Læknablaðið - 01.07.2016, Blaðsíða 45
LÆKNAblaðið 2016/102 361
Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans.18 Og í níunda Riti Lærdóms-
listafélagsins er blöndun dýrs og sjúkdóms beinlínis skýrð: „Ata,
Atumein, Jøtu- eðr jetukaun (Carcinoma, cancer), nefnizt og svo
Krabbi og Krabbamein, af þeim mørgu vognøglum, og krókóttu
holum, sem ná útí holdid frá sjálfu høfut-sárinu.“19 Þessi orð sýna
hversu lengi menn hafa beinlínis litið á krabbann sem óvætti er
þyrfti að berjast við og vinna á.
En þetta var útúrdúr.
Ef þess eru dæmi meðal íslenskra heilbrigðisstarfsmanna að
þeir trúi svo á hlutlægni vísindana að þeir forðist líkingar rétt
eins og ýmsir háskólamenn aðrir, er brýnt að bregðast við því
að minnsta kosti ef marka má ameríska könnun sem gerð var
árið 2010. Hún beindist beinlínis að því að kanna líkinganotkun
lækna og sjúklinga með alvarlegt krabbamein og fá upplýsingar
um hvað sjúklingum þætti um samskiptahæfni lækna. Í niður-
stöðum hennar kemur meðal annars fram að sjúklingar töldu þá
lækna sem notuðu óspart líkingar í útskýringum á sjúkdómnum
og fylgikvillum vera færari í mannlegum samskiptum en þá sem
voru sparari á þær. Sjúklingar læknanna sem brugðu líkingum
mikið fyrir sig áttu líka í minni vandræðum með að skilja þá og
töldu þá skilja sig betur en sjúklingar hinna.13
Líkingar virðast í sem stystu máli styrkja samskipti lækna og
sjúklinga – svo að sjálfsagt er að læknar nýti þær. En því fylgir
auðvitað drjúg ábyrgð; ekki bara af því að þá verða menn að
leggja niður fyrir sér hvaða hugtökum á að blanda í líkingarnar
og á hvaða braut þær beina hugsunum sjúklingsins, heldur líka
af því að líkingar má ekki bara nota til að skýra sjúkdóma heldur
líka til að stappa stálinu í sjúklinginn eða sannfæra hann. Standi
hann við dauðans dyr er til dæmis mikilvægt að honum séu ekki
gefnar gyllivonir með óheppilegu líkingamáli.20
Sigurður Pálsson skáld og rithöfundur ætti vísast að vera fyr-
irmynd okkar allra í viðbrögðum við alvarlegum sjúkdómi. Hann
greindist með krabbamein fyrir tæplega tveimur árum og segir
frá því í viðtali að hann hafi strax ákveðið að takast á við sjúk-
dóminn með hjálp líkinga. Skýringin er sú að hann er sannfærður
um að maðurinn þoli meira ef hann er búinn að nota líkingar til
að mynda ákveðinn farveg fyrir hugann. Í viðtalinu segir hann
meðal annars:
Til þess að ná tökum á lyfjameðferðinni sem beið mín skapaði ég […]
eftirfarandi myndlíkingu: Ég sá fyrir mér dansleik og þú kemur í and-
dyrið og færð úthlutað dansfélaga. Dansfélaginn sem mér er úthlutað
eru lyfin og þessi dansfélagi kann að vera með stæla og kannski
sparka í mig í miðjum dansi sem er líking fyrir aukaverkanirnar.
Og ég ákvað að ég mundi ekki hlaupa út af dansgólfinu eða fela mig
heldur bara halda áfram að dansa við þennan dansfélaga og sinna
spörkunum ekkert. Síðan kom lokaparturinn í myndlíkingunni sem
ég er eiginlega ánægðastur með – að einbeita sér að því að hlusta á
tónlistina sem hljómsveitin er að spila sem er lífið.21
Líking Sigurðar er afar uppbyggileg. Hann blandar fyrirbær-
um sem öllum eru kunn, dansi og tónlist, saman við sjúkdóm,
lyf og lífið sjálft. Blandan sem rís er nýstárleg og rekst harkalega
á ýmsar viðteknar hugmyndir manna um hvað það er að takast
á við krabbamein. Hún fær menn til að skoða sjúkdóminn í öðru
ljósi og getur því vísast gagnast sjúklingum sem eru óvanir að
hugsa um lyfin sín sem „geggjaðan“ dansfélaga og lífið sem tón-
list. Kosturinn við líkinguna er að auki sá að flestir ættu að geta
gert hana að sinni: jafnvel þó menn haldi illa takti, misstigi sig og
detti í gólfið geta þeir alltaf staðið upp aftur og haldið áfram að
dilla sér – eða ef allt fer á versta veg setið sem fastast á dansgólf-
inu, krækt höndum um fætur dansfélagans og hlustað á tónlistina
– uns yfir lýkur.
En af því að líkingar eru almennt einkenni á mannlegri hugs-
un sem læknar þurfa dag hvern að greina, ættu þeir kannski
sérstaklega að hugleiða viðbrögð Sigurðar við krabbameininu og
æfa sig, til dæmis heima hjá sér um helgar, að búa til alnýjar og
skemmtilegar blöndur sem nýtast sjúklingum þeirra!
Heimildir
1. Vísan hefur verið kennd Magnúsi Bjarnfreðssyni en það seljum við ekki dýrar en við
keyptum.
2. Fauconnier G, Turner M. The Way We Think: Conceptual Blending and the Mind’s Hidden
Complexities. Basic Books, New York 2003.
3. Schleifer R. Pain and suffering. Routledge, New York og London 2014.
4. Ramachandran VS. „Preface“, The Tell-Tale Brain: A Neuroscientist‘s Quest for What
Makes Us Human. WW Norton & Company, New York 2011.
5. Jónsson AH. Ljóð af ættarmóti. Mál og menning, Reykjavík 2010.
6. Árnason J. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I. Ný útgáfa, útgefendur Árni Böðvarsson og
Bjarni Vilhjálmsson. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík 1954.
7. krabbameinsskra.is - júní 2016.
8. Lakoff G, Johnson M. Metaphors We Live By. University of Chicago Press, Chicago 1980.
9. Turner M. Reading Minds: The Study of English in the Age of Cognitive Science. Princeton
University Press, Princeton NJ 1991.
10. Hér byggja greinarhöfundar ekki síst á eigin reynslu, viðbrögðum manna við fyrirlestr-
um þeirra og greinum. – Lakoff og Johnson greina á milli hugtakslíkinga (conceptual
metaphors) og myndlíkinga (image metaphors) en báða flokkana nýta menn gjarnan
ómeðvitað. Um kenningar Lakoff og Johnson má til dæmis fræðast í eftirtöldum greinum
Kristjánsdóttir BS. „Holdið hefur vit“ eða „Við erum ekki kýr á beit í haga skilnings og
þekkingar“: Um líkamsmótað vitsmunastarf og hugræna bókmenntafræði. Í Hug\raun:
Nútímabókmenntir og hugræn fræði. Bókmennta- og listfræðastofnun, Háskólaútgáfan,
Reykjavík 2015: 263-92. Kristjánsdóttir BS. Er dáðin dáð og örlátu mennirnir örlátir? Tilraun
um myndlestur. Ritið 2006; 6: 13-32. Birgisson B. Konuskegg og loðnir bollar: Elstu drótt-
kvæði og and-klassískar listastefnur 20. aldar. Skírnir vor 2009: 106-57. Pétursdóttir GL.
Myndir meina: um læknavísindi, sjúkdóma og myndhvörf. Ritið 2006; 6: 33-53.
11. Helgason H. Sjóveikur í München. JPV, Reykjavík 2015.
12. Semino E, Demjén Z, Demmen J, Koller V, Payne S, Hardie A, et al. The online use of
Violence and Journey metaphors by patients with cancer, as compared with health profes-
sionals: a mixed methods study. BMJ Support Palliat Care 2015 Mar 5:bmjspcare-2014.
13. Casarett D, Pickard A, Fishman JM, Alexander SC, Arnold RM, Pollak KI, et al. Can
metaphors and analogies improve communication with seriously ill patients? Palliat Med
2010; 13: 255-60.
14. Biro D. „Psychological Pain: Metaphor or Reality?“ Pain and Emotion in Modern History.
Palgrave Macmillan UK 2014: 53-65.
15. Harrington KJ. The use of metaphor in discourse about cancer: a review of the literature.
Clin J Oncol Nurs 2012; 16: 408-12.
16. 2007 NHS Cancer Reform Strategy. COI for the Department of Health. nhs.uk/
NHSEngland/NSF/Documents/Cancer%20Reform%20Strategy.pdf - janúar 2016.
17. Laxness HK. Brekkukotsannáll. Helgafell, Reykjavík 1957.
18. lexis.hi.is janúar – 2016.
19. Rit þess Íslenzka Lærdóms-Lista Felags IX. Kaupmannahöfn 1788.
20. Pétursdóttir GL. Myndir meina: um læknavísindi, sjúkdóma og myndhvörf. Ritið 2006; 6:
33-53.
21. Pálsson S. „Dansar við lyfin með Jónas við hönd,“ viðtal við Magnús Guðmundsson. Lífið,
Fréttablaðið; 7. mars 2015.
U M F J Ö L L U N O G G R E I N A R