Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Page 10
J ó n K a r l H e l g a s o n
10 TMM 2013 · 3
Hynkel, kanslara í Tomainíu, eða tvífara hans, meinleysislegs rakara af
gyðingaættum. Undir lok myndarinnar er þeim tveimur ruglað saman
þannig að Hynkel er handtekinn á meðan rakarinn fer í fötin hans og heldur
innblásna ræðu um þörfina á friði og bræðralagi allra manna. „Þið eruð ekki
vélar, þið eruð ekki gripahjörð, þið eruð menn, þið berið ástina á mannkyn-
inu í brjósti,“ þrumar gyðingurinn yfir gráklæddu tomainísku tindátunum.
10545
Að þessu sinni birtist Gunnar Gunnarsson úti á hlaði á Bessastöðum. Hann
afþakkar vindlinginn sem Axel býður honum en sperrir eyrun þegar bóndi
bætir við að ungi maðurinn, sem túlkaði fyrir bandaríska hermanninn á
sunnudaginn, hafi stungið að sér þessum sígarettupakka áður en þeir héldu
áfram ferðinni. Orðin gefa til kynna að Axel sé kunnugt um að mennirnir hafi
líka sótt Skriðuklaustur heim. Þeir komu laust fyrir hádegi, þáðu veitingar,
reikuðu um húsið og kvöddu, útskýrir Gunnar, en þeim Fransisku hafi aldrei
verið ljóst hvert erindið var. Það kemur skáldinu því í opna skjöldu að heyra
Axel fullyrða að gestirnir hafi verið að leita að þýska einræðisherranum.
Gunnari ætlar að reynast erfitt að kveða þann móra niður. Hann roðnar
á enninu þegar bóndi segir að íslenski túlkurinn hafi spurt sig hvort hann
teldi að nokkur þarna í sveitinni væri líklegur til að hylma yfir með Hitler.
Skáldið langar vitanlega að spyrja hverju hann hafi svarað en ákveður að láta
þögnina gera það fyrir sig. „Ég svaraði, að samkvæmt minni skoðun væri
enginn hér í sveit, er slíkt mundi aðhafast,“ segir Axel eftir nokkra stund.
Áður en þeir kveðja lofar hann að skila granna sínum skriflegri skýrslu um
samskipti sín við komumenn.10
11545
Laust eftir hádegi á föstudegi situr prófessor Sigurður Nordal við borðstofu-
borðið heima á Baldursgötu og grennslast fyrir um hvort dagblöðin séu búin
að birta fréttir af fjársöfnuninni til hjálpar þeim Dönum sem harðast hafa
orðið úti í stríðinu. Nordal gegnir formennsku í söfnunarnefndinni og sendi
textann til birtingar á þriðjudaginn. Eftir dágóða stund finnur hann það sem
hann leitar að á síðum Vísis. Þar kemur fram að söfnunarupphæðin nemi nú
650 þúsundum króna en ríflega helmingur er framlag úr ríkissjóði. Hluti
upphæðarinnar hefur verið nýttur til að kaupa birgðir af íslenskri ullarvöru
sem ætlunin er að senda til Kaupmannahafnar með fyrstu skipaferð. Þá hafa
155 þúsund krónur verið afhentar danska sendiherranum í Stokkhólmi og
voru þær eyrnamerktar dönsku flóttafólki í Svíþjóð.11 Þar ytra er reyndar
líka drjúgur hópur Íslendinga sem hefur verið innlyksa á meginlandinu
frá því að stríðið braust út. Prófessornum dettur í hug að þeirra á meðal
geti verið ung og aðlaðandi listakona, Jóhanna Einars. Þannig ummyndast