Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Blaðsíða 26
26 TMM 2013 · 3
Þorleifur Hauksson
Bróðir minn Ljónshjarta 40 ára
Tímamótaverk í barnabókmenntum
Á þessu ári eru fjórir áratugir síðan Astrid Lindgren gaf út skáldsögu
sína Bróðir minn Ljónshjarta. Bókin er að margra dómi hápunkturinn á
ferli hennar sem barnabókahöfundar, og með útkomu hennar má segja að
„bókmenntastofnunin“ hafi fyrst tekið að veita henni verulega athygli.
Sagan segir frá Karli Lejon eða Snúð sem er dauðvona og þráir ákaft
bróður sinn sem er dáinn, hefur fórnað lífi sínu fyrir hann þegar hann
bjargaði honum úr eldsvoða. Jónatan hefur sagt Snúð frá ævintýraheiminum
Nangijala sem taki við eftir dauðann, til að sætta hann við tilhugsunina um
að hann muni bráðum deyja. Snúður fær boð frá Nangijala, Jónatan vitjar
hans í líki snjóhvítrar dúfu, og áður en varir er Snúður horfinn inn í þennan
heim, hefur þar fundið bróður sinn aftur og á ekki afturkvæmt.
Astrid Lindgren hafði áður notað ævintýraformið og fléttað því saman
við raunsæislegan frásagnarvettvang í ýmsum tilbrigðum. Þar má nefna
nokkrar smásögur og eina stórmerka skáldsögu, Elsku Míó minn, sem
kom út tveimur áratugum fyrr, 1954. Aðalpersóna þar, eins og í Bróðir
minn Ljónshjarta, er lítill og vansæll níu ára drengur. Og báðir ganga úr
ömurlegum lífsaðstæðum inn í veröld þeirra ævintýrasagna sem þeir hafa
heyrt eða lesið, og á þeim vettvangi rætast fegurstu draumar þeirra. Samt er
lífið sem bíður þeirra ekki eintómur dans á rósum. Þeir þurfa að kosta sér
öllum til í þjónustu hins góða. Því að báðir fá að reyna að það eru til ævintýri
sem ættu ekki að vera leyfileg.
Viðtökur
Ekki verður annað séð en að Elsku Míó minn og aðrar „ævintýrabækur“
Astrid Lindgren svo sem eins og smásagnasafnið Sunnanäng (1959, á
íslensku Þýtur í laufi þröstur syngur, 1994) hafi fengið góðar viðtökur gagn-
rýnenda. Þegar Bróðir minn Ljónshjarta kom út í heimalandinu 1973 hafði
bókmenntalandslagið hins vegar breyst talsvert. Upp var runnið tímabil
nýraunsæisins. Bókmenntirnar áttu að ganga á hólm við veruleika sam-
tímans. Til barnabókmennta voru gerðar þær kröfur að þær skyldu fjalla um
efni sem börnum væru nærtæk úr daglegu lífi, virkja þau til vitundar um
vandamál líðandi stundar og forðast að fegra veruleikann eða flýja hann.