Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Qupperneq 65
S t r í ð n i s p ú k i n n á S k e r i n u
TMM 2013 · 3 65
tilraun Íslendinga til að búa til þjóðargrafreit, síðan fórum við til baka um
Grafninginn með viðkomu í Nesjavallavirkjun (sérlega magnað að stoppa
við heita lækinn þar á svölum haustdegi), þaðan í gegnum Hengilssvæðið
og aftur í bæinn. Smá hvíld og síðan út að borða á Grillmarkaðinn með
útgefandanum, Jóhanni Páli, Guðrúnu, konu hans, Silju Aðalsteinsdóttur
hjá Máli og menningu, og Erlu Björg Gunnarsdóttur, kynningarstjóra
Forlagsins. Ágætiskvöld, gaman að sjá hvað útgefandinn og höfundurinn
náðu vel saman.
5.
Þriðjudagurinn hófst á því að Kolbrún Berþórsdóttur á Morgunblaðinu tók
við hann prýðilegt viðtal á Mokka, síðan bað ég hann að velja milli listasafns
eða Reðasafnsins, hann valdi heldur Reðasafnið vegna þess hversu einstakt
það væri í heiminum. Við fórum þangað og hann skoðaði það í bak og fyrir
og fannst stórmerkilegt, en það kom honum nokkuð á óvart hvað margir
reðrarnir (einkum hvala) voru oddhvassir og einna líkastir vopnum eða
stingjum af einhverju tagi. Hann spurði hvort þarna væru limir af öpum eða
mönnum, var að spá í hvort þeir væru ekki svipaðir. Ekki áttu þeir apareður
en mannsreður var þarna í formalíni, heldur óhrjálegur á að líta. Það kom
honum nokkuð á óvart hversu getnaðarlimir væru almennt forljótir. Athug-
ull maður, Houellebecq, eins og fram kemur í bókum hans.
Seinnipartinn hafði hann lausan til að rölta um miðbæinn og versla
aðeins, en síðan var boð fyrir hann og Michel Rocard, fyrrverandi forsætis-
ráðherra og sendiherra Frakklandsforseta í málefnum heimskautanna, í
bústað franska sendiherrans, Marcs Bouteiller, við Skálholtsstíg. Þar var
samankominn góður hópur Frakklandsvina, auk nokkurra íslenskra stjórn-
málamanna og erlendra diplómata. Bouteiller sendiherra og Rocard héldu
ávörp eins og vera ber, en mér til mikillar furðu bað Houellebecq um orðið
þegar Rocard hafði lokið máli sínu. Hann þakkaði kærlega fyrir sig, sagðist
ánægður með dvölina, en lét síðan í ljós þá skoðun sína að franskir sósíal-
istar hefðu gert mikil mistök þegar þeir tóku Mitterand fram yfir Rocard
sem frambjóðanda flokksins árið 1979 – Rocard hefði orðið mun betri
forseti en Mitterand. Þetta gladdi Rocard mjög, enda voru þeir Mitterand
keppinautar alla tíð. Síðan settust heiðursgestirnir afsíðis og ræddu saman
drykklanga stund. Eftir boðið fylgdum við Houellebecq beint upp á hótel.
Hann er fremur kvöldsvæfur maður, segist yfirleitt vakna klukkan fjögur á
morgnana.
6.
Ég sótti hann morguninn eftir og við röltum aðeins um miðbæinn. Fórum
síðan upp á Mokka þar sem hann þurfti að hitta tvo blaðamenn í viðbót,