Saga - 2011, Page 166
menn, eiga ekki við rök að styðjast. SGM gerir umræðu meðal
sagnfræðinga eftir úthlutun í Rannsóknasjóði fyrir styrkárið 2010 að
umtalsefni og vitnar í Önnu Agnarsdóttur, prófessor í sagnfræði,
Davíð Ólafsson, formann Félags sjálfstætt starfandi fræðimanna í
ReykjavíkurAkademíunni, og Má Jónsson, prófessor í sagnfræði,
sem meðal annarra tóku til máls á Gammabrekku-póstlista sagn -
fræðinga í febrúar 2010. Sú umræða var prýðileg, en ég sakna þess
óneitanlega að SGM geti þess að sá sem þetta ritar tók þátt í um -
ræðunni og skýrði þar ýmis atriði er varða úthlutun Rann sókna -
sjóðs.42 Ég get auðvitað ekki gert kröfu um að SGM vitni í það sem
ég hef skrifað, en þegar hann heldur því til að mynda fram að enginn
skilji „almennilega hvar mörkin milli Rannsóknasjóðs og [R]ann-
sóknarnámssjóðs liggja“43 hefði ég vissulega kosið að hann hefði
látið svars míns getið. Ég nefndi meðal annars að Rannsóknar náms -
sjóður og Rannsóknasjóður væru alls ekki sambærilegir sjóðir að
öðru leyti en því að báðir heyra undir stefnu vísinda- og tækniráðs.
Rannsóknarnámssjóður er til að mynda miklu minni sjóður, en
grundvallarmunurinn er auðvitað sá að Rannsóknasjóður styrkir
skilgreind rannsóknarverkefni vísindamanna (hvort sem þeir starfa
sjálfstætt, innan háskóla, fyrirtækja eða stofnana) en Rannsóknar -
námssjóður styrkir nemendur í rannsóknartengdu framhaldsnámi
(meistara- eða doktorsnámi).44
Frá og með styrkárinu 2011 hafa allar umsóknir í Rannsóknasjóð
verið metnar af erlendum sérfræðingum (eða Íslendingum sem
starfa erlendis). Frumkvæðið að breytingunni kom frá stjórn Rann -
sóknasjóðs og var löngu tímabær vegna smæðar íslenska vísinda-
samfélagsins og þess vanhæfis sem af því leiðir. Það myndi eflaust
styrkja matið enn frekar ef fagráð væru að hluta til mönnuð erlendu
vísindafólki eða þá Íslendingum sem starfa erlendis, eins og gert var
undanfarið ár í fagráði heilbrigðis- og lífvísinda og undanfarin tvö
ár í fagráði félags- og hugvísinda.45 Þetta nefnir SGM réttilega og
magnús lyngdal magnússon166
42 Sjá Magnús Lyngdal Magnússon, „Re: engir sagnfræðingar?“ Gammabrekka 5.
febrúar (tvö svör), 6. febrúar, 7. febrúar og 8. febrúar 2010.
43 Sigurður Gylfi Magnússon, „Dómur sögunnar er ævinlega rangur!“, bls. 177.
44 Sjá Magnús Lyngdal Magnússon, „Re: engir sagnfræðingar?“ Gammabrekka 5.
febrúar (fyrra svar).
45 Rósa Magnúsdóttir sagnfræðingur hefur setið í fagráði félags- og hugvísinda
frá 2009, en hún starfar í Danmörku, og Gestur viðarsson ónæmisfræðingur
hefur setið í fagráði heilbrigðis- og lífvísinda frá 2010, en hann starfar í Hol -
landi.
1-SagaVOR2011—NOTAGreinar_Sagahaust2004-NOTA5/4/111:13PMPage166