Læknablaðið - 01.02.2017, Blaðsíða 44
100 LÆKNAblaðið 2017/103
M I N N I N G A R O R Ð
Danski læknirinn Povl Riis, yfirlæknir og
prófessor í meltingarsjúkdómum, lést 2.
janúar þá nýlega orðinn 91 árs.
Povl Riis var sérfræðingur í meltingar-
sjúkdómum og um árabil yfirlæknir og
prófessor á Gentofte- og síðar Herlev-
sjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn. Fyrir
utan starf við sérfræðigrein sína sinnti
hann margs konar verkefnum á sviði
læknisfræðilegra rannsókna og siðfræði
á því sviði og raunar fleiri sviðum. Povl
Riis var aðalritstjóri danska læknablaðsins
um árabil, sat í ritstjórn norræna lækna-
blaðsins Nordisk Medicin, var formaður
vísindasiðanefndar Danmerkur og sat í
Vancouver-hópnum sem er alþjóðlegur
vettvangur ritstjóra læknatímarita.
Á þingum meltingarlækna árið 1968
í Reykjavík og Prag kynntust danskir og
íslenskir starfsbræður og síðar enn nánar
á slíku þingi í Kaupmannahöfn þegar
Povl bauð Íslendingunum heim. Hann
hafði þá áður komið hingað til lands með
fjölskyldu sína í sumarleyfi og Íslands-
áhuginn var vakinn. Ávöxtur þessara
kynna urðu áratuga faglegt samstarf og
vinátta sem enn stendur með næstu kyn-
slóðum.
Faðir minn, Tómas Árni, var á þessum
árum í fræðslunefnd læknafélaganna
og fékk hann Povl til að fara fyrir hópi
danskra lækna sem komu hingað með
námskeið í nokkur skipti um og uppúr
1970. Snerust þau um tölfræði og fleiri
hagnýt atriði er varða læknisfræðilegar
rannsóknir. Nokkrum árum síðar tók Povl
þátt í ráðstefnu Læknafélags Íslands þar
sem meðal annars var fjallað um endur-
skoðun á siðareglum lækna. Á þessum
árum fékk ég gjarnan það hlutverk að
sækja Povl á Keflavíkurflugvöll og koma
honum í gistipláss, fyrstu árin í Norræna
húsinu sem þá stóð til boða í þessu nor-
ræna samhengi. Síðar var yfirleitt gist í
Hótel Hvassaleiti þar sem var bækistöð
fyrir boð og þaðan var gert út í ferðalögin
sem urðu mörg. Ef þau komu bæði hjónin
voru ferðirnar tvær því á þeim árum var
regla þeirra að fara aldrei saman í flugferð
þar sem fjögur börn þeirra voru að vaxa
úr grasi.
Íslandsferðirnar urðu fljótlega blanda
af vinnu og orlofi og með nokkuð ná-
kvæmri talningu fer nærri að ferðir Povls
séu um 60 talsins, sú síðasta árið 2013.
Povl var óþreytandi að fræða börn sín um
allt sem var áhugavert um Ísland. Reyndi
hann mjög að gera þau að Íslandsvinum,
sem tókst að miklu leyti þó að þau hafi
ekki komist í hálfkvisti við hann í þeim
efnum. Þau ferðuðust öll mikið um sveitir
og óbyggðir með íslenskum vinum og
mismunandi samsettur hópur Dana og
Íslendinga fór einnig í margar ferðir á er-
lendri grundu.
Ritstjórnir læknablaðanna á Norður-
löndum hittust reglulega og ræddu fagleg
málefni. Örn Bjarnason, ritstjóri Lækna-
blaðsins, vildi efla útgáfuna og styrkja og
átti hauk í horni þar sem Povl Riis var.
Þróaðist samstarf læknafélaganna við
forlag danska læknafélagsins þannig að á
fundi norrænu ritstjóranna hérlendis 1978
varð úr að danska læknaforlagið tæki að
sér auglýsingasölu fyrir Læknablaðið. Um
leið var samið um prentun blaðsins þar
ytra og komst á regluleg útgáfa blaðsins
og fjárhagurinn styrktist. Þetta samstarf
gekk í allmörg ár en síðan var prentun-
in flutt heim aftur og auglýsingasalan
sömuleiðis. Einnig átti Povl Riis sinn þátt
í að Danir styrktu uppbyggingu Nesstofu,
húss Bjarna Pálssonar landlæknis á Sel-
tjarnarnesi. Povl var kjörinn heiðursfélagi
Læknafélags Íslands árið 1978 og var
sæmdur fálkaorðunni árið 2012.
Auk ástríðunnar fyrir Íslandi hafði Povl
mikinn áhuga á málefnum Grænlands
og Færeyja og norrænum samskiptum á
breiðum grunni. Mætti trúlega kalla þetta
áhuga á norðurslóðum þó að það hugtak
hafi varla verið komið á blað á þeim árum.
Povl var húmanisti og lét sér fátt mannlegt
óviðkomandi. Dönsk heilbrigðisyfirvöld
fólu honum margvísleg verkefni með setu
í nefndum og ráðum og þannig starfaði
hann um árabil með Ældres Forum, sam-
tökum um málefni eldri borgara í Dan-
mörku, og fjallaði um þau málefni í ræðu
og riti. Þá tók hann mikinn þátt í umræðu
um siðfræði á breiðum grunni, sótti kirkju
í sínu hverfi, var tónlistarunnandi og átti
það til að þýða stöku kafla í kirkjutónlist
Bachs. Kona hans var Else, grunnskóla-
kennari, en hún lést árið 1997. Börn þeirra
eru fjögur og eru barnabörnin orðin 14 og
barnabarnabörn þrjú.
Povl Riis - minning
Jóhannes Tómasson upplýsingafulltrúi innanríkisráðuneytisins og fyrrum ritstjórnarfulltrúi Læknablaðsins
johannes.tomasson@irr.is