Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Page 77
„ … h v e Í s l a n d s a u ð n e r s t ó r“
TMM 2013 · 3 77
Það er ekki vafamál í huga skáldsins og athafnamannsins Einars Benedikts-
sonar, að í Dettifossi býr afl sem mætti nýta til að efla og bæta lífskjör þeirra
sem búa í því harðbýla landi sem Ísland er.
Hve mætti bæta lands og lýðs vors kjör
að leggja á bogastreng þinn kraftsins ör,
að nota máttinn rétt í hrapsins hæðum,
svo hafin yrði í veldi fallsins skör.
– Og frjómögn lofts má draga að blómi og björk,
já, búning hitans smíða úr jökuls klæðum.
Hér mætti leiða líf úr dauðans örk
og ljósið tendra í húmsins eyðimörk
við hjartaslög þíns afls í segulæðum.
En þó að skáldið sjái þannig fyrir sér að hjartaslög fossins verði nýtt til þess
að tendra ljós og yl í dimmum og saggafullum híbýlum landa sinna, þá
kveður í seinni hluta kvæðisins við annan tón.
Hér hafa hagnýtissjónarmiðin þokað fyrir innsæi og innlifun. Skyndilega
stendur skáldið auðmjúkt frammi fyrir dulmagni hins mikilfenglega nátt-
úruundurs í auðninni.
Hvað sem líður draumum um rafljós og önnur lífsþægindi yrkir skáldið
nú um þá djúpu lotningu sem fossinn vekur í huga þess og sálarfylgsnum.
Hér er kominn nýr tónn og vísar til allt annars konar unaðar en þess sem
mældur verður í kílóvattstundum.
Hér er á ferðinni eintal sálarinnar við hið dularfulla og óræða í nátt-
úrunni, óhamið náttúruaflið sem greypir mátt sinn í sál skáldsins, veitir því
innsýn í hulda dóma.
Ég sjálfur þyrstur sit við lifsins brunn.
Þín sjón mér skýrir djúpt míns eðlis grunn.
Þú, straumur auðs við eyðibakkann svarta,
sem á ei strá, ei korn í fuglsins munn,
þú hefur brennt þinn svip í mína sál
og sungið óminn þinn mér fast í hjarta,
þú, brotsjór krafts í bergsins þunga ál
með brjóstið hvelfda, eflt við jökuls skál,
og himinljómans fall um faldinn bjarta.
Í þessum línum vendir skáldið kvæði sínu í kross; vitundin um þau nyt sem
má hafa af afli fossins hefur vikið fyrir skáldlegri hrifningu á dularmætti og
mikilfenglegri fegurð óhaminnar náttúru.
***