en ég. Gripum orðið hvor af annarri eins og við gerðum ávallt síðar, vissum stundum ekki hvenær önnur hætti að tala og hin tók við. Alltaf þegar ég heyri Þjóð- vísu eftir Tómas Guðmundsson kemur þetta indæla kvöld upp í hugann. Eitthvað var líka sungið og stemningin bætti upp mis- mikla hæfileika á því sviði. Eftir þetta þekktumst við. Það var þó ekki fyrr en haust- ið 1989 þegar Kvennalistakonur lögðu land undir fót, eins og ár- visst var, að við urðum sam- ferðakonur og segja má að þeirri vegferð ljúki ekki meðan minn- ingin lifir. Þá var ég nýsest á al- þingi, en Málmfríður hafði verið á þingi í tvö ár. Við fengum það hlutverk að heimsækja sveitar- stjórnir, vinnustaði og stofnanir á Norðausturlandi og lögðum af stað frá Egilsstöðum til Vopna- fjarðar á bílaleigubíl sem ég ók. Málmfríður rifjaði það oft upp að þennan fyrsta dag í ferðinni stál- um við konu. Vinkona hennar slóst óvænt í för með okkur og hana skildum við síðan eftir á Vopnafirði, þar sem hún varð að bjarga sér til baka. Okkur Kvennalistakonum voru allar leiðir færar á þessum tíma. Við vorum í kjördæmi Málmfríðar og alls staðar var okkur tekið með kostum og kynjum. Hún var stjarna á sinn hátt og fullkomlega án þess að gera sér grein fyrir því. Við fór- um á þremur dögum frá Egils- stöðum til Vopnafjarðar, Bakka- fjarðar, á Þórshöfn, Kópasker og Húsavík. Auk þess dreif hún mig í snögga ferð í Ásbyrgi, sem henni þótti undurfallegt (og mér líka) og við komum líka við heima hjá henni á Jaðri. Ferðin endaði á fundi á Akur- eyri og síðasta spölinn hvatti hún mig til að gefa ærlega í svo við yrðum ekki allt of seinar, en eitt- hvað var klárinn latur svo við vorum ekki alveg stundvísar. Hún var alltaf ung, en þó með reynslu og visku allra áranna sinna. Aldurslaus á sinn hátt. Seinni árin, eftir að Málmfríð- ur fluttist aftur norður, höfum við alltaf reynt að ná saman, bæði þegar hún hefur verið fyrir sunnan, en þó einkum þegar ég átti erindi norður. Í einni af þeim ferðum, í janúar 2010, kvaddi hún mig hlæjandi eftir langt síð- degisspjall á Hótel KEA með því að segja: „Þú þarft ekkert að koma í jarðarförina mína, þetta var miklu meira virði.“ Síðan höfum við ýmislegt brallað sam- an og komi ekkert uppá núna í vetrartíðinni, kemst ég nú samt. Fjölskyldu Málmfríðar sendi ég innilegar samúðarkveðjur og Möggu sérstaklega þakklæti fyr- ir að leyfa mér að fylgjast með líðan móður sinnar í blíðu og stríðu. Anna Björnsson. Málmfríður Sigurðardóttir hefur lokið langri og viðburða- ríkri ævigöngu sinni. Þar hverf- ur af sjónarsviði merk samferða- kona sem lifði og hrærðist í mestu breytingum sem yfir sam- félagið hafa gengið. Hún vann alla tíð hörðum höndum og tók svo sannarlega þátt í uppbygg- ingu þjóðfélagsins. Hún fór ung til Reykjavíkur og braust áfram við að afla sér einhverrar mennt- unar og reynslu. Hún byggði ný- býlið Jaðar með manni sínum, kom upp stórum barnahópi, vann sem ráðskona í vegagerð og á Kristnesi, varð alþingiskona og að síðustu bókavörður á Amtsbókasafninu. Fyrst og fremst var Malla ein- stök kona, fluggreind með óbrigðult minni, víðlesin og skemmtileg. Hún varð aldrei gömul í anda og tilsvörum. Kynni okkar spanna allt frá því ég kom í Jaðar í helgarfrí frá Laugum með Þóru elstu dóttur Möllu þar til við kvöddumst inni- lega eftir gott spjall tveimur dögum fyrir jól. Hún var minn helsti álitsgjafi og fyrirmynd í mörgum málum og mörg eru orðin símtölin og samverustund- irnar, ekki síst á vegum Vinstri- hreyfingarinnar græns fram- boðs. Lífshlaup Möllu er sannarlega þáttur í baráttusögu íslenskra kvenna fyrir kven- frelsi, náttúruvernd, jafnrétti og velferð. Ástvinum Möllu sendi ég innilegar samúðarkveðjur. Með virðingu og þökk, Kristín Sigfúsdóttir. Málmfríður Sigurðardóttir var merk atgerviskona. Lengst- an hluta ævinnar vann hún erf- iðisvinnu langan vinnudag, sem húsmóðir á barnmörgu heimili og auk þess matráðskona á sumrin og síðar í fullu starfi. Þá sinnti hún kennslu á vetrum í grunnskóla Reykdæla og að af- lokinni þingmennsku var hún bókavörður við Amtsbókasafnið á Akureyri. Eins og þessi upp- talning sýnir var Málmfríður, eða Malla eins og félagar og vin- ir kölluðu hana dags daglega, jafnframt önnum dagsins andans manneskja og hámenntuð í bestu merkingu þess orðs. Að henni stóðu sterkir stofnar. Faðir hennar skáldið og bóndinn Sig- urður á Arnarvatni og í móð- urættina alþingismenn og ráð- herrar frá Gautlöndum. Enda var ekki komið að tómum kof- unum hjá Möllu þegar kveðskap og bókmenntir eða þjóðlegan fróðleik bar á góma. Við fé- lagarnir Halldór Blöndal og und- irritaður þurftum iðulega að játa okkur sigraða fyrir henni þegar slík viðfangsefni voru til umræðu á flakki okkar um Norðurlands- kjördæmi eystra hér forðum tíð. Málmfríður var þó fyrst og síðast réttsýn manneskja og heilsteyptur persónuleiki. Hún var líka tilbúin til að leggja sitt af mörkum í þágu þeirra bar- áttumála og gilda sem hún hafði leitt til öndvegis lífsskoðana sinna. Kvenfrelsismálin voru henni hjartfólgin eins og stjórn- málaferill hennar ber með sér, en það voru hagsmunir vinnandi alþýðu ekki síður sem og um- hverfismál, hagsmunir byggð- anna og menningar- og mennta- mál. Ég fór fyrst að vita deili á Málmfríði Sigurðardóttur sem nemandi við Laugaskóla uppúr 1970, þar sem Helgi sonur henn- ar var mér samtíða. Ég heyrði samferðamenn tala um hana af virðingu sem ekki minnkaði þeg- ar ég kynntist öndvegismannin- um Eysteini á Arnarvatni, bróð- ur hennar. Það var í spjalli okkar Stefáns Jónssonar og Eysteins sem sú hugmynd kom upp að leita eftir því við Möllu að taka sæti á framboðslista Alþýðu- bandalagsins við kosningarnar 1979. Þeir félagar tóku báðir vel í hugmyndina og var látið á reyna. Er skemmst frá því að segja að Málmfríður sló til og skipaði 8. sæti listans. Þar með hófust kynni okkar fyrir alvöru og hefur aldrei borið skugga á síðan. Frá og með 1979 var Málm- fríður á framboðslistum í öllum alþingiskosningum í Norður- landskjördæmi eystra og síðan Norðausturkjördæmi sem fram hafa farið. Hún leiddi framboð samtaka um kvennalista í þrígang, 1983, 1987 og 1991. Á kjörtímabilinu 1983-1987 var hún landskjörinn varaþingmaður og tók tvisvar sæti á Alþingi en átti þar svo fast sæti á árunum 1987-1991. 1995 var Málmfríður í heiðurssæti framboðslista samtaka um kvennalista en 1999 skipaði hún heiðurssætið á fyrsta framboðs- lista okkar Vinstri grænna og það gerði hún í öllum kosningum eftir það. Við Vinstri græn kveðjum því virtan félaga og vin og fyrir hönd okkar allra þakka ég henni af hjarta fyrir sam- fylgdina. Lífsreynd og vitur lagði hún sitt af mörkum til starfsins og baráttunnar eftir því sem heilsa og kraftar leyfðu fram til hins síðasta. Börnum Málmfríðar og öðrum aðstandendum votta ég samúð og kveð hana við leiðarlok með djúpri virðingu og eftirsjá. Steingrímur J. Sigfússon. Þegar Kvennalistinn kom til sögunnar 1983 slóst Málmfríður í hópinn, lífsreynd kona, ekkja, sjö barna móðir, sívinnandi, hafði rekið eigið heimili á Jaðri, en líka starfað sem ráðskona hjá Vegagerðinni á sumrum og á Kristnesi, einnig kennt í grunn- skóla. Málmfríður var lands- þekkt eftir frábæra frammistöðu í spurningakeppni í útvarpi þar sem vel kom í ljós hversu fróð hún var og víðlesin, húsmóðirin úr Reykjadal. Þar var hún ótví- ræður sigurvegari og lagði hvern spakan karlinn á fætur öðrum. Hún átti rætur sem lágu djúpt í íslenskri menningu, var afar fróðleiksfús, bókhneigð og skyn- söm. Málmfríður kunni ógrynni af ljóðum, vísum og öðru efni ut- anbókar og hafði á takteinum. Á heimili hennar gegndi ríkisút- varpið lykilhlutverki við miðlun menningar og þess sem helst bar á góma. Hún var ákafur hlust- andi og drakk í sig menningu, tónlist, fróðleik og fréttir. Hún var sílesandi, hafði í raun tileink- að sér hraðlestur að eigin frum- kvæði, og á haustin var farið í Lestrarfélagið í sveitinni, bóka- kassar sóttir og vetrarkvöldin notuð til að lesa. Þannig tileink- aði Málmfríður sér skáldskap og ýmsan fróðleik, á íslensku og er- lendum málum. Faðir hennar var bæði bóndi og skáld, afi hennar var þingmaður og ráð- herra og fleiri karlar í móður- og föðurfjölskyldu hennar höfðu verið alþingismenn. Ekki er víst að hún hafi séð sjálfa sig í því hlutverki, svo hógvær og lítillát sem hún var, og fyrirmyndir fá- ar, en lífsbaráttan, réttlætistil- finningin og löngun hennar til að leggja þeim lið er vildu rétta hlut kvenna knúði hana til þátttöku. Málmfríður var 60 ára þegar hún var kosin á þing 1987 og hún var ákaflega mikilvæg Kvennalistan- um, jók við breidd hans og skír- skotun, með rætur í íslenskri mold og menningu langt aftur í aldir jafnframt því að vera 20. aldar kona með fjölbreytta lífs- reynslu. Hún var alin upp við og henni voru töm vinnubrögð sem hafa dugað á Íslandi um aldarað- ir, kunni að vinna ull í fat og mjólk í mat. Hún var í þingflokki Kvennalistans frá 1987-1991 með sér talsvert yngri konum, sem var henni e.t.v. ekki alltaf auð- velt, en hún gegndi margvísleg- um mikilvægum hlutverkum á þingi, átti t.d. sæti í fjárlaga- nefnd. Málmfríður var hlýleg og vel- viljuð, ljómandi skemmtileg, ræðin og yfirleitt glaðleg. Kvennalistakonur lögðu mikla áherslu á að fara um landið, hitta fólk og hlusta á það sem helst brann á því, ekki síst konum. Slíkar ferðir með Málmfríði voru lærdómsríkar og gefandi. Hún þekkti vel til staðhátta, jafnvel á svæðum sem hún hafði ekki farið um áður, og hafði brennandi áhuga á lífi og kjörum fólks. Hún var gædd þeim eiginleika að geta sett sig í spor annarra, sem er lykilatriði fyrir alla sem starfa í stjórnmálum. Við sem vorum með henni í þingflokki Kvenna- listans erum þakklátar fyrir að hafa átt samleið með Málmfríði í kvennabaráttunni og vitum að við mælum fyrir munn fjöl- margra kvenna sem störfuðu með okkur að hún auðgaði svo sannarlega umræðuna og lagði mikilvæg lóð á vogarskálar kven- frelsis í landinu. Þingflokkur Kvennalistans 1987-1991, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Danfríður Skarphéð- insdóttir, Guðrún Agnars- dóttir, Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir. Málmfríður Sigurðardóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.