Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Síða 8
J ó n K a r l H e l g a s o n
8 TMM 2013 · 3
6545
Snemma morguninn eftir er bankað á útidyrnar á Bessastöðum í Fljótsdal,
Axel bóndi Jónsson kemur til dyranna, fyrir utan standa tveir ókunnir
menn. Annar er í einkennisbúningi setuliðsins, hinn er ungur Íslendingur í
borgaralegum klæðnaði. Axel býður þeim inn, við taka tveggja tíma skegg-
ræður yfir kaffibollum þar sem ungi maðurinn sinnir hlutverki túlks.
Bandaríkjamaðurinn er kominn hingað austur til að leita staðfestingar
á fregnum þess efnis að flugvél hafi flogið yfir sveitina fyrir réttri viku
síðan. Bóndi kannast við það en segir rangar þær sögusagnir sem hermi
að vélin hafi kastað einhverju niður í dalinn. Hermaðurinn spyr hve langt
sé að Skriðuklaustri, þar sem skáldið Gunnar Gunnarsson býr, en það er
fyrst undir lok heimsóknarinnar að túlkurinn útskýrir fyrir Axel hver sé
tilgangurinn með ferð þeirra. „Við erum eiginlega að leita að Hitler,“ segir
hann allt í einu, eins og ekkert sé sjálfsagðara.4
7545
Þau Síbil og Kristján Albertsson sitja á bekk á kjallaragangi Bispebjergspítala
við Tuborgveg. Hann hefur beðið hana um að rifja nákvæmlega upp rás við-
burða og allar aðstæður. Hún segist hafði stigið í veg fyrir Danina tvo sem
næst henni stóðu en sá þriðji þá lyft upp byssu sinni og hleypt af. Kristján
punktar hvert smáatriði hjá sér, meira að segja þegar Síbil fer að ergja sig
yfir rógi kjaftatífanna á gistiheimilinu. Ekki er nóg með að þær fullyrði
að grunsamlegir menn með erlendan hreim hafi spurt eftir Guðmundi í
síma og heimsótt þau Agnete upp á herbergi heldur segist ein þeirra hafa
séð dótturina daglega á ferð um húsið í þýskum nasistabúningi. Síbil skilur
ekki söguburð af þessu tagi. Hún segist hvorki hafa í slíkan búning komið
né nokkru sinni borið pólitísk tákn á flíkum sínum. Kristján bendir henni
á að hálfsíða græna kápan með mittisbeltinu sem hún klæðist sé frábrugðin
„venjulegum kvenfatnaði – og af þeirri flík hefir hreinhjörtuðu fólki staðið
stuggur“.5 Síbil ypptir öxlum. Stuttu síðar er þeim hleypt inn í líkhúsið þar
sem faðir hennar liggur; skotsárið blasir við á enninu, nálægt vinstra auganu.
8545
„Menn þurrkuðu af sér svitann / og svo komst allt í lag,“ segir í bók þeirra
Steins og Nínu. „Var furða þótt þeir skemmtu sér og gerðu sér glaðan dag?“6 Á
friðardaginn taka flestir Reykvíkingar sér frí eftir hádegi. Það eru skipulögð
hátíðarhöld í miðbænum, skipsflautur eru þeyttar í heila klukkustund,
mannfjöldi gengur fylktu liði að bústöðum sendiherra Noregs og Danmerkur
og forseti og forsætisráðherra flytja ávörp af svölum Alþingishússins. En um
kvöldið drukknar gleðin í slagsmálum og drykkjulátum.7 Það er helst að