Dagblaðið Vísir - DV - 16.02.2018, Side 30
30 fólk - viðtal 16. febrúar 2018
Hollywood inn á sjálfa Óskarsverð-
launahátíðina. Hún segir það hafa
verið ótrúlega reynslu og allt ann-
að andrúmsloft en á Grammy-há-
tíðinni. „Það var allt svo fínt og svo
mikill klassi yfir öllu. Allir voru líka
í góðu skapi, stórstjörnur og aðr-
ir. Þetta var eins og að fara í brúð-
kaupsveislu hjá góðum vini. Ég var
svo spennt þegar ég gekk rauða
dregilinn að ég þurfti að passa upp
á andardráttinn og að halda fótun-
um á jörðinni.“
Fyrir hátíðina var farið með þau
á „leynistað“ þar sem þau völdu
sér klæðnað fyrir hátíðina. „Þarna
var hægt að fá alls konar kjóla og
skartgripi úr demöntum sem við
hefðum aldrei getað keypt. Við
skrifuðum bara undir skjal um að
fá þetta lánað og litum svo út eins
og konungborið fólk þegar við
gengum í salinn.“
Kölluð aftur á svið
Lag Marketu og Glens keppti við
fjögur önnur lög, þar á meðal þrjú
úr Disney-myndinni Enchanted.
Það var John Travolta sem opnað
umslagið og las upp „And the Osc-
ar goes to …“
Hvernig var tilfinningin að
heyra nöfn ykkar?
„Eins og flugeldasýning. Það
voru alls konar tilfinningar sem
hrísluðust um mann. Líkaminn
býr til seratónín og allt þetta góða
fer af stað. Svo fer maður að anda
grunnt, titra og getur varla talað.“
Marketa og Glen gengu á sviðið
og tóku við styttunum sínum
og Glen flutti stutt ávarp. Þegar
Marketa fór að hljóðnemanum og
byrjaði að tala hófst tónlistin og
þau gengu af sviðinu. Seinna í út-
sendingunni kallaði Jon Stewart
kynnir Marketu eina á svið til að
ljúka ræðunni.
Hvað gerðist eiginlega?
„Áður en við fórum á hátíðina
fengum við undirbúnings DVD-
disk þar sem Tom Hanks segir: Til
hamingju, þú hefur verið tilnefnd-
ur … og hvað nú? Þar kom fram að
ef þú vinnur hefur þú aðeins eina
mínútu frá því að nafnið þitt er
lesið upp þar til tónlistin byrjar og
þú verður að koma þér af sviðinu.
Þegar við komum á sviðið voru um
30 sekúndur eftir. Við Glen vorum
búin að ræða að ef við myndum
vinna myndi hann halda ræðuna
þar sem hann syngur meira á tón-
leikum okkar. Ég ætlaði aðeins að
segja takk kærlega.“
Þegar af sviðinu var komið fengu
þau freyðivín og svo farið beint
í myndatöku. En þá kom maður
með hljóðnema á höfðinu og sagði
við Marketu að Jon Stewart vildi
ræða við hana stuttlega.
„Mér fannst þetta skrítið en var
eiginlega ekki í ástandi til að hugsa
mikið um þetta. Svo var mér sagt
að ég myndi fara aftur á svið en ég
skyldi ekki alveg hvað var í gangi.
Svo var ýtt á bakið á mér og ég gekk
inn á sviðið en var ekki með neitt
undirbúið. En ég lét vaða og talaði
frá hjartanu um að allt mannfólk
væri eitt og að lagið okkar byggði
brýr milli fólks.“
Ágengni ljósmyndara og aðdáenda
„Ég er löngu hætt að hugsa um
hvort þetta hafi verið draumur
eða ævintýri. Þetta gerðist bara.
Ég trúi á galdra og að hlutir gerist
fyrir einhverja krafta sem við skilj-
um ekki. Ég trúi líka á engla, álfa
og guð í alls konar myndum. Ein-
hvern æðri mátt sem stýrir.“
Fékkstu tilboð um að leika í
Hollywood eftir þetta?
„Já, en það voru aðeins smá-
hlutverk og ekkert sem ég tengdi
neitt sérstaklega við. Svo er það
heldur ekki þannig að hlut-
verkin komi á silfurfati. Jafnvel
þekktir leikarar þurfa að fara í
áheyrnarprufur og taka upp kynn-
ingarmyndbönd. Mér fannst ég
ekki vera það góður leikari. En ég
gat leikið þetta hlutverk sem ég
tengdi mjög vel við.“
Marketa segir að þessu hafi
einnig fylgt skuggahliðar, þá sér-
staklega varðandi ágenga blaða-
menn í heimalandi hennar og
paparazzi -ljósmyndara sem eltu
hana og seldu myndir í slúður-
blöð. Allt í einu var hún orðin
stórstjarna í Tékklandi og það gat
reynst lýjandi að sinna öllum að-
dáendunum. „Mér fannst allir
vilja eitthvað frá mér. Ég var farin
að missa röddina vegna þess að ég
var talandi allan daginn. Ég reyndi
að sinna fólki eins vel og ég gat en
ég var orðin dauðþreytt.“ Hún seg-
ir þó að heilt yfir hafi þessi reynsla
verið jákvæð og með tíð og tíma
lærði hún að takast á við frægðina.
Leitaði að guði
Samstarf Marketu og Glens var ekki
bundið við kvikmyndina Once. Þau
spiluðu saman í hljómsveitinni The
Swell Season ásamt öðrum hljóm-
sveitarmeðlimum úr The Frames.
Marketa flutti til Dublin þar sem
sveitin hafði bækistöð en annars
voru þau á stöðugu tónleikaferða-
lagi um heiminn. Óskarinn opnaði
ýmsar dyr fyrir þau. Þau komu fram
í The Simpsons og áttu lög í ýmsum
kvikmyndum og þáttum. Einnig
var settur upp Broadway-söngleik-
ur byggður á Once.
Eftir tvö ár var vildi Glen taka
árs hlé frá The Swell Season og
Marketa vissi þá að hljómsveitin
myndi ekki koma saman aftur.
Hún varð þá að ákveða hvort hún
ætlaði að halda áfram í tónlistar-
geiranum. Hún flutti til New York
og ákvað að skapa sína eigin tón-
list en í samvinnu við Aida Shah-
ghasemi, slagverksleikara frá Íran,
og úr varð platan Anar.
Tónlist þín er svolítið trúarleg.
„Foreldrar mínir eru ekki
trúaðir og ég fékk ekki trúarlegt
uppeldi. Þegar ég var lítil fann ég
samt þörf fyrir eitthvað slíkt. Ég sá
söngleikinn Jesus Christ Superstar
í sjónvarpinu og varð algerlega
hugfangin af honum. Mér fannst
þessi hippi sem lék Jesú svo fal-
legur og ég þóttist oft vera Mar-
ía Magðalena. Ég vissi ekkert um
kristna trú en ég heyrði trúfestuna
í tónlistinni. Þegar ég flutti til Ír-
lands var ég mjög leitandi í trú-
málum og las mikið um þessi mál.
Ég fann að ég trúði á guð en ekki
þann guð sem aðrir voru að tala
um. Ég hef gaman af því að skilja
þetta ekki allt saman en held alltaf
áfram að leita. Þessi leit hefur
mikil áhrif á textana mína.“
Mætti ekki í flugið heim
The Swell Season lauk sínu hinsta
tónleikaferðalagi með tónleikum á
NASA í október árið 2010. Marketa
segir að landið hafi strax haft ein-
hver áhrif á sig, að það væri öðruvísi
en aðrir staðir á tónleikaferðalaginu.
Hún hugsaði strax um að reyna að
komast aftur til Íslands og taka upp
plötu. Þegar þýskur vinur hennar
stakk upp á upptökuverinu Gróður-
húsinu til að taka upp sá hún þetta
sem merki og stökk á tækifærið. Hér
tók hún upp plötuna Muna með
upptökustjóranum Sturlu Míó Þór-
issyni, verðandi eiginmanni hennar.
Neistaði strax á milli ykkar?
„Já, en ég hef fundið það áður,
að slík tilfinning getur komið upp
þegar maður er að skapa eitthvað
með öðrum. Það er eins og sálirnar
geti eitthvað af sér í einhvers kon-
ar dansi sköpunar og þær tilfinn-
ingar eru mjög líkar ást. Þegar ég
og Míó vorum að búa til plötuna
hélt ég að þær tilfinningar sem ég
fann væru aðeins þetta.“
En þegar upptökum var lokið
vildi hún ekki fara aftur heim til
New York. Sturla Míó bauð henni
að vera lengur, kynnast landinu
aðeins betur og syngja inn á aðra
plötu sem hann var að taka upp.
„Mér fannst frábært að hafa
ástæðu til að vera lengur og mætti
ekki í flugið mitt. Eftir viku sá ég að
ég var pottþétt orðin ástfangin af
honum.“
Líður ekki eins og útlendingi
Marketa er nú með sitt þriðja barn
undir belti og er einnig að vinna að
nýrri plötu með Sturlu Míó. Hún
segir að sú plata fjalli um ástina en
ekki í hefðbundnum skilningi þess
orðs. „Þegar söngvarar syngja um
ástina fara þeir ekki nógu djúpt
ofan í hugtakið fyrir mig. Þegar ég
hef upplifað ást hefur hún breytt
mér sem persónu og eflt. Ég kemst
innan í kjarnann og verð betri út-
gáfa af sjálfri mér.“
Er aldrei erfitt að vinna svo náið
með maka sínum?
„Nei, ekki með honum. Hann
er ekki bara tæknilega mjög góður
upptökustjóri heldur hefur hann
mikla næmni á hvað mig vantar
og er oft búinn að laga hluti áður
en ég næ að biðja um þá. Hann er
alltaf að fylgjast með. En við þurf-
um að hugsa um að gefa hvort
öðru pláss líka.“
Marketa og Míó opnuðu upp-
tökuver sitt, Masterkey Studios, 6.
janúar 2018. Þau höfðu þá unnið
hörðum höndum að byggingu
þess í yfir tvö ár en á sama tíma
unnið saman að tónlist fyrir hljóm-
plötur annarra tónlistarmanna,
kvikmyndir og stutt myndir.
Þau höfðu stefnt að því að eign-
ast sitt eigið upptökuver í þrjú ár
áður en þau fundu loks hið full-
komna hús á Seltjarnarnesi. „Þetta
gefur okkur mikið frelsi til að skapa
í afslöppuðu umhverfi. Ef ég fæ
allt í einu hugmynd um miðja nótt
sem mig langar að útfæra get ég
komið strax hingað.“ Auk þess að
vinna að plötunni er Marketa að
vinna að tónlist fyrir leikrit í Þjóð-
leikhúsinu og í New York. „Það er
nóg að gera og svo gaman að mæta
í vinnuna.“
Er íslenska fjölskyldulífið ekki
mikil viðbrigði frá Hollywood og
tónleikaferðalögum um heiminn?
„Jú, en ég er mjög ánægð með
líf mitt núna. Í Hollywood þarf
maður sífellt að berjast við að
halda sér sýnilegum og álagið er
mikið. Ég er búin að festa rætur
og er á þeim stað sem ég vil vera.
Ég hef einhverja tengingu við
Ísland og líður ekki eins og ég sé
útlendingur. Kannski bjó ég hér í
fyrra lífi.“ n
„Ég var svo spennt
þegar ég gekk
rauða dregilinn að ég
þurfti að passa upp á
andardráttinn.
Opnuðu upptökuver „Ef ég fæ allt í einu
hugmynd um miðja nótt sem mig langar að
útfæra get ég komið strax hingað.“