Orð og tunga - 01.06.2012, Qupperneq 67
Jón Hilmar Jónsson: Að fanga orðaforðann
57
eru misjafnlega virkar, og svo miðað sé við orðasambandavensl (sam-
setningarvensl hafa óskýrara gildi að þessu leyti) getur stundum
verið erfitt að greina dæmigerð og einkennandi orðasambönd. En
virkar flettur, þar sem um er að ræða drjúgan fjölda tengdra flettna
(lykilorða) í gagnagrunninum, má bera saman og athuga hvaða
mælikvarðar koma til greina við að meta skyldleikastigið. Slíkt mat á
áþreifanlegum og tölulegum grunni hefurbæði fræðilega og hagnýta
þýðingu og styður þær beinu flokkunaraðgerðir sem áður er lýst (um
aðferðir við mat á merkingarskyldleika má m.a. lesa hjá Önnu Björk
Nikulásdóttur og Matthew Whelpton 2010).
Merkingarflokkurinn ósannindi sameinar orð og (merkingarbær)
orðasambönd, þar sem saman koma nafnorð, lýsingarorð og sagnir: lygi,
uppspuni, skrök, staðlausirstafir; lygari, lygalaupur, ósannindamaður; lyginn,
skröksamur, skreytinn; Ijúga, búa <þetta> til, fara frjálslega með staðreyndir,
segja ósatt. Með yfirsýn um þetta orðafar í gagnagrunni orðanetsins má
mynda klasa með samheitum (Jygi, ósannindi, skrök, uppspuni), tengja
saman skyldheiti (lygi, hálfsannleiki; Ijúga, leyna sannleikanum) og greina
andheitapör (sannleikur - lygi; sannindi - ósannindi). Þá er byggt á mati
greinandans án þess að það sé stutt sýnilegum gögnum. En þar sem
um er að ræða flettur með fjölbreyttum lykilorðum getur beinn sam-
anburður á lykilorðatengslum varpað ljósi á merkingarvenslin og verið
til vísbendingar um hversu náin þau eru. A mynd 3 eru nokkrir bútar
úr slíku tengslakorti flettnanna lygi og ósannindi þar sem fram kemur
að flettumar eiga sér 87 sameiginleg lykilorð (í miðdálkinum) en önnur
lykilorð eru bundin annarri þeirra í gagnaefninu.
Hér ber mest á gagnategundunum orðasamband (O) og orðapar
(P) en SAMSETNINGARLIÐUR (H), ORÐTAK (ot), ANDHEITI (A) Og JAFNHEITA-
runa úr erlend-íslenskum orðabókum (R) koma einnig við sögu. Með
því að bera flettuna lygi að fleiri flettum á þennan hátt fæst mynd af
því hvaða flettur standa henni næst með tilliti til lykilorðatengsla.
Gallinn við þennan vitnisburð er sá að hér er blandað saman ólík-
um gagnategundum sem geta vegið misjafnlega þungt. Með því að
binda samanburðinn við tiltekna tegund sem sýnir nægilega virkni
má ætla að myndin geti orðið skýrari og ná megi lengra við að greina
og meta merkingarlegt skyldleikastig. Þá er vænlegast að líta til orða-
para því þar er virknin og fjölbreytnin gjarna mest og þar tengjast
saman málfræðilega samstæðar flettur (af sama orðflokki).