Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Blaðsíða 40
E g g e r t Þ ó r B e r n h a r ð s s o n
40 TMM 2013 · 3
hugskotssjónum þegar hún skoðaði þær. Vissulega eru þetta persónulegar
myndir fyrir hana og minningarnar tengdar þeim yfirleitt persónulegar,
eða einstaklingsminningar. Hins vegar hefur komið í ljós að þeir sem ég hef
sýnt bókina samsama sig mörgum myndum, tala um að í þeirra fjölskyldu-
albúmum sé svipaðar myndir að finna en persónur og andlit séu bara önnur.
Þannig skapast hugrenningatengsl ókunnugs fólks við eigin fjölskyldu enda
eiga fjölskyldualbúm ýmislegt sameiginlegt; þar er ekki síst að finna myndir
frá stórviðburðum í lífi fjölskyldna, úr afmælum, frá jólum, úr sumarleyfum,
frá ferðalögum og skemmtilegum stundum með vinum.
Þótt ýmissa grasa kenni í gömlu myndaalbúmunum úr minni móðurfjöl-
skyldu virðast þau ekki greina sig sérstaklega frá almennu myndahneigðinni
þegar litið er yfir allt tímabilið. Meginmyndefnið er fólk – þarna eru fyrst og
fremst myndir af fjölskyldumeðlimum og vinum, og börn eru oft í burðar-
hlutverki. Fólk er yfirleitt uppstillt og þegar líður á 20. öld eru jól, afmæli,
skírnir, fermingar, brúðkaup og aðrir slíkir viðburðir í lífi fjölskyldunnar
oftast tilefni myndatöku. Gleðin er yfirleitt við völd, sorgarstundir eru
sjaldgæfar (þó hægt sé að greina veikindi í útliti) og dauðinn sést varla.
Þegar líður á sjötta áratuginn ber æ meira á því að farið sé að taka myndir
á merkisdögum á mannsævinni miðað við þær myndir sem til eru í albúm-
unum fram á miðja öldina. Enda hafði fjölskyldan dreifst meira og stækkað
eftir að Reykjavík varð hennar helsti vettvangur, barnabörn og síðan barna-
barnabörn ömmu minnar og afa komu hægt og bítandi til sögunnar eftir að
dæturnar giftust og stofnuðu eigin fjölskyldur.
Í fjölskyldualbúmunum eru ljósmyndir teknar innanhúss sjaldgæfar fram undir
1960.