Breiðfirðingur - 01.04.1958, Side 61
BREIÐFIRÐINGUR
59
Hún er í Jónsvökudraumnum og jólahelginni. Hún baðar
jörðina í ylgeislum hásumarsólarinnar. Hún speglar jötuns-
andlit mánans í frostrósum vetrarins og stikar þá stjörnu-
geiminn í léttstígum dans við norðurljósin. Hún er í brosi
barnsins, umhyggju móðurinnar og forsjá föðurins. Hún er
í þrótti karlmannsins og yndisþokka konunnar, óskum elsk-
endanna og endurminningum öldungsins. Hún er systir
Sorgar, situr við hlið syrgjendanna, bregður upp fyrir þeim
björtum endurminningum, frá samverunni við ástvininn
horfna, laðar þá til að dvelja þar og minnast þeirra, með
þessu kallar hún þá aftur til lífsins — til gleðinnar. Hún er
í hverju fallegu kvæði og fjörugri ræðu. Hún er í sjálfs-
bjargarviðleitni okkar og bróðurkærleikanum. Hún er í
föðurlandsást okkar og frelsisvonum. Hún er í sjálfu lífinu
og dauðanum. — Hún er líka í harðfiskinum, hákarlinurn
og hangikjötinu. Hún er í ljúffengu laufabrauðinu og bleik-
rauðu kúasmjörinu. Hún er í velhrærðu,sykruðu skyrinu og
hnausþykkum rjómanum. Hún er í sérhverjum svaladrykk.
blátæru brunnvatninu, svalandi nýmjólkinni, rjúkandi kaffi-
bollanum, freyðandi ölkollunni, og síðast en ekki sízt svíf-
ur hún yfir og er í hinum glitrandi guðaveigum. Hún er hér
mitt á meðal okkar, hjúfrar sig undir hvers manns vanga,
ljómar frá hverju andliti og leggur blessun sína yfir þessa
samkomu.
Þessa dís hyllum við og syngjum: „Höldum gleði hátt á
loft“. Guð hefur gefið okkur róminn, Gleði gefur tóninn,
og söngstjórinn okkar, Viktor Guðnason, slær taktinn. Að
síðustu. Gleði lifi. — Fjórfalt húrra!