Dagblaðið Vísir - DV - 16.02.2018, Síða 64

Dagblaðið Vísir - DV - 16.02.2018, Síða 64
64 menning 16. febrúar 2018 U m síðustu helgi bárust þær fréttir að Jóhann Jóhanns- son, tónskáld og einn þekkt- asti tónlistarmaður Íslands, hefði látist á heimili sínu í Berlín langt fyrir aldur fram, aðeins 48 ára að aldri. Jóhann var löngu búinn að sanna sig í íslensku rokki og til- raunalistasenunni þegar hann sló í gegn í Hollywood, en á undan- förnum árum hefur hann unnið sér sess sem eitt sérstæðasta en um leið eftirsóttasta tónskáld kvik- myndaheimsins. Úr lúðrasveit í rokkið Jóhann fæddist í Reykjavík í sept- ember árið 1969 en bjó hluta barnæskunnar í Frakklandi, hann byrjaði að læra á básúnu á barns- aldri og lék meðal annars með lúðrasveitinni Svaninum. Á ung- lingsaldri fór hann að spila á gítar og fikta við hljóðgervla. Hann vakti fyrst athygli tæplega tvítugur með skógláps-rokksveitinni Daisy Hill Puppy Farm – en sveitin vakti meðal annars athygli hins áhrifa- mikla breska útvarpsmanns John Peel. Eftir að sú sveit lagði upp laupana lék Jóhann með og starf- aði sem upptökustjóri fyrir fjölda íslenskra rokk- og poppverkefna á borð við HAM, Unun, Pál Óskar, Lhooq, auk þess sem hann hélt um árabil úti hljóðveri sem hann kallaði Nýjasta tækni og vísindi. Hann var mikil driffjöður í lista- senunni og var til að mynda einn aðstandenda Tilraunaeldhússins, sem um árabil stefndi á óvænt- an hátt saman ólíkum listamönn- um í íslensku listalífi. Þar fæddist einmitt hljómsveit hans Apparat Organ Quartet árið 1999. Hún byrj- aði sem naumhyggjulegur organ- kvartett en þróaðist yfir kröftugt raf-rokkband í anda sveita á borð við Kraftwerk. Í Lestinni á Rás 1 á dögunum lýsti Úlfur Eldjárn, einn meðlima sveitarinnar, samstarf- inu sem frjóu en fullu af togstreitu – enda hafi Jóhann, ekki síður en aðrir meðlimir sveitarinnar, haft sterkar og afdráttarlausar skoðan- ir á tónlist. Framvörður nýklassíkur Um aldamót fór Jóhann að semja tónlist fyrir leikhús, sjónvarp og kvikmyndir af fullum krafti og var fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem hann gerði tónlist fyrir Ís- lenski draumurinn. Fyrsta sóló- plata Jóhanns, Englabörn, kom út árið 2002 og var hún byggð á tónlist sem hann vann fyrir sam- nefnt leikrit Hávars Sigurðssonar í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Undur- falleg tónlistin, sem var í algjörri og áhrifamikilli andstöðu við harkalegan efnivið verksins, vakti athygli langt út fyrir landstein- ana, og fékk til að mynda 8,9 af 10 mögulegum í einkunn hjá smekk- mótandi indívefritinu Pitch- fork. Platan þykir enn í dag eitt hans besta verk og verður raun- ar endurútgefin í næsta mánuði af einu allra virtasta útgáfufyrir- tæki á sviði klassískrar tónlistar, Deutsche Grammophone, með ýmsum tilbrigðum. „Píanóútgáfa hans af Englabörnum er falleg svo nístir, það er í henni magnað- ur tími og tímaleysi, eins og í svo mörgum af hans bestu verkum,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson pí- anóleikari sem leikur í nýju píanó- útgáfunni af plötunni. „Það voru svo miklar andstæð- ur í tónlistinni hans. Hann gat far- ið í mjög metal-áttir, eins og með HAM og Apparat en svo fór hann alveg á staði sem fengu hörðustu gaura til að fara að skæla,“ segir Erna Ómarsdóttir, listrænn stjórn- andi Íslenska dansflokksins, sem vann með Jóhanni að dansverk- unum IBM 1401 – A User's Manual og Mysteries of Love. Jóhann var fljótt stimplaður sem einn af framvörðum hinnar ný- klassísku bylgju í tónlist, hugtaks sem hefur verið notað yfir tónlist- armenn á mörkum sígildrar- og dægurtónlistar, sem beita jafnt tækjum klassískrar og raftónlistar. Hann var að mestu sjálflærður í tónlist en í viðtali við Morgunblað- ið árið 2008 talaði hann þó um að háskólanám sitt í bókmenntum og tungumálum hafi ekki verið síðri bakgrunnur fyrir ferilinn. Vinir Jó- hanns sem hafa minnst hans á samfélagsmiðlum í vikunni hafa margir hverjir lagt áherslu á hversu vel lesinn og vel að sér Jóhann var í hinum ólíkustu listmiðlum, ekki síður kvikmyndum og bókmennt- um en tónlist. Aukin áhersla hans á kvikmyndatónlist kom því fáum á óvart. Páll Óskar Hjálmtýsson, sem Jóhann vann að fyrstu tveimur plötunum með, sagði til að mynda í viðtali á Rás 2 árið 2016 að þeir hafi eytt meiri tíma í að tala um kvik- myndir en tónlist þegar þeir unnu saman að plötum Páls á tíunda ára- tugnum. Á topp Hollywood-hæða Tónlistin við Englabörn markaði að vissu leyti upphafið að kvikmynda- tónlistarferli Jóhanns á erlendum vettvangi, en tvö lög úr myndinni voru notuð í Hollywood-myndinni Wicker Park. Eftir að hafa unnið tónlist við nokkrar kvikmyndir hér á landi var fyrsta erlenda kvik- myndin í fullri lengd sem hann samdi fyrir Personal Effects, sem kom út árið 2009. Eftir að hafa samið fyrir nokkrar misgóðar kvikmyndir vakti hann loks verð- skuldaða athygli þegar hann vann tónlist við mynd fransk-kanadíska leikstjórans Denis Villenueve, Prisoners – en það samstarf átti eftir að fleyta þeim báðum í upp á topp Hollywood-hæða með kvik- myndunum Sicario og Arrival. Leiðir skildi hins vegar þegar þeir unnu að Blade Runner 2049 þar sem Jóhann var settur til hliðar – af ástæðum sem enn hafa ekki verið opinberaðar – fyrir eitt allra helsta kvikmyndatónskáld samtímans, Hans Zimmer. Eftir Prisoners hrúguðust verð- launin inn: BAFTA, Golden Globe og tilnefningar til Óskarsverðlaun- anna fyrir tilfinningaþrungna og rómantíska tónlistina í The The- ory of Everything og gæsahúðar- valdandi óhugnaðinn í Sicario. Verkefnin urðu æ stærri og þegar hann lést var Jóhann til að mynda byrjaður að semja tónlist fyrir stóra Disney-mynd, Christopher Robin. Á sama tíma og Jóhann sinnti kvikmyndatónsmíðum af miklum krafti hafði hann einnig unnið að fjölda annarra verkefna, gefið út sjö sólóplötur og nýlega einnig far- ið að spreyta sig sjálfur á sviði kvik- myndanna með svarthvítu, list- rænu heimildamyndinni End of Summer. Vinir hans tala flestir um allt að því ómannlegan dugnað og vinnuþrek hjá Jóhanni, ástríðu og óþrjótandi forvitni. Víkkaði út formið Eftir andlát hans hafa fjölmiðl- ar heimsins reynt að greina áhrif og arfleifð Jóhanns í heimi kvik- myndanna. Það þykir nokkuð óvenjulegt hvað hann hefur skap- að sér sérstakan stíl á tímum þegar kvikmyndatónlist verður æ keim- líkari. Kvikmyndavefurinn Variety segir hann til að mynda hafa víkk- að út hugmyndir fólks um hvað kvikmyndatónlist geti verið og áhrif hans muni enduróma um langa tíð. Jóhann sagði frá því í viðtöl- um að hann reyndi að byrja að semja tónlistina áður en tökur hæfust á kvikmynd og þannig koma í veg fyrir að önnur tónlist væri tímabundið sett undir þegar myndin væri klippt, en sú aðferð leiðir oft til þess að leikstjórar vilja fá tónlist í sama anda yfir mynd- irnar sínar. Hann samdi fyrir hefðbundin klassísk hljóðfæri en nýtti sér ekki síður hina ýmsu stafræna eða hlið- ræna breytingu og brenglun hljóða – áhrifin frá ýmiss konar tilrauna- kenndri tónlist, raftónlist jafnt sem hávaðalist leyna sér ekki. Það sem skiptir þó mestu máli er að Jó- hann lagði áherslu á að tónlistin væri hluti af sjálfri kvikmyndinni, ynni með myndunum, í stað þess að hún væri bara samin eftir á og lögð yfir myndefnið. „Þegar ég er að semja tónlist fyrir kvikmynd, er ég kvikmyndagerðarmaður,“ sagði hann sjálfur í útvarpsþættin- um Stefnumót við tónskáld á Rás 1 árið 2016. Eitt besta dæmið um þessa til- finningu og virðingu Jóhanns fyrir heildarverkinu er kannski vinna hans við Mother! eftir Darren Aronofsky sem var frumsýnd í fyrra. Jóhann hafði samið tón- list við myndina en ráðlagði leik- stjóranum að lokum að sleppa henni því myndin væri betri án tónlistar – og var því titlaður sem hljóð- og tónlistarráðgjafi frekar en tónskáld. „Hann bauð áhorf- endum að hugsa frekar en að hann segði þeim hvernig þeim átti að líða,“ segir í áðurnefndri grein Variety. n „Falleg svo nístir“ Farið yfir einstakan feril Jóhanns Jóhannssonar Kristján Guðjónsson kristjan@dv.is Á hátindi ferilsins Jóhann Jóhannsson átti magnaðan feril að baki og skilur eftir sig mikið magn fjölbreyttrar tónlistar.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.