Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.07.2016, Blaðsíða 42

Læknablaðið - 01.07.2016, Blaðsíða 42
358 LÆKNAblaðið 2016/102 U M F J Ö L L U N O G G R E I N A R Hvað var sett í kássuna? Kokkurinn mun svara: Úldið ket og olía, einnig lýsi og tjara. Þessi vísa var ort í Héraðsskólanum á Laugarvatni á 5. áratug síðustu aldar um meintar orsakir hastarlegrar matareitrunar sem lagði obbann af nemendum í rúmið.1 Stökuna má hafa sem líkingu um tiltekið hugarferli – eða tilgátu um hugarferli – sem ýmsir telja að lýsi af allri málnotkun og nefnist blöndun eða hug- takasamþætting. Höfundar blöndunarkenningarinnar eru mál- vísindamaðurinn Gilles Fauconnier og bókmenntafræðingurinn Mark Turner.2 Þeir telja að tvennt þurfi til svo að merking rísi í kollinum á fólki: Annars vegar þurfi menn að smíða sér svoköll- uð hugrúm þar sem merkingarformgerðir eru hlutaðar í smástafla; hins vegar þurfi þeir að tengja hugrúmin saman. Blöndunin felst þá í því að maður blandar saman efni úr að lágmarki tveimur hugrúmum eða ílögum í svokallað blandað rúm – rétt eins og þegar maður sækir sér tvenns konar efni í matargerð, til dæmis úldið kjöt og olíu, og setur í pott. Blandan, útkoman úr öllu saman eða kássan, getur haft formgerð annars ílagsins einvörðungu en einnig er möguleiki að til sögunnar komi almennt rúm sem í eru sameiginleg einkenni formgerðar beggja ílaganna. Form- gerðin sem rís í blandaða rúminu eða blöndunni er þá önnur en formgerð hvors ílags um sig. Taka má til að byrja með dæmi af einfaldri fullyrðingu eins og „Ingólfur er sonur Guðrúnar“ en tæknilega útlistun á henni má sjá á mynd 1. En við ætlum að halda okkur við líkingar – þær sem koma læknum, sjúkdómum og sjúklingum frekast við – og forðast tæknilegar útleggingar að mestu. Sé byrjað á læknunum má taka alþekkta líkingu eins og: Skurðlæknirinn er slátrari. Enda þótt bæði skurðlæknar og slátrarar séu almennt virtir fyrir sína sérþekk- ingu felur líkingin í sér að skurðlæknirinn er sýndur í neikvæðu ljósi. Skýringin er sú að þegar ílögin úr hugrúmunum tveimur koma saman í eina blöndu, rís upp ný formgerð. Á einföldu máli má segja að þegar skurðlæknirinn, maðurinn sem á að bjarga lífi og líkna, er samsamaður slátraranum sem sviptir dýr ekki bara lífi heldur bútar þau niður í smáparta – með einbeittum brota- vilja – nýtur skurðlæknirinn ekki góðs af. Myndræna útfærslu á blönduninni má sjá á mynd 2. En hvað kemur þessi þvættingur okkur við?, hugsar kannski einhver lesenda. Jú, lengst af vöndust læknar því að hafa atóm- íska sýn á manninn; þeir sundurgreindu líkamseinkenni hans af nákvæmni til að geta læknað það sem hrjáði hann eða veitt bót á því ef þess var kostur.3 Þeir hafa orðið æ flinkari í þessu á síðustu áratugum en þó háir þeim nokkuð að þeir vita heldur fátt um heilann.4 Hugvísindamenn eru hins vegar vanir að hugsa um manninn í heilu lagi og setja fram tilgátur um hugarstarf hans, tilfinningar og annað það sem tengist taugakerfinu með hliðsjón jafnt af einstaklingi, félagslegu samhengi, samfélagi, menningu og sögu. Og blöndunarkenningin er ekki bara þarft tæki til að greina bókmenntir; hún getur verið lækni hjálpartæki til að glöggva sig á líðan sjúklinga þegar þeir segja frá veikindum sín- um; jafnvel beinlínis leiðarvísir að því sem orsakar líðanina. Í bók Antons Helga Jónssonar, Ljóð af ættarmóti, er svofellt ljóð: Mér líður eins og ég hafi gleypt brunnklukku í morgun Ég finn að hún nagar sig í gegnum innyflin. Hún nartar í lifrina. Þú mátt hlæja. Og ég skal hlæja með þér. Samt finn ég fyrir brunnklukkunni innvortis.5 Við þekkjum dæmi þess að manneskja hafi beinlínis verið gripin líkamlegum ónotum þegar hún las þetta ljóð fyrst. Skýr- ingin er einföld: Allt frá bernsku hafði brunnklukkan verið hið versta óargadýr í huga hennar. Orð gamalla kvenna sem reyndu að koma í veg fyrir að hún færi sér á voða í dýjum og mógröfum lifðu enn í höfðinu á henni: Varaðu þig á brunnklukkunni. Hún situr um að komast ofan í þig og ef henni tekst það er eins gott að þú hrækir henni strax upp aftur; annars smýgur hún í gegnum innýflin á þér þangað til hún smokrar sér inn í lifrina og hættir ekki fyrr en hún hefur étið hana upp til agna.6 „Hvað var sett í kássuna?“ eða um blöndun, líkingar og fleira Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir Höfundar eru bókmenntafræðingar

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.