Morgunblaðið - 02.11.2019, Blaðsíða 49
MENNING 49
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. NÓVEMBER 2019
Vínlandsleið 16
Grafarholti
urdarapotek.is
Sími 577 1770
Opið virka daga kl. 09.00-18.30
og laugardaga kl. 12.00-16.00
Hugsaðu vel um
húðina þína – alltaf
Bjóðum fjölbreytt úrval húðvara, jafnt fyrir
andlitið, hendurnar, fæturna og kroppinn allan.
Söngsveitin Fílharmónía slær upp-
taktinn að 60 ára afmælisári sínu
með hausttónleikum og samsöng í
Seltjarnarneskirkju í dag kl. 15.
Flutt verða ýmis verk sem hafa verið
í uppáhaldi hjá kórnum lengi, í bland
við nýrri verk. Að tónleikunum lokn-
um verður boðið upp á kaffiveiting-
ar og samsöng í safnaðarheimili
kirkjunnar. Miðaverð er 1.500 krón-
ur en frítt inn fyrir börn að 18 ára
aldri. Miðasala er á Facebook, við
innganginn eða gegnum netfangið:
songsveitin@filharmonia.is.
„Haustið 1959 kom hópur fólks
saman í Reykjavík undir stjórn dr.
Róberts Abrahams Ottóssonar og
hóf æfingar á Carmina Burana eftir
Carl Orff. Þá um vorið hafði félagið
Fílharmónía verið stofnað í þeim til-
gangi að setja saman nógu stóran og
öflugan blandaðan kór til þess að
flytja stórverk tónbókmenntanna
með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Vorið 1960 kom kórinn fram í fyrsta
sinn, frumflutti Carmina Burana í
Þjóðleikhúsinu og söng verkið þrisv-
ar sinnum fyrir fullu húsi. Síðan þá
hefur kórstarfið verið öflugt, fram-
an af undir stjórn dr. Róberts en síð-
ar tóku aðrir söngstjórar við keflinu
og undanfarin þrettán ár hefur
Magnús Ragnarsson stjórnað Söng-
sveitinni Fílharmóníu við góðan
orðstír. Söngsveitin Fílharmónía tel-
ur nú tæplega sjötíu söngvara á öll-
um aldri og hefur tekist á hendur
ótal fjölbreytt verkefni á sextíu ára
starfsferli sínum,“ segir í tilkynn-
ingu. Þar kemur fram að mikið
standi til á afmælisárinu. Kórinn
syngi í Evítu í Hörpu, haldi jólatón-
leika með Kristni Sigmundssyni,
syngi 9. sinfóníu Beethovens með
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og
Messa da Requiem eftir Verdi með
stórri hljómsveit og fjórum valin-
kunnum einsöngvurum.
Á faraldsfæti Kórinn ásamt stjórnanda í söngferð í Flórens á Ítalíu sumarið 2018.
Söngsveitin Fílharmónía fagnar
Ný verk eftir Guðmund Stein Gunn-
arsson og Lars Graugaard verða
flutt á 15:15 tónleikum í Breiðholts-
kirkju í dag kl. 15:15. Verkin eru
samin fyrir Caput hópinn sem sér
um hljóðfæraleik. Á tónleikunum
verður leikin Kammersinfónían
Stífluhringurinn: „þar sem Elliða-
áin rennur …“. Fyrri hluti verksins
er tileinkaður séra Toshiki Toma
og seinni hlutinn Ástvaldi Zenki
Traustasyni. Um verkið segir tón-
skáldið: „Kveikjan að þessu verki
var minningin um að bíða eftir
strætó í skafrenningi á þessum
svæðum sem krakki.“
Milli þátta verður leikið verk sem
Graugaard skrifaði fyrir tvær
hörpur og fimm klarínett og til-
einkað er Guðna Franzsyni.
Tónskáld Guðmundur Steinn Gunnarsson.
Stífluhringurinn í Breiðholtskirkju
Kvikmyndaritið The Hollywood
Reporter hefur birt spá sína um
hvaða erlendu kvikmyndir muni
komast á lista yfir þær sem til-
nefndar verða til Óskarsverðlauna
sem besta erlenda kvikmyndin og
er Hvítur, hvítur dagur, kvikmynd
Hlyns Pálmasonar, meðal fimm
sem þykja líklegastar.
Kvikmyndir frá 93 löndum
koma til greina og þann 16. des-
ember verður tilkynnt hvaða 10
komast á langan lista yfir til-
nefndar en 13. janúar verður svo
endanlegur listi yfir tilnefndar
myndir birtur, fimm mynda listi.
Óskarsverðlaunin verða afhent 9.
febrúar.
Farsæll Hlynur Pálmason leikstjóri.
Kvikmynd Hlyns spáð velgengni
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Þetta er ekki sagnfræðileg mynd á
nokkurn hátt um Ásgrím, heldur
sjálfstætt listaverk. Þetta er vídeó-
verk þar sem við fjöllum bæði um
Ásgrím og um það að vera lista-
maður, að vera í heimi sem er oft erf-
iður en líka skemmtilegur. Í verkinu
kristallast það sem við höfum verið
að leggja áherslu á, sköpunarkraft-
urinn, innsæið og náttúran. Í þessu
verkefni erum við í samvinnu við
framliðinn listamann, Ásgrím,“
segja þær Eirún Sigurðardóttir og
Jóní Jónsdóttir sem skipa Gjörn-
ingaklúbbinn, en þær frumsýna í
dag á Listasafni Íslands nýtt vídeó-
verk, „Vatn og blóð“. Innblástur að
verkinu sækja þær í líf og list Ás-
gríms Jónssonar listmálara, sem
fæddur var 1876 og er einn af frum-
kvöðlum íslenskrar málaralistar.
„Hann helgaði sig algerlega list-
inni og okkur fannst hann svolítið
dularfullur þegar við byrjuðum að
skoða hann, en á sama tíma tengd-
umst við honum strax sterkum bönd-
um, því við höfum báðar upplifað að
þykja vænt um vatnslitamyndirnar
hans. Hann vatnslitaði líka í sveit-
unum okkar, í Skíðadal og á Horna-
firði. Hann notar vatnið á hefðbund-
inn hátt í vatnsliti, en við notum
vatnið á annan hátt í okkar samtíma-
myndlist. Við notum vatnið á póli-
tískari hátt og með umhverfis-
sjónarmið og femínisma að
leiðarljósi.“
Ungur drengur kom að handan
Eirún og Jóní fengu konu sem er
miðill með sér við undirbúning
verksins.
„Við fengum að tala við Ásgrím í
gegnum hana og það var gaman að
kvöldið áður en miðillinn vissi að hún
væri að fara að spjalla við okkur var
kominn ungur drengur til hennar að
handan. Það var því greinilega
spenningur fyrir samstarfinu og
undirbúningur hafinn,“ segja þær og
taka fram að konan sé alvöru miðill.
„Við erum ekki með kaldhæðni
þarna, þetta er hluti af rannsóknar-
aðferðum okkar. Við erum líka bún-
ar að lesa ævisögu Ásgríms sem
Tómas Guðmundsson skráði og
stundum leggjum við að jöfnu það
sem við fengum úr þeirri bók og það
sem við fengum fram á miðilsfund-
inum. Á fundi þessum vorum við
staddar í húsi Ásgríms í Bergstaða-
strætinu sem var vinnustofa hans og
heimili og er í eigu Listasafns
Íslands. Miðillinn miðlaði í gegnum
samskiptaforritið Facetime en við
vinnum í alla miðla og nú þegar við
höfum fengið miðil til að vinna með,
þá köllum við þessa aðferð miðill-
miðill.“
Þær segja að Ásgrímur hafi í
þessu samtali verið einbeittur í því
að vilja tala einvörðungu um mynd-
listina. „Hann hafði engan áhuga á
að tala um sín gömlu reiðtygi og
frakka sem við beindum athygli að
þarna í húsinu hans. Hann sagði að
kjarni sannrar listsköpunar væri
kvenlægur og kannski tengist það
því að hann skapaði mikið úti í
náttúrunni í návist móður jarðar,
sem gefur frá sér kvenlæga orku.
Sköpunarkrafturinn kemur úr leg-
inu og fæðingunni, kjarninn okkar
kemur þaðan,“ segja þær Eirún og
Jóní og bæta við að eitt af því sem
þær hafi verið að vinna með sé lit-
irnir appelsínugulur og fjólublár, lit-
ir skapandi orku og innsæis.
„Miðillinn skynjaði þessa liti
sterkt inni á heimili Ásgríms og
sagði að þar væri mjög sérvitur
orka. Við nýtum okkur það í verk-
inu.“
Að tigna sköpunarkraftinn
Þær Eirún og Jóní segjast hafa
komist að ýmsu skemmtilegu um Ás-
grím, til dæmis því að hann hafði
smekk fyrir vel sniðnum fötum.
„Hann kom úr sárri fátækt og í
ævisögu hans kemur fram að þegar
hann fór til náms í útlöndum hafi
hann verið með tvenn jakkaföt með
sér sem voru vansniðin, önnur voru
allt of þröng en hin allt of víð. Hann
hafði dálæti á góðum efnum og var
svolítið upptekin af útlitinu, hann
sagði við okkur á miðilsfundinum að
hann hefði verið myndarlegur, þótt
hann segði sjálfur frá,“ segja þær og
bæta við að í spjalli sínu við Ásgrím
hafi komið fram að hann hafði sterk-
ar skoðanir.
„Hann talaði um að peningaöflin
mættu alls ekki stjórna listinni, það
væri mikilvægt að tigna sköpunar-
kraftinn sem slíkan. Miðillinn sagði
að Ásgrímur væri vakandi yfir ís-
lenskri listasenu í nútímanum, hon-
um væri umhugað um að sköpunar-
krafturinn réði ferðinni hjá lista-
mönnum samtímans; þó svo að
einnig væri mjög mikilvægt að fá
greitt fyrir listina mætti ekki láta
það stjórna flæðinu. Við spurðum
hann hvort það væri eitthvað sem
hann vildi að við legðum áherslu á í
verki okkar um hann, þá sagði hann
að við ættum að vera trúar okkur
sjálfum og gera þetta algerlega á
okkar hátt. Ásgrímur var næmur
maður, hann segir frá því að þegar
hann var að mála úti í náttúrunni
hafi stundum verið eins og gripið
væri í hönd hans og pensil og málað í
gegnum hann. Hann var leiddur
áfram. Það mætti því segja í hálf-
kæringi að Ásgrímur sé að skapa í
gegnum okkur í vídeóverkinu okkar,
hann grípi í vídeópensla okkar.“
Opnunin í Listasafni Íslands verður í
dag laugardag kl. 16.
Í samvinnu við
framliðinn listamann
Segja Ásgrím hafa gripið í vídeópensla þeirra
Vatn og blóð Jóní og Eirún í vídeóverki Gjörningaklúbbsins um Ásgrím.
„Þetta er fimmta og umfangsmesta
leiksýning okkar til þessa og jafn-
framt sú síðasta. Það þýðir samt
ekki að Skoppa og Skrítla séu að
setjast í helgan stein,“ segir Hrefna
Hallgrímsdóttir, sem ásamt Lindu
Ásgeirsdóttur hefur glatt börn í
hlutverkum Skrítlu og Skoppu.
Sunnudagana 3. og 9. nóvember sem
og laugardaginn 28. desember sýna
þær í Eldborg Hörpu kl. 11, 13 og 15
afmælissýningu sem nefnist Skoppa
og Skrítla – brot af því besta í leik-
stjórn Þórhalls Sigurðssonar þar
sem stiklað er á stóru milli verkefna
vinkvennanna síðustu 15 árin.
Með í för eru auðvitað Lúsí sem
Vigdís Gunnarsdóttir leikur auk
þess sem Viktor Már Bjarnason
bregður sér í öll karlhlutverkin. „Á
sínum tíma byrjuðum við á minnsta
sviði landsins, þ.e. leikhúsloftinu í
Þjóðleikhúsinu, en endum nú á því
stærsta. Eftir því sem sviðið stækk-
ar höfum við meira pláss fyrir alla
þessa frábæru og hæfileikaríku
krakka sem við eigum á Íslandi,“
segir Hrefna og vísar þar til þess að
samtals 28 börn á aldrinum þriggja
til 13 ára taka þátt í sýningunni, sem
er uppfull af tónlist og dansi.
Spurð hvort hún kunni skýringu á
áralöngum vinsældum Skoppu og
Skrítlu segir Hrefna galdurinn
sennilega liggja í því að vinkonurnar
fylgi samtímanum. „Það er svo mik-
ilvægt að börnin okkar geti alltaf
speglað sig í sínum veruleika og um-
hverfi. Skoppa og Skrítla tala af ein-
lægni og heiðarleika við börnin og
birta þeim jákvæða sýn,“ segir
Hrefna og bendir á að markhópur
þeirra sé börn allt frá eins árs aldri.
„Okkur finnst svo mikilvægt sem
uppalendur að fylla börnin á þessum
unga aldri, þegar þau eru að mótast,
af öllu því jákvæða og góða í lífinu,
þannig að þau hafi á góðum grunni
að byggja þegar lífið með öllum sín-
um áskorunum og fjölbreytileika
skellur á,“ segir Hrefna að lokum.
Brot af því besta í Eldborg
Ástsælar Skrítla (Hrefna) og
Skoppa (Linda) í Eldborg Hörpu.