Læknablaðið - 01.07.2016, Blaðsíða 16
332 LÆKNAblaðið 2016/102
R A N N S Ó K N
Inngangur
Ofuráhersla á grannan og stæltan líkama einkennir
samfélag okkar rétt eins og flest önnur vestræn nú-
tímasamfélög. Ástæðan er að öllum líkindum ekki
aðeins hinn heilsufarslegi ávinningur af hæfilegri
líkamsþyngd og áróður heilbrigðisyfirvalda í þá veru.
Fyrirmyndir úr tískuheiminum, í sjónvarpi, kvik-
myndum og auglýsingum hafa þar ekki síður áhrif,
en á sama tíma og fyrirmyndirnar verða grennri
þyngjast æ fleiri, svo munurinn milli fyrirmynda og
raunveruleika breikkar í sífellu.1-3 Slíkar aðstæður geta
skapað vonleysi, spennu og kvíða, sérstaklega í tengsl-
um við mataræði. Þeir fjölmörgu matarkúrar sem eru
í tísku, og koma frá misáreiðanlegum heimildum, eiga
að geta leyst þyngdarvandann og þeim fylgja gjarn-
an fyrirmæli eða reglur um hvað sé rétt að borða til
að grennast og einnig til að öðlast heilbrigt líf.4, 5 Það
getur jafnvel aukið á kvíðann bæði hjá þeim sem vilja
tileinka sér heilbrigðar fæðuvenjur og einnig hjá þeim
sem endurtekið reyna að grennast eða fara í einhvers
konar aðhald.6 Getur það ýtt undir viðhorf til matar-
æðis sem einkennist af kröfu um sjálfsaga, ekki síst
varðandi takmörkun á neyslu fæðu sem hugsanlega
gæti talist óholl. Endurtekin megrun getur orðið að
viðvarandi ástandi og leitt til óheilbrigðs viðhorfs til
eigin mataræðis, sem hér kallast hamlandi viðhorf til
eigin mataræðis. Hamlandi viðhorf í þessu samhengi
tengjast kvíða og vanlíðan varðandi mataræði ásamt
Inngangur: Líðan og viðhorf fólks í tengslum við eigið mataræði hafa lítið
verið rannsökuð meðal fullorðinna á Íslandi. Í flestum vestrænum samfé-
lögum er lögð mikil áhersla á grannan og stæltan líkama en á sama tíma
þyngjast æ fleiri. Slíkar aðstæður geta hugsanlega alið á kvíða og stuðlað
að hamlandi viðhorfum í tengslum við mat og fæðuval. Markmið þessarar
rannsóknar var að skoða algengi hamlandi viðhorfs til eigin mataræðis á
Íslandi.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á könnun Embættis landlækn-
is, Heilsa og líðan Íslendinga árið 2007, sem var lögð fyrir tilviljunarúrtak
þjóðarinnar. Þátttakendur voru 5861 einstaklingur, 18-79 ára. Útbúinn
var kvarði út frá svörum könnunarinnar til að meta viðhorf sem tengjast
kvíða og óheilbrigðum kröfum varðandi eigin næringu og hollustu og var
hamlandi fæðuviðhorf skilgreint samkvæmt matskvarðanum. Notuð var
tvíkosta lógistísk aðhvarfsgreining til að meta gagnlíkindahlutfall (OR) og
95% öryggisbil (CI) fyrir hamlandi viðhorf til eigin mataræðis, greint eftir
undirhópum rannsóknarinnar.
Niðurstöður: Algengi hamlandi fæðuviðhorfa samkvæmt matskvarða
rannsóknarinnar mældist 17% í þýðinu, 22% hjá konum og 11% hjá körl-
um. Hamlandi viðhorf til eigin mataræðis voru algengust meðal þátttak-
enda á aldrinum 18-29 ára (36% kvenna, 15% karla), meðal þeirra sem
voru ósáttir við eigin líkamsþyngd (35% kvenna, 22% karla) og þeirra sem
skilgreindir voru í offitu (38% kvenna, 23% karla).
Ályktun: Hamlandi viðhorf til eigin mataræðis mældust algengari meðal
kvenna en karla í þessari rannsókn. Ungur aldur, óánægja með eigin lík-
amsþyngd og hár líkamsþyngdarstuðull sýndu tengsl við hamlandi fæðu-
viðhorf hjá báðum kynjum.
ÁGRIP
sífelldri viðleitni til fæðutakmörkunar eða fullkomn-
unar í mataræði og hollustu.8,9 Slík viðhorf eru talin
geta stuðlað að átröskun og óheilbrigðu sambandi við
mat og jafnvel ýtt undir þyngdaraukningu.4, 7
Hamlandi fæðuviðhorf er nátengt enska hugtak-
inu dietary restraint (fæðuaðhald), sem er takmörkun
á fæðuneyslu eða viðleitni til takmörkunar, í þeim
tilgangi að ná stjórn á eigin líkamsþyngd. Þessi skil-
greining getur líka átt við þá sem reyna að borða
hreina og rétta fæðu og líður illa ef mataræðið er ekki
nógu fullkomið. Samkvæmt erlendum rannsóknum
eru áhættuþættir fyrir fæðuaðhald að vera of þungur
og vilja léttast, að vera í megrun og að vera ósáttur við
eigin líkamsþyngd.8-11
Hérlendis veita rannsóknir á algengi megrunar
vísbendingar um fæðuaðhald og hamlandi viðhorf til
eigin mataræðis út frá aldri og kyni. Í nýlegri skýrslu,
sem unnin var upp úr könnuninni Heilsa og líðan Ís-
lendinga sem var framkvæmd árið 2012, kemur fram að
tæp 42% kvenna hafi reynt að létta sig og að 8% kvenna
18-44 ára hafi verið með átröskun eða séu að glíma
við átröskun.12 Þá leiddu niðurstöður landskönnunar
á mataræði frá árinu 2011 í ljós að tæp 48% kvenna
hafi farið í megrun eða reynt að grennast á liðnu ári.13
Eins hafa rannsóknir á íslenskum unglingum og há-
skólanemum leitt í ljós að megrun og óánægja með
fæðuvenjur tíðkist á öllum skólastigum.14-16
Greinin barst
1. október 2015,
samþykkt til birtingar
6. maí 2016.
Höfundar hafa
útfyllt eyðublað um
hagsmunatengsl.
Hamlandi viðhorf til eigin mataræðis
– algengi og forspárþættir á Íslandi
Ólöf Dröfn Sigurbjörnsdóttir1,2 lýðheilsufræðingur, Jóhanna Eyrún Torfadóttir1,2 næringar- og lýðheilsufræðingur, Anna Sigríður Ólafsdóttir3
næringarfræðingur, Laufey Steingrímsdóttir2 næringarfræðingur
1Miðstöð
í lýðheilsuvísindum við
HÍ, 2rannsóknastofu
í næringarfræði við
HÍ og Landspítala,
3menntavísindasviði HÍ.
Fyrirspurnir:
Laufey Steingrímsdóttir,
laufey@hi.is
http://dx.doi.org/10.17992/lbl.2016.0708.91