Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Qupperneq 123
E r n ý t t „ k a l t s t r í ð“ í u p p s i g l i n g u ?
TMM 2013 · 3 123
Rússland leggja áherslu á að vera þátttakandi til jafns við önnur mikilvæg
ríki og ríkjabandalög, ríki sem hafi sitt áhrifasvæði sem þurfi að verja eða
tryggja. Rússland mun áfram reyna að koma í veg fyrir stækkun Evrópu-
sambandsins og NATO inn að landamærum sínum en mun um leið efna
til og viðhalda samstarfi við þessi bandalög um mál sem eru mikilvæg
öryggi Rússlands. Dæmi um það er baráttan gegn hryðjuverkum. Utan-
ríkisstefna Rússlands á nefnilega rætur í rússnesku þjóðarsálinni og um
hana er almennt breið samstaða í rússneskum stjórnmálum. Þannig mun
sambúðin við Vesturlönd verða kuldaleg á köflum, á sviðum þar sem Rúss-
land telur hagsmunum sínum ógnað, en einkennast af náinni samvinnu
og samstarfi á öðrum sviðum.27 Ýmsir fræðimenn benda líka á, að endur-
koma Pútíns geti haft áhrif, einkum og sér í lagi á samskipti Rússlands og
Bandaríkjanna. Þeir benda á að ef eitthvað hafi einkennt utanríkisstefnuna í
forsetatíð Médvédévs, þá hafi það verið jákvætt viðhorf til Bandaríkjanna og
áherslan á að bæta samskiptin hafi verið liður í nútímavæðingu Rússlands
sem Médvédév lagði mikla áherslu á.28 En eins og áður hefur verið bent á þá
gekk nú á ýmsu í samskiptum Moskvu og Washington á tímum Médvédévs.
Þróun efnahagsmála hefur einnig mikil áhrif á utanríkisstefnuna. Það er
viss ótti við að efnahagslega veikt Rússland og minnkandi langlundargeð
Rússa gagnvart því sem stundum er kallað „stýrt lýðræði“ geti leitt til þess
að Pútín gerist einhvers konar „popúlisti“ og reki herskáa utanríkisstefnu,
og hverfi þannig frá „endurstillingu“ (e. reset, r. perezagruzka) sambúðar-
innar milli Bandaríkjanna og Rússlands sem bæði Médvédév og Obama
forseti hafa staðið fyrir. Það gæti leitt til átaka vegna Georgíu, Hvítarúss-
lands og Úkraínu, einkum meðan Evrópa er tiltölulega veik og á hálfgerðum
brauðfótum. Ýmsir stjórnmálaskýrendur og -greinendur hafa varað við því
að hernaðarátök gætu brotist út á svæðum þar sem átök hafa verið í frosti,
eins og í Nagorno-Karabakh og jafnvel í Georgíu þar sem ástandið er fjarri
því að vera stöðugt, í þeim héruðum sem hafa barist fyrir sjálfstæði, a.m.k.
að hluta, Ossetíu og Abkhazíu. Á hinn bóginn er líka mikilvægt að hafa
í huga að samstarf Rússlands við Vesturlönd um málefni Afganistan er
þýðingarmikið enda þótt Rússar séu á vissan hátt gagnrýnir á herleiðangur
NATO. Bætt sambúð og samstarf innan Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna
myndi auka líkurnar á samstöðu um málefni Sýrlands og Írans. Nákvæm-
lega hvaða línu Pútín mun taka hefur áhrif á þessi mál, og enn er of snemmt
að fullyrða hver sú lína verður.
Arabíska vorið og „frostaveturnir“ í Sýrlandi
Víkjum nú að Miðausturlöndum. Þróun mála í kjölfar „arabíska vorsins“
og síðan átakanna í Sýrlandi, sem jafna má við frostavetur ef líkingamál
úr veðurfræðinni er notað áfram, setja sterkan svip á samskipti austurs
og vesturs um þessar mundir. Afstaða Bandaríkjanna og vesturveldanna