Morgunblaðið - 28.06.2018, Blaðsíða 47
47
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 28. JÚNÍ 2018
Heiðmörk Það er holl og góð hvíld frá amstri hversdagsins að skokka úti í guðsgrænni náttúrunni. Ekki er verra að hafa góðan hund sér við hlið, en þakklátari hlaupafélagi er vandfundinn.
Kristinn Magnússon
Á hverjum einasta
degi keppa ólík fyr-
irtæki frá flestum
löndum heims sín á
milli um hylli við-
skiptavina. Sú um-
gjörð sem stjórnvöld
búa atvinnulífi á
hverjum stað fyrir sig
ræður miklu um það
hversu vel fyrir-
tækjum gengur í
samkeppni á mörk-
uðum heimsins. Stöðugt, skilvirkt
og hagkvæmt starfsumhverfi hér á
landi getur leitt til meiri verð-
mætasköpunar innlendra fyrir-
tækja, aukið samkeppnishæfni og
þar með velmegun í landinu. Því
miður er starfsumhverfi fyrir-
tækja á Íslandi ekki stöðugt, skil-
virkt eða hagkvæmt í samanburði
við önnur ríki. Nú eru blikur á
lofti í íslensku efnahagslífi og því
mikilvægt að stjórnvöld grípi til
viðeigandi aðgerða til að tryggja
að starfsumhverfi íslenskra fyr-
irtækja sé samkeppnishæft og
standist alþjóðlegan samanburð.
Með stöðugleika má auka bæði
framleiðni og verðmætasköpun.
Óstöðugleiki í íslensku hagkerfi
stafar ekki síst af því að vinnu-
markaður, opinber fjármál og pen-
ingastefna hafa ekki gengið í takt.
Til lengri tíma litið verður að
bæta þar úr og styrkja umgjörð
þessara þátta á komandi mán-
uðum. Efnahagssveiflur hér hafa
verið miklar og mun meiri en í
flestum öðrum iðnvæddum ríkjum,
með tilheyrandi kostnaði fyrir
samfélagið.
Með því að ganga lengra en
þörf krefur við innleiðingu
EES-reglugerða er dregið úr skil-
virkni og samkeppnisstaða ís-
lenskra fyrirtækja skert. Íslensk
fyrirtæki eru þá jafnvel að starfa
eftir strangari reglum en keppi-
nautar þeirra innan Evrópusam-
bandsins. Tíðar breytingar í laga-
og reglugerðarumhverfi hafa einn-
ig áhrif á fjárfestingu og uppbygg-
ingu efnahagslífsins.
Starfsumhverfi íslenskra fyrir-
tækja er ekki hagkvæmt í alþjóð-
legum samanburði.
Hátt raungengi krónu
og há laun í alþjóð-
legum samanburði
draga verulega úr
mætti íslenskra fyr-
irtækja til að keppa
við erlend fyrirtæki
sem starfa þar sem
laun og vextir eru
lægri. Við þetta bæt-
ast síðan háir vextir
og háir skattar. Hefur
þetta ekki síst komið
niður á starfsemi ís-
lenskra framleiðslufyrirtækja en
nokkur þeirra hafa að undanförnu
brugðist við stöðunni með því að
draga úr eða hætta sinni starfsemi
hér á landi. Það hlýtur að vekja
spurningar um hvort við séum á
réttri leið.
Það starfsumhverfi sem stjórn-
völd búa íslenskum fyrirtækjum
er því óstöðugt, óskilvirkt og
óhagkvæmt. Þetta dregur veru-
lega úr samkeppnishæfni inn-
lendra fyrirtækja, minni verðmæti
verða til en ella og lífskjör í land-
inu ekki eins góð og þau gætu
verið. Stjórnvöld hafa það í hendi
sér að gera starfsumhverfi inn-
lendra fyrirtækja samkeppnishæft
við önnur ríki. Nú þegar hægir á
efnahagslífinu þarf verulegar um-
bætur í starfsumhverfi fyrirtækja
svo við drögumst ekki aftur úr í
samkeppni þjóða. Bæta þarf skil-
virkni, auka hagkvæmni og
tryggja stöðugleika. Án efa er vilji
til að gera betur en nú reynir á
hvort áræði sé fyrir hendi til að
breyta hlutunum. Það blasir við að
hefjast þarf handa strax. Sam-
keppnishæfni Íslands er í húfi.
Eftir Sigurð
Hannesson
»Nú þegar hægir á
efnahagslífinu þarf
verulegar umbætur í
starfsumhverfi fyrir-
tækja svo við drögumst
ekki aftur úr í sam-
keppni þjóða.
Sigurður
Hannesson
Höfundur er framkvæmdastjóri
Samtaka iðnaðarins.
Áræði til breytinga?
Í sambýli manna eru
smærri og stærri
árekstrar óhjá-
kvæmilegir. Raunar
mætti segja að ágrein-
ingur í einhverri mynd
hafi verið viðfangsefni
allra mannlegra sam-
félaga að fornu og
nýju. Til að forðast
árekstra og útkljá
ágreining hefur hvert
einasta samfélag sem sögur fara af
komið sér upp félagslegum reglum.
Reglur eru forsenda þess að menn
geti lifað friðsamlega saman. Regl-
urnar einar og sér eru þó til lítils
gagns ef meðlimir samfélagsins telja
þær ekki skuldbindandi. Án reglna
leysist samfélag manna upp í
óreiðu. Við þær aðstæður getur
enginn búið til langframa. Til að
forðast slíkt óbærilegt ástand þurfa
hinar félagslegu reglur að vera
skýrar, skiljanlegar – og stefna að
marki sem telja má skynsamlegt.
Eftirfarandi línum er ætlað að höfða
til hyggjuvits lesenda og árétta að
ofangreindar staðreyndir um viðvar-
andi ágreining knýja alla skynsama
menn til að iðka og verja vitræna
rökræðu. Rökin er þau að það væri
heimskulegt að gera það ekki!
Meðan menn eru sammála um að
rétt sé að viðhalda reglu, fyrirsjáan-
leika og friði er ekki annars að
vænta en að mikil áhersla sé lögð á
að ágreiningur sé leystur skjótt og
örugglega. Í því skyni hafa menn í
aldanna rás reynt ýmsar aðferðir.
Kreddur, hindurvitni og ströng hug-
mynda-, trúar- eða kenningakerfi
hafa löngum verið nýtt í því skyni
að hafa stjórn á „múgnum“ og
þagga niður í þeim sem ekki vilja
ganga í takt. Önnur aðferð sem
menn hafa beitt í því skyni að halda
uppi röð og reglu er beiting mið-
stýrðs ríkisvalds. Á ögurstundum í
persónulegu og pólitísku lífi borg-
aranna þurfa þeir iðulega að reiða
sig á þekkingu lögfræðinga gagn-
vart ægivaldi ríkisins. Minni gaum-
ur hefur verið gefinn að þeirri ógn
sem stafar af múgæsingarmönnum.
Með hliðsjón af ýmsu því sem
bregður fyrir í fjölmiðlaumræðu er
uggvænlegt til þess að
hugsa að almenningur
standi berskjaldaður
gagnvart atlögum lýð-
skrumara. Slíkir ein-
staklingar beita gam-
alreyndum aðferðum
til að afla sér fylgis,
þ.e. að höfða til tilfinn-
inga fremur en að
skírskota til stað-
reynda og rökhugs-
unar.
Dómstólar gegna
lykilhlutverki í því að
greiða fyrir friðsamlegri lausn
deilumála, en eiga þó vart að vera
eini vettvangur þjóðfélagsins þar
sem rökfærslur þurfa að halda
vatni. Eða hvað? Beitum við fals-
rökum í daglegum samskiptum okk-
ar og rökræðum? Byggjum við mál-
flutning okkar á staðreyndum eða
kreddum? Á traustum rökum eða
tilfinningalegri afstöðu? Höfum við
framselt skynsemi okkar, dóm-
greind og tjáningarfrelsi í hendur
annarra? Frammi fyrir sumu því
sem sett er fram á vettvangi stjórn-
mála getur sú spurning verið áleitin
hvort vert sé að taka aftur upp
kennslu í rökfræði, eins og gert var
á miðöldum, til að undirbúa nem-
endur undir frekara nám og starf.
Með því móti mætti mögulega forða
almenningi frá „fréttaflutningi“ sem
ruglar fremur en leiðbeinir, sem
formyrkvar hugann fremur en upp-
lýsir hann, sem framkallar dýrsleg
viðbrögð fremur en íhugun. Þetta
mætti í raun kalla þjóðfélagslega
nauðsyn, þ.e. að þjálfa fólk í að
gera greinarmun á gagnrýnni hugs-
un og rétttrúnaði, sannindum og
lygi, staðreyndum og afbökunum.
Með þessu móti kæmi samræða í
stað kappræðu.
Augljóst má telja að stefnumark-
andi ákvarðanir ber að taka á
grundvelli skynsemi en ekki í hugs-
unarleysi, á upplýstum grunni en
ekki í blindni. Rökræðan er aðferð
til að skerpa sýn á viðfangsefni með
því að leggja mismunandi röksemd-
ir á vogarskálar, bera þær saman
og komast að niðurstöðu út frá því
sem hægt er að staðreyna. Í þessu
ljósi má sjá að rökræðan er sam-
vinna.
Er ósanngjarnt að stjórnmála-
menn og aðrir sem tjá sig á opin-
berum vettvangi virði þá undir-
stöðureglu íslensks réttar að sakaðir
menn fái að njóta vafans þar til sekt
er sönnuð? Vilji menn taka sér
dómsvald yfir öðrum hlýtur a.m.k.
að mega gera þá lágmarkskröfu að
sá sem sest í dómarasætið kynni
sér málið og hlusti á andstæð sjón-
armið áður en dómur er felldur.
Fólk þarf ekki að vera löglært til
þess að skilja mikilvægi þessara at-
riða, því einmitt þetta ræður á end-
anum úrslitum um hvort við telj-
umst búa í siðmenntuðu samfélagi
eður ei. Eins og Þorgeir Ljósvetn-
ingagoði benti á árið 1000 og margir
hafa síðan áréttað getum við ekki
haft tvenn lög í landinu. Grunn-
reglur þær sem gilda um dómstóla
eru einnig skuldbindandi á sviði fjöl-
miðla. Annaðhvort höldum við uppi
réttarríki eða verðum gerræði að
bráð. Sérhver borgari ber óumræði-
lega víðtæka ábyrgð í þessu tilliti.
Með sérhverju ógætilegu orði sem
við látum falla er vegið að þessum
undirstöðum reglu og friðar.
Fremur en að ræða um persónur
má ræða um málefni og hugmyndir.
Í stað hroka og sjálfsréttlætingar
ber að iðka auðmýkt. Ef þetta er
ekki gert – og æsingamönnum gef-
inn laus taumur – er þar með verið
að grafa undan allri samfélagsgerð-
inni. Þetta er það sem er verst við
„framlag“ óbeislaðra manna í at-
hugasemdakerfum vefmiðla. Þetta
er það sem er ógeðfelldast við órök-
studdar ásakanir í ljósvakamiðlum.
Brot gegn einum í þessu sam-
hengi er brot gegn öllum. Um leið
er það brot gegn okkur sjálfum því
sagan sýnir að enginn er betur sett-
ur á tímum óaldar og lögleysu.
Eftir Arnar
Þór Jónsson »Með rökræðu má fá
skarpari sýn á
ágreiningsmál með því
að leggja mismunandi
röksemdir á vogar-
skálarnar og bera þær
saman til að komast að
niðurstöðu.
Arnar Þór Jónsson
Höfundur er héraðsdómari.
Rökræða er samvinna