Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.07.2016, Blaðsíða 46

Læknablaðið - 01.07.2016, Blaðsíða 46
362 LÆKNAblaðið 2016/102 Ópíóíðum er almennt ávísað við svæsnum eða meðalsvæsnum verkjum. Mest notuðu lyfin á Íslandi sem innihalda ópíóíða eru blöndur parasetamóls og kódeins en árið 2014 fengu ríflega 22.000 einstaklingar ávísað Parkódín forte. Skammtur á hvern sjúkling af ávísunum af Parkódín forte á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2016 jókst um 17,5% samanborið við sama tímabil árið 2006 og er umhugsunarefni. Allra síðustu ár hefur hlutur Parkódíns haldist svipaður en aðrir ópíóíðar hafa verið að sækja á. Vegna þessarar þróunar hefur verkjalyfjanotkun á Íslandi verið að stíga í samanburði við aðrar þjóðir en árið 2013 voru ávísanir ópíóða í fyrsta sinn orðnar mestar á Íslandi af Norðurlöndunum.1 Á síðustu árum hefur aukning orðið mest í notkun oxýkódons og búprenorfíns, sem er visst áhyggjuefni vegna vaxandi mis- notkunar þessara lyfja erlendis. Ef litið er til lengri tíma kemur í ljós að heildar- notkun ópíóíða hefur meira en tvöfaldast á síðustu 20 árum, var um 7 DDD/1000 íbúa/dag árið 1995 en var komin yfir 18 árið 2014. Þessi mikla aukning kallar á skýringar. Aukin notkun sterkra verkjalyfja hef- ur einnig átt sér stað hjá öðrum þjóðum sem hefur valdið ýmsum vandamálum þar sem hafa kallað á aðgerðir til að hefta óhóflegar ávísanir sterkra verkjalyfja. Í mars voru kynntar leiðbeiningar og gát- listi fyrir almenna lækna í Bandaríkjunum sem meðhöndla fullorðna einstaklinga sem þjást af langvinnum verkjum.2 Ástæð- an fyrir því að Bandaríkjamenn eru að reyna að hefta ávísanir þessara lyfja er bæði misnotkunin á lyfjunum sjálfum en einnig sú staðreynd að einstaklingar sem misnota ópíóíða eins og oxýkódon eða búprenorfín, eru í aukinni hættu á að leiðast út í misnotkun enn hættulegri efna eins og heróíns. Þeir sem eru háðir sterk- um verkjalyfjum eru 40 sinnum líklegri en aðrir til að verða heróínsprautufíklar og er óhóflegum ávísunum verkjalyfja meðal annars kennt um þann mikla heróínfar- aldur sem geisar í Bandaríkjunum í dag. Árið 2011 létust þar í landi 1,4 á hverja 100 þúsund íbúa vegna heróínfíknar en voru árið 2013, aðeins tveimur árum síðar, komnir í 2,7 sem er tæplega tvöföldun.2 Heróín hefur ekki náð fótfestu á Ís- landi en þeir einstaklingar sem glíma við sprautufíkn velja flestir metýlfenídat sem fyrsta kost samkvæmt nýlegri rannsókn.3 Engar rannsóknir eru til hér á landi sam- bærilegar við þær sem eru til fyrir Banda- ríkin sem benda til að ópíóíðafíkn auki líkur á sprautufíkn. Lyfjateymi Embættis landlæknis hafði 36 dauðsföll til skoðunar á árinu 2015 þar sem grunur leikur á að einstaklingar hafi látist vegna lyfjaeitr- unar. Flestar banvænar lyfjaeitranir eru blandaðar þar sem nokkur lyf koma við sögu, oft ásamt áfengi. Ópíóíðar fundust í 19 af þessum 36 einstaklinga hópi eða rúmlega helmingi tilfella. Í hópnum voru 9 sem í fannst metýlfenídat en aðeins einn hafði fengið lyfinu ávísað á árinu fyrir andlát. Einnig fundust sterk verkjalyf í 6 af þeim 9 sem höfðu notað metýlfenídat fyrir andlátið. Þegar þróun í ávísunum verkjalyfja á Íslandi er skoðuð vaknar sú spurning hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að vaxandi hlutfall lyfjanna rati í hend- urnar á öðrum en fengu þeim ávísað, fari á flakk. Í dag hafa allir læknar á Íslandi aðgang að lyfjagagnagrunni þannig að erfiðara er fyrir einstaklinga að fara á milli lækna og verða sér úti um sömu lyf á sama tíma. Gátlistinn sem var kynntur í Bandaríkjunum á fyllilega við um slíka meðferð hér á Íslandi. Þá er rétt að nefna að í mörgum tilfellum þegar fólk er að glíma við tilfallandi verki ætti að tak- marka skammta ópíóíða eða velja vægari verkjalyf í stað ópíóíða. Fyrir einstaklinga sem glíma við krabbamein, miklar þján- ingar vegna annarra alvarlegra sjúkdóma eða eru í líknandi meðferð eru ópíóíðar oft eini lyfjakosturinn. Það ber að hafa í huga að gagnsemi ópíóíða til verkjastill- ingar í skammtímameðhöndlun mikilla verkja, af öðrum toga en krabbameini, er vel staðfest í rannsóknum en aftur á móti hefur gagnsemi ópíóíða í langtímameðferð við verkjum ekki verið staðfest.4 Meðferð langvinnra verkja getur verið mjög flókin og til að fást við það verkefni er verkja- teymi starfandi á Landspítala. Mikil þörf er á úrræðum fyrir einstaklinga með langvinna verki utan spítalans sem mögu- lega væri hægt að sinna ef komið væri á fót verkjateymi á vegum heilsugæslunnar. Heimildir 1. Nomesco 2014. 2. stacks.cdc.gov/mmwr/preview/mmwrhtml/mm6426a3. htm 3. Bjarnadottir GD, Haraldsson HM, Rafnar BO, Sigurdsson E, Steingrimsson S, Johannsson M, et al. Prevalent intra- venous abuse of methylphenidate among treatment-seek- ing patients with substance abuse disorders: a descriptive population-based study. J Addict Med 2015; 9: 188-94. 4. Franklin GM, American Academy of Neurology. Opioids for chronic noncancer pain: a position paper of the American Academy of Neurology. Neurology 2014; 83: 1277-84. Ávísanir á ópíóíða og alvarleg fíkn Magnús Jóhannsson læknir magnus@landlaeknir.is Anna Björg Aradóttir sviðsstjóri Lárus S. Guðmundsson lyfjafræðingur Ólafur B. Einarsson verkefnisstjóri F R Á E M B Æ T T I L A N D L Æ K N I S 1 4 . P I S T I L L

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.