Saga - 2011, Page 76
annars stóð fyrir.55 Helgi Þorláksson hefur vakið athygli á því að
lausamenn hafi oft stundað verslun og kaupmennsku og orðið
óvinsælir vegna þess, enda hafi þeir verið orðnir of öflugir bæði að
mati ráðamanna samfélagsins og kaupmanna.56 Hér er lögð áhersla
á að afskipti lausamanna af verslun og þátttaka í fiskveiðum hafi
verið talin ógnun í augum ráðamanna og þeir því beitt sér fyrir
banninu.
Í rannsókn minni hef ég skýrt bannið við lausamennsku meira
sem hluta af þeirri stefnu stjórnvalda að styrkja sveitasamfélagið og
býlið sem kjarna framleiðslunnar, fremur en að hindra framgang
verslunar eða fiskveiða; til þess þurfti eins margar vinnandi hendur
við búskapinn og hægt var. Þörfin fyrir aukinn mannfjölda og
stöðuga fólksfjölgun er mjög greinilega hluti af hagrænni hugsun
samtímans og birtist bæði í dönskum og íslenskum ritum. Lausa -
mennskutilskipunin er í mínum huga eitt dæmi um þetta hugarfar.
Lausamennskubannið árið 1783 var sett því sem næst samhliða ann-
arri tilskipun sem snerti Tukthúsið árið 1784. Hún átti að verða til
þess að „endurmennta“ óhlýðin vinnuhjú, lausamenn og flakkara í
iðjusemi og hlýðni. Það átti að róa að því öllum árum að íbúarnir
nýttust landinu sem allra best og leggðu sitt af mörkum til að auka
framleiðslu þess. vinnuhjú voru undir húsaga og húsbóndavaldi og
því ekki vandamál á sama hátt og lausamennirnir. Þeir sem voru
lausamenn og höfðu greitt fyrir lausamennskuleyfi sitt, voru hins
vegar oft búlausir menn — og ekki bara það; oft voru þeir líka barn-
lausir. Barnlausir og búlausir menn lögðu ekki sitt af mörkum til
fólksfjölgunar.57 væntanlega höfðu lausamennirnir þá líka nokkuð
lausan tíma sem ekki nýttist samfélaginu. Út frá þeirri hagrænu
hugsun 18. aldar sem lesa má út úr greinargerðum og tímaritum var
þetta þrennt talið mjög óæskilegt: ónýttir möguleikar á jarðabótum,
skortur á barneignum og misbrestur á almennri iðjusemi.
Barátta stjórnvalda beindist einnig gegn flökkurum. Þeir fóru um
í leyfisleysi og voru því enn gagnslausari samfélaginu en lausa-
hrefna róbertsdóttir76
55 Sjá Gísli Gunnarsson, Upp er boðið Ísaland, bls. 33–34.
56 Helgi Þorláksson, „Undir einveldi“, Saga Íslands vII. Ritstj. Sigurður Líndal,
Magnús Lyngdal Magnússon og Pétur Hrafn Árnason (Reykjavík: Hið íslenzka
bókmenntafélag og Sögufélag 2004), bls. 43–46.
57 Wool and Society, bls. 157–169 (undirkafli í 4.2: Farmhands, Boarders and
vagrants), bls. 169–174 (undirkafli í 4.3: Artisans, Privileges and the Manu -
facturing Stratum) og bls. 178–180 (undirkafli í 4.3: Artisans and the Pro -
hibition of Boarders 1783).
1-SagaVOR2011—NOTAGreinar_Sagahaust2004-NOTA5/4/111:12PMPage76