Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.02.2017, Blaðsíða 18

Læknablaðið - 01.02.2017, Blaðsíða 18
74 LÆKNAblaðið 2017/103 Rof á ristli var skilgreint sem staðbundið graftarkýli við ristil, graftarkýli í kviðarholi, grindarholi eða afturskinu (retroperitone- um) eða frír vökvi og/eða frítt loft í kviðarholi samhliða sjúkdóms- ástandi í ristli sem var orsök rofsins. Notað var greiningakerfi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (International Classification of Diseases; ICD-10) og gerð víðtæk leit að rofi á ristli auk þeirra sjúkdóma þar sem rof á ristli er þekktur fylgikvilli (K63.1, K57.2, K57.4, K57.8). Einnig var leitað að grein- ingarkóðum áverka og óhappa á kviðarhol (S36.5, S36.7, S36.8, S36.6, S36.9, T81.2, Y60.4, Y60.7, Y60.8, Y60.9). Upplýsingum var safnað úr rafræna sjúkraskrárkerfinu og eftir þörfum úr sjúkra- gögnum á pappírsformi. Upplýsingum um kyn, aldur, greining- arár, innlagnarsjúkrahús, greiningaraðferð, orsök og staðsetningu rofs var safnað og þær skráðar í tölvuforritið Microsoft Excel® (Microsoft, Redmond WA). Reynt var að leggja mat á fylgikvilla sem komu upp við þá bráðameðferð sem var beitt í upphafi sjúk- dómsferlisins. Staðsetning rofs var áætluð út frá aðgerðarlýsingu eða lýsingu í myndgreiningarsvari. Skoðað var hversu margir sjúklingar fengu stóma, bæði tímabundið og varanlegt. Sjúklingar með skyndilega eða bráða kviðverki sem reyndust hafa frítt loft í kviðarholi á kviðarholsyfirliti og/eða tölvusneið- mynd (staðbundið eða dreift), graftarkýli við ristil eða í kvið- arholi, grindarholi eða afturskinu á tölvusneiðmynd, frían vökva á tölvusneiðmynd og sjúklingar með lífhimnubólgu sem leiddi til aðgerðar án undangenginnar myndgreiningar voru teknir með í rannsóknina. Undanskildir voru sjúklingar yngri en 18 ára, sjúk- lingar sem höfðu endaþarmsáverka, voru með fistil eða sem fóru í valaðgerð þar sem í ljós kom áður óþekkt rof á ristli. Þá voru sjúk- lingar sem greindust með rof á ristli við krufningu undanskildir. Stuðningsmeðferð fól í sér föstu og gjöf sýklalyfja í æð með eða án ísetningar á kera með aðstoð tölvusneiðmyndar eða ómskoðun- ar. Aðgerð taldist öll inngrip sem framkvæmd voru í svæfingu á skurðstofu. Í þeim tilvikum þar sem aðgerð var hafin með kvið- sjárspeglun en breytt í opna aðgerð og þegar kviðsjárspeglun til greiningar var breytt í skolun á kviðarholi og ísetningu kera, var seinni aðgerðin skráð sem aðalaðgerð. Sárasýking hjá þeim sem fengu stuðningsmeðferð á við um þá sem ekki svöruðu stuðningsmeðferð og fóru síðar í aðgerð. Með endurtengingartíðni eftir Hartmanns-aðgerð var við gagnasöfnun tekið mið af öllum þeim sjúklingum sem lifðu lengur en eitt ár og höfðu gengist undir endurtengingu. Reiknuð var 30 daga dánartíðni og eins árs dánartíðni en ekki var lagt mat á hvort dánarorsök væri bein afleiðing rofs á ristli eða vegna annarra orsaka. Sótt var um leyfi fyrir rannsókninni hjá Persónuvernd (2009020159LSL), vísindasiðanefnd (VSN62009020022/03.15), fram- kvæmdastjórum lækninga á Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akur- eyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Tölfræði var að mestu lýsandi. Marktæki var reiknað með kí- kvaðrati og miðað við p<0,05. Við útreikinga á aldursstöðluðu ný- gengi voru notaðar tölur frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni fyrir Evrópu. Niðurstöður Upphafleg leit skilaði 767 sjúklingum en af þeim uppfylltu 225 sjúklingar skilyrði rannsóknarinnar. Konur voru 131 (58%) og karlar 94 (42%). Miðgildi aldurs var 70 ár (bil: 30-95 ár). Kon- ur voru marktækt eldri en karlar en þær voru 73 ára en karlar 63 ára (p<0,01), miðgildi. Aldursstaðlað nýgengi var 7,7 tilfelli á hverja 100.000 íbúa á ári á rannsóknartímanum; 6,7 tilfelli á fyrri 5 árunum (1998-2002) en 8,7 tilfelli á seinni 5 árunum (2003-2007) (p<0,05). Meirihluti sjúklinga var meðhöndlaður á Landspítala, eða 183 (81%), 33 (15%) á Sjúkrahúsinu á Akureyri en 8 sjúklingar (4%) voru meðhöndlaðir á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Orsakir og staðsetning Algengasta orsök rofs á ristli var sarpabólga, eða hjá 150 sjúkling- um (67%). Aðrar orsakir voru meðal annars áverki við ristilspegl- un (12%), áverki í skurðaðgerð (5%) og krabbamein (1%) (mynd 1). Þegar allar orsakir rofs á ristli voru skoðaðar var algengasta staðsetning á bugaristli (colon sigmoideum) (n=173, 76,9%). Þegar rof vegna sarpabólgu var undanskilið var bugaristill enn algengasta staðsetningin (n=27, 36%) (tafla I). Meðferð Fyrsta meðferð var skurðaðgerð, stuðningsmeðferð eða líknar- meðferð. Fyrsta meðferð hjá 134 (60%) sjúklingum var skurðað- gerð en 88 sjúklingar (39%) fengu upphaflega stuðningsmeðferð. Í þremur tilfellum (1%) var líknarmeðferð ákveðin (mynd 2). Hjá þeim 134 sjúklingum sem fóru í bráða aðgerð við greiningu var algengasta aðgerðin Hartmanns-aðgerð (n=63, 47%). Næst al- R A N N S Ó K N Mynd 1. Ástæður rofs á ristli (n=225). Tafla I. Staðsetning rofs í ristli fyrir allan hópinn (n=225), þá sjúklinga sem höfðu sarpabólgu og þá sem ekki voru með sarpabólgu sem ástæðu rofs, n (%). Allir Sarpabólga Ekki sarpabólga Botnristill 14 (6,2) 0 (0) 14 (18,7) Hægri hluti ristils 7 (3,1) 0 (0) 7 (9,3) Þverristill 7 (3,1) 0 (0) 7 (9,3) Vinstri hluti ristils 13 (5,8) 2 (1,3) 11 (14,7) Bugaristill 173 (76,9) 146 (97,4) 27 (36) Annað/Óþekkt 11 (4,9) 2 (1,3) 9 (12) Samtals 225 (100) 150 (100) 75 (100)

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.