Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Page 83
Vo n n e g u t o g é g
TMM 2013 · 3 83
endurtekið atriði í bílferðum okkar var að ég sagði honum að á Íslandi væru
lög og reglur aðeins leiðbeinandi. Þessu til áréttingar ók ég alltaf í gegn þar
sem umferð bíla var bönnuð með ýmiss konar skiltum. Eftir hrunið 2008 hef
ég óneitanlega stundum íhugað þessa framgöngu mína.
Skipulag hátíðarinnar var með þeim hætti á þessum tíma að lesið var upp
á kvöldin í Gamla bíói sem hýsti óperuna. Á daginn voru síðan umræður
og höfundaspjall í Norræna húsinu. Við stjórnarmenn unnum á öllum víg-
stöðvum, röðuðum upp dagskrá, skrifuðum prógramm og fylgdum í prent,
tókum á móti höfundum og skipulögðum móttökur. Á kvöldin skiptumst
við á að kynna á upplestrum og það var einmitt mitt hlutverk að kvöldi þess
fimmtánda.
Ef eitthvað gengur í stórum dráttum vel verða mistök eða pínlegar uppá-
komur sem betur fer oft að kærum minningum. Bókmenntahátíðin hefur
alveg fengið sinn skammt af slíku. Við eigum minningu um norrænt skáld
sem var svo drukkið að það tók um það bil þrjá daga að koma því um borð í
vél til Íslands og svipaðan tíma að losna við það aftur. Þá var eftirminnlegt
þegar ljóðskáld, sem var hér í okkar boði, fannst að morgni inni í þvottahúsi
á heimili virts íslensks tónskálds og gat ekki sagt neitt annað en: „Thor Vil-
hjálmsson“. Þessar upplýsingar nægðu að sjálfsögðu til að skila því aftur á
Bókmenntahátíð. Kvöldið sem viðkomandi las var hann allsgáður en titrandi
af timburmönnum sem gerði upplifunina magnaða.
Þarna um kvöldið í Gamla bíói kom fljótlega í ljós að það var eitthvert ólag
á hljóðkerfinu. Hljóðið var allt of lágt og engin leið að hækka það. Áhorf endur
þurftu því virkilega að leggja sig fram til að heyra lestur skáldanna. Isabel
Allende las upp þetta kvöld og þurfti að standa á kassa til að ná vel upp fyrir
púltið. Ég man eftir að hafa haft talsverðar áhyggjur af ásakandi augnaráði
hennar þegar hún prófaði kassann með fótunum enda ber kynnirinn ábyrgð
á allri framkvæmd. Eg sá hana í huganum missa annan hælinn niður á milli
fjalanna í botninum – til allrar hamingju gerðist það ekki.
Þetta kvöld sá ég aldrei til sólar svo notaður sé þekktur frasi úr íþrótt-
unum. Ég ruglaðist meðal annars tvisvar þannig að ég fékk öfluga hláturs-
roku frá salnum í andlitið. Í fyrra skiptið var ég að bera öllum kveðju frá
Vigdísi Finnbogadóttur forseta sem var stödd í Japan. Ég gerði það fyrst á
íslensku og svo á dönsku. Í dönsku útgáfunni tókst mér að orða þetta svo að
Vigdís Finnbogadóttir forseti Japans bæði að heilsa. Í seinna skiptið gekk ég
ábúðarmikill að púltinu og uppgötvaði þar að ég hafði gleymt punktunum
sem ég ætlaði að nota til kynningar. Þegar ég varð fyrst orðlaus og sagði svo
salnum aumingjalega hvers vegna mætti mér enn öflugri hlátursroka en
áður. Thor kom til mín þegar kvöldinu var lokið og sagði við mig. „Þegar ég
horfði á þig úti í sal hugsaði ég: „Þetta er nú jassmaður“.“ Þar hefur skáldið
sennilega verið að vísa til ákveðins yfirborðs-æðruleysis og hæfileika til að
spinna af fingrum fram og einnig þess að ég hafði spilað í jasshljómsveit
nokkrum árum áður. Aðalatriðið var þó að hann vildi vera uppörvandi við