Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Page 80
80 TMM 2013 · 3
Sigurður G. Valgeirsson
Vonnegut og ég
Bókmenntahátíð í baksýnisspegli
Augnablikið þegar Kurt Vonnegut kom labbandi niður stigann í flugstöðinni
í Keflavík eldsnemma að morgni 15. september 1987 er eftirminnilegasta
minning mín frá þeim rúmlega aldarfjórðungi sem ég hef verið í stjórn
Bókmenntahátíðar í Reykjavík enda hafði ekki gengið alveg áfallalaust að fá
hann til landsins.
Ég hafði, eins og margir aðrir ungir menn, hrifist í menntaskóla af þessum
íhugula húmorista. Mér fannst magnað hvernig hann gat samtímis verið
mjög framsækinn og alveg rífandi skemmtilegur. Honum tókst jafnvel að fá
mann til að sætta sig við vísindaskáldskap.
Bókmenntahátíð í Reykjavík var að verða til á þessum árum og þó að ljóð-
listarhátíðin 1985 hefði heppnast vel var hátíðin enn sem komið var meira
og minna óskrifað blað enda voru sett spurningamerki bæði við framkvæmd
hennar og það að halda bókmenntahátíð yfirhöfuð. Sjálfsagt hefur hátíðin
líka farið í taugarnar á einhverjum eins og gengur. Stjórnina 1985 skipuðu
Árni Sigurjónsson, Einar Bragi, Knut Ødegård, Thor Vilhjálmsson og Örn-
ólfur Thorsson. Við Einar Kárason og Halldór Guðmundsson komum nýir
inn með hátíðinni 1987 en Einar Bragi hætti.
Þegar maður skoðar ljósmyndir frá þessum tíma blasir það við hvað við
yngri stjórnarmenn vorum barnalegir. Tíska níunda áratugarins virðist hafa
skilað því til okkar að girða buxurnar sem hæst. Til allrar hamingju var
þó enginn nógu mikill töffari til að vera með sítt að aftan. Tíminn haggaði
eldri mönnunum minna. Knud Ødegård var yfirleitt klæddur eins og prins
úr ævintýri með silfurspennur á skónum og litskrúðuga slaufu eða klút
um hálsinn. Thor var þá sem ævinlega síðar, sígildur og smart, iðulega í
röndóttum sjóarabolum, gallabuxum og gallajakka með penna um hálsinn.
Þetta var mjög góður hópur. Stjórnarfundir voru að mestu leyti stjórn-
lausar samkomur og hefur það fylgt hátíðinni. Mögulega er ástæðan sú að
hver meðlimur álítur sig náttúrlegan leiðtoga sem öðrum beri að hlusta á. En
þó að við værum stundum menn margra orða og frásagna gátum við flestir
líka fylgt þeim eftir með athöfnum.
En aftur að Vonnegut og komu hans til landsins. Ég var á þessum árum
útgáfustjóri Almenna bókafélagsins sem hafði gefið út tvær af bókum hans.
Sem útgefandi hans hafði ég sent honum bréf snemma árs og boðið honum