Saga - 2011, Side 10
september sama ár. Helgi Thordarsen dómkirkjuprestur gaf þau
saman og talaði um vináttuna, tryggðina og ástina. Hann lagði út af
texta í orðskviðum Salómons, „vinurinn elskar ætíð“, og gat ekki
leynt aðdáun sinni á þeirri tryggð sem Jón sýndi Ingibjörgu með því
að standa við heit sín eftir öll þessi ár.7 Hann talaði fyrir munn
margra, því gifting Jóns og Ingibjargar er sögð hafa mælst „vel fyrir“
og Ingibjörg Jónsdóttir, húsfreyja á Bessastöðum, skrifar í bréfi um
„drengskap“ Jóns.8 Þessi einstaka tryggð og drengskapur er inn-
takið í ræðu séra Helga þótt aldrei sé sagt berum orðum að Jón hafi
ekki vitjað unnustu sinnar í tólf ár.
Á sínum tíma vakti þessi mynd mig til umhugsunar um það
hvernig við nálgumst ljósmyndir, hvernig við lesum í þær, hvað við
sjáum. Þó má ekki taka ljósmynd of hátíðlega af því að hún er svið -
setning, augnablik sem ljósmyndarinn hefur valið. Þetta augnablik
lifir sem einhvers konar tímasnið og getur sagt okkur svo ótal
margt, en þó ekki neitt. Túlkun veltur ekki aðeins á því sem við
sjáum á myndinni, teljum okkur sjá eða sjáum ekki, heldur einnig
því sem við viljum sjá og því sem við vitum, þekkingunni sem sagan
og menning okkar felur í sér. ekki má gleyma áhrifamætti ljós-
mynda, hvernig ljósmynd getur orðið táknmynd eða jafnvel helgi-
mynd sem felur í sér alla okkar vitneskju um atburð eða tímabil —
hvort sem sú vitneskja er rétt eða röng.9
Og hvað þá með Ingibjörgu? erum við of upptekin af því að
horfa á hana með allt slúðrið og neikvæðnina á bakinu? Föst í frá-
sögninni af svartklæddu dularfullu konunni sem mætti í útför Jóns
og hefur verið teflt fram gegn Ingibjörgu gamalli, tannlausri og
ljótri, af því að Jón hlaut að hafa átt fegurri kærustu og gáfaðri? Í
stórsögunni um Jón Sigurðsson hefur Ingibjörg verið konan í skugga
hetjunnar en ekki að baki henni.
Nokkrum árum eftir að ég skoðaði myndina af Ingibjörgu og
Jóni fyrst, í verki Guðjóns, pantaði ég hana frá Ljósmyndasafni
Íslands til birtingar í bók sem ég vann að. Þegar ég opnaði mynda -
skjalið fyllti andlit Ingibjargar skjáinn. Þá fannst mér ég sjá eitthvað
erla hulda halldórsdóttir10
7 Lbs. 609 fol. Ræða séra Helga Thordarsen yfir Jóni Sigurðssyni og Ingibjörgu
einarsdóttur.
8 Guðjón Friðriksson, Jón Sigurðsson I, bls. 350–351.
9 Roland Barthes, Camera Lucida. — Gunnþórunn Guðmundsdóttir, „eins og þessi
mynd sýnir …“, bls. 27–49. — Cornelia Brink, „Secular Icons. Looking at
Photographs from Nazi Concentration Camps“, History & Memory 12:1 (2000),
bls. 135–150.
1-SagaVOR2011—NOTAGreinar_Sagahaust2004-NOTA5/4/111:12PMPage10