Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Qupperneq 101
TMM 2013 · 3 101
Svetlana Alexievitch
Bernskusaga
Þýðing: Árni Bergmann
Svetlana Alexievitch, blaðamaður og rithöfundur frá Hvíta-Rússlandi er fædd árið
1948. Bækur hennar fjalla einkum um upplifun venjulegs fólks af sögulegum atburðum
eins og seinni heimstyrjöldinni, falli Sovétríkjanna, stríði Sovétmanna í Afganistan og
Chernobyl-kjarnorkuslysinu en með efnistökum sínum tekst Alexievich að ljá ólíkum
hópum þjóðfélagsins rödd, svo að lesendur kynnast áður óþekktri hlið þessara atburða.
Það gerir hún meðal annars með því að tala við fólk, hlusta, leyfa röddum þeirra, skoð-
unum, tilfinningum og sýn þeirra á atburðina að njóta sín. Hún hefur talað við þús-
undir manna og hefur skráð sögu heillar þjóðar á 20. öld með þessum efnistökum,
frásagnirnar raðast saman svo að úr verða margradda textar sem segja magnaðar sögur
sem ekki mega gleymast. Meðal þekktustu verk Alexievitch er fyrsta bók hennar, The
Unwomanly Face of the War (1985), sem segir frá upplifun kvenhermanna af stríðs-
rekstri og átökum í fyrri heimsstyrjöldinni og frá þeim hliðum stríðsins sem aldrei
hafði verið greint frá áður.
Fyrir bókina Voices from Chernobyl sem kom út árið 2005 hlaut Alexievitch National
Book Critics Circle Award. Efnissöfnum fór fram á tíu ára tímabili og Alexievitch talaði
við meira en 500 manns sem tengdust Chernobyl-slysinu með einhverjum hætti svo að
úr varð margradda frásögn af hörmulegum atburði sem hefur haft víðtækar afleið-
ingar. Alexievitch hlaut árið 2013 bókmenntaverðlaun þýskra bóksala, ein virtustu
bókmenntaverðlaun Þýskalands. Nýjasta bók hennar, Time Second Hand (2013), kemur
út í mörgum löndum í haust og hefur nú þegar verið gefin út á sænsku af Ersatz-forlag-
inu. Þessi kafli er úr þeirri bók.
María Vojteshonok rithöfundur, 57 ára
Ég fæddist í fjölskyldu pólsks liðsforingja sem sendur hafði verið í útlegð,
við vorum osadnikar, en svo voru kallaðir á pólsku nýbýlingar sem var
fengið land til búsetu í austurlandamærahéruðunum eftir að stríði Pólverja
við Sovétmenn lauk árið 1921. En árið 1939 (samkvæmt leynilegu ákvæði í
samningi Molotovs og Ribbentrops) var þessi vesturhluti Hvíta-Rússlands
sameinaður Sovétríkjunum og pólskir nýbýlingar þar voru þúsundum
saman sendir ásamt fjölskyldum sínum í útlegð til Síbiríu sem „pólitískt
hættulegur hópur“ (eins og segir í orðsendingu Beria til Stalíns). En þetta er
stórsagan, ég á mér aðra sögu … smáa í sniðum.
Ég veit ekki hvaða dag ég er fædd, ekki einu sinni hvaða ár … Ég verð að
reiða mig á ágiskanir. Ég hefi ekki fundið neina pappíra um þetta. Ég er til