Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Page 53
TMM 2013 · 3 53
Steinar Bragi
Tvær reimleikasögur
Úr væntanlegri bók – Reimleikar í Reykjavík
Grásleppuskúrar við Ægisíðu
Það var hitabylgja í Reykjavík. Upp úr hádegi lygndi og gulbrún móða lagðist
yfir borgina. Suður af landinu var hæð sem dró hlýtt loft til norðurs frá
austurströnd Afríku og Kanaríeyjum. Síðdegis náði hitinn fimmtán gráðum,
sem var óvenjulegt í lok mars; börn hlupu skríkjandi um göturnar og garðar
fylltust af fólki með ringlaðan gleðisvip á andlitinu.
Á leið heim úr vinnu sótti Katrín son sinn í Melaskóla og þau fóru saman að
versla. Andri fékk frostpinna til að taka með sér út og í tilefni dagsins keypti
Katrín hráefni í „afríska súpu“ sem samanstóð nær einungis af gulrótum.
Þegar heim var komið undirbjó hún matinn og Andri fékk leyfi til að fara út
að leika við vini sína. Hún sagði að hann yrði að koma í kvöldmat klukkan sjö
og fullvissaði sig um að hann væri með armbandsúrið sitt. Þá kyssti hún hann
á kinnina, bað hann að fara varlega og hann hrópaði „Auðvitað!“ um leið og
hann stökk niður stigann. Þegar Katrín rifjaði þetta upp síðar fannst henni
stundum eins og þetta væru síðustu orðin sem fóru á milli þeirra.
Meðan súpan mallaði settist hún út á svalir þaðan sem sást yfir ein býlis-
húsin við Ægisíðuna og niður á ströndina. Þau höfðu flutt inn í íbúðina
haustið áður, úr blokkaríbúð í austurbænum, og útsýnið og nálægðin við
sjóinn var eitt af því sem hafði heillað Katrínu. Hafið var ládautt og grátt
og mistrið svo þykkt að sást varla í Álftanesið og Bessastaði. Um sexleytið
kom Ellert, maðurinn hennar, heim og sagði að göturnar væru fullar af fólki
og sumu óþarflega léttklæddu fyrir vetrarhvíta húðina. Þau hlógu og Ellert
sagðist hafa séð Andra með vinum sínum nálægt Neskirkju þegar hann
keyrði þar framhjá.
Um áttaleytið byrjaði að dimma og súpan beið tilbúin á borðinu. Ekki
bólaði á Andra og Ellert fór út að leita að honum. Að hálftíma liðnum kveikti
Katrín aftur upp undir súpunni, byrjaði að hafa áhyggjur og hlustaði eftir
heimasímanum og fótataki á tröppunum. – Það hafði gerst áður að Andri
gleymdi sér í leik með vinum sínum og leit ekki á klukkuna en það var
óhugsandi að hann vissi ekki að kvöldmaturinn væri tilbúinn þegar úti var
komið svartamyrkur.