Skagfirðingabók - 01.01.2008, Blaðsíða 90
SKAGFIRÐINGABÓK
Ásgeiri urðu eftirminnileg. í upphafi
getur Ásgeir um uppruna Bjarna,
uppvöxt, skólagöngu og fjölskyldu-
hagi og segir hann ungan hafa stund-
að barnakennslu og það starf látið
honum sérlega vel. Þá staðfestir Ás-
geir að eftir skamma búsetu þeirra
hjóna á Egilsá hafi lokið búskapar-
sögu Bjarna. „Eftir það mun Bjarni
hvergi hafa stundað búskap. Síðari
hluta ævi sinnar hafði hann heimilis-
fang á ýmsum bæjum í Skagafirði og
Eyjafirði og stundaði oftast barna-
kennslu á vetrum. Síðustu árin, eftir
að ellin fór herskildi um limi hans,
hafði hann dvalarstað á Völlum í
Hólmi í skjóli Ingibjargar dóttur sinn-
ar“. Og ein gleggsta persónulýsingin
á Hesta-Bjarna kemur frá Ásgeiri:
„Bjarni Jóhannesson var ágætlega
viti borinn, allvel menntaður í bók-
legum fræðum, listaskrifari og hafði
gott minni. Hann var athugull og
gagnrýninn, skapmikiil, en stillti vel
skapi sínu í hóf. Hversdagslega var
hann hæglátur, prúður og talfár við
fyrstu kynni, en glaðvær, fróður um
margt, skemmtinn og viðtalsgóður,
þegar hann var tekinn tali, og þá rök-
fastur og sjálfstæður í skoðunum, en
gat haft það til að vera stíflyndur og
stríðinn, en ekki svo að það skapaði
honum óvinsældir. Bjarni kom mér
þannig fyrir í sjón og raun sem vin-
fastur drengskaparmaður og greið-
vikinn, sannorður og hreinskilinn, og
svo áreiðanlegur í öllu sínu veraldar-
braski og hestakaupum, að margir
sóttust eftir viðskiptum við hann.
Vegna sinna mörgu og góðu eigin-
leika var Bjarni jafnan vel séður og
vinmargur, og margir vildu gera
honum greiða, og kom það sér vel á
ferðum hans, því oft var hann mis-
jafnlega til reika og þarfnaðist skjóls
og hvíldar.
Bjarni var mjög vínhneigður. Á
kendiríi hætti honum til að beita
stríðni og stíflyndi, sem oft reyndi á
þolrif sumra manna, þó einkum vina
hans, en aldrei gekk það svo langt að
það ylli vinslitum. En þótt Bjarni
væri undir áhrifum víns, þá haggað-
ist skapgerð hans aldrei gagnvart
hestunum, þá virtist eðlisgáfa og list-
hneigð hans njóta sín jafnvel best“.
Ekki þarf að draga í efa að þarna
lýsir Ásgeir Bjarna af nánum kunn-
ugleika og því hlutleysi sem til má
ætlast með sanngirni. Þar er þó þess
að gæta að kynni þeirra voru nokkuð
á eina lund og tengdust samskiptum
við hesta jafnframt ferðalögum. Og
þótt sjálfur hefði Ásgeir unnið sér
þann sess að teljast með fremstu hesta-
mönnum þjóðarinnar hefur honum
greinilega farið sem öðrum er Bjarna
kynntust á þeim vettvangi að líta upp
til hans sem hins fremsta lærimeist-
ara. Þess má og geta að líkt og Bjarna,
var Ásgeiri það afar gjarnt að hafa vín
um hönd á ferðalögum svo ekki mun
sá þáttur hafa hindrað þá í að ná sálu-
félagi. Jafnt og umræddur bókarþátt-
ur er lengsta og ítarlegasta lýsing á
hestamanninum Bjarna, má segja að
allar ályktanir um verklag hans og
vinnubrögð séu á þá einu lund að
fylla upp í myndina af manninum
sem kunni öllum öðrum betur skil á
mikilvægi þess að gera ekki mistök,
og vissi ævinlega hvar þær hættur
lágu, enda þótt nánast engum tveim
hestum henti sömu þjálfunar- og
kennsluaðferðir. Og Ásgeir fer ekki
heldur dult með þá skoðun sína að
86