Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Síða 125
E r n ý t t „ k a l t s t r í ð“ í u p p s i g l i n g u ?
TMM 2013 · 3 125
Geopólitískt er Sýrland í raun eina landið í þessum heimshluta sem er
Rússum mikilvægt. Eftir hrun Sovétríkjanna hafa umsvif Moskvustjórnar-
innar í Miðausturlöndum og Norður Afríku minnkað umtalsvert og raunar
gætti viss kulda í samskiptunum á fyrstu árum tíunda áratugarins, undir
stjórn Jeltsíns. Rússar hafa áhyggjur af þróun mála fari Assad frá völdum,
þeir horfa upp á þróunina í öðrum ríkjum svæðisins, þar sem íslamistar
hafa aukið áhrif sín og völd, í Túnis, Egyptalandi og Líbíu og það er þeim
áhyggjuefni ef sama þróun yrði í Sýrlandi. Því gæti fylgt óstöðugleiki, einnig
á hálfbrothættum svæðum eins og í múslímahéruðum Norður-Kákasus og í
Mið-Asíu. Þá ber að hafa í huga að ef Sýrland fellur sem stuðningsríki Rúss-
lands, er Íran eitt orðið eftir af þeim í þessum heimshluta. Það er hvorki gott
fyrir Rússa né alþjóðasamfélagið. Hin ósveigjanlega afstaða Rússa í málum
Sýrlands hefur augljóslega þá hættu í för með sér að landið einangrist og
sambúðin við Vesturlönd og Arababandalagið versni til muna.31
Margir hafa ugglaust velt því fyrir sér hvers vegna blóðbaðið í Sýrlandi
hefur getað staðið svo lengi sem raun ber vitni án þess að alþjóðasamfélagið
gripi í taumana, líkt og t.a.m. í Líbíu. Ásakanir ganga á víxl milli stórveldanna
og á Vesturlöndum eru Rússar sérstaklega gagnrýndir fyrir að styðja við
bakið á Bashar-al-Assad Sýrlandsforseta og að standa í vegi fyrir alþjóðlegum
aðgerðum til að binda endi á borgarastyrjöldina. Nú verður Assad ekki talinn
til helstu bandamanna Pútíns og Rússlandsforseti hefur minnt á að Assad
hafi í gegnum tíðina verið tíðari gestur í París og London en Moskvu, en
það er raunar ekki nýtt að ráðamenn í Arabalöndum hafi notið velvildar og
stuðnings vesturveldanna um langt skeið áður en þeir síðan hrökkluðust frá
völdum, sbr. Saddam í Írak, Mubarak í Egyptalandi og Gaddafi í Líbíu.
Verður Snowden að snjóskriðu?
Í nýlegri grein skrifar Dmítrí Trenín, forstöðumaður óháðu Carnegie-rann-
sóknarstofnunarinnar í Moskvu, að Rússar telji að stefna Bandaríkjanna
í málefnum Sýrlands sé byggð á misskilningi og sé siðlaus og hættuleg.
Stefnubreyting þeirra gagnvart Egyptalandi og Líbíu hafi fyrst og fremst
byggst á hernaðar- og valdahagsmunum í þessum heimshluta og að það vaki
ekki síst fyrir Bandaríkjunum að svipta Íran helsta bandamanni sínum fyrir
botni Miðjarðarhafs, þ.e. Sýrlandi. Þá bendir hann einnig á að Bandaríkin
styðji nú sömu pólitísku öfl í Sýrlandi og þeir berjist hatrammlega gegn í
Malí. Í því augnamiði að koma áformum sínum í gegn gagnvart Sýrlandi
hafi Bandaríkin gert bandalag við helstu einræðis- og harðstjórnarríki
veraldar, Sádi-Arabíu og Katar. Rússland geti ekki tekið þátt í samstarfi við
Bandaríkin um málefni Sýrlands á þessum forsendum.32 Þegar þessum við-
horfum Rússa er stillt upp andspænis sjónarmiðum Bandaríkjanna, og án
þess að taka neina afstöðu til ólíkra viðhorfa, er auðvelt að sjá hvers vegna
ekki hefur náðst árangur í að stöðva átökin og mannfallið í Sýrlandi.