Morgunblaðið - 06.12.2019, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 06.12.2019, Blaðsíða 25
MINNINGAR 25 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 6. DESEMBER 2019 sér betri móður, þú skiptir aldrei skapi, varst hjartahlý og elskandi móðir. Þú kenndir mér svo margt um kærleikann í lífinu, kjarngóða íslensku, gamla söngtexta eins og t.d. „Ég vil fá mér kærustu“ og „Það var kátt hérna um laugar- dagskvöldið á Gili“ og fleiri. Og allar fallegu bænirnar, góðar lífs- reglur, saumaskap og handavinnu en þar varst þú snillingur og mikil listakona í hverju sem var, sauma, leira og mála og sagðir þú stund- um að þú værir að bæta upp að hafa ekki farið í leikskóla, svo varstu líka með græna putta, allt lifnaði við sem þú hlúðir að. Það var mín gæfa þegar þið pabbi fluttust í sveitina fögru sem þú gjarnan kallaðir gullhreppinn, en þá kynntist ég Hilmari mínum. Það verður erfitt að geta ekki hringt í þig og beðið um ráðlegg- ingar eða fá þig ekki í heimsókn en það var oft glatt á hjalla þegar þið pabbi komuð í sveitina til okk- ar. Þá var margt brallað, t.d. tekið slátur, lagðar hellur í garðinn og reynt að kenna mér nöfnin á blómunum. Ég bið góðan guð að geyma þig. Mér finnst þetta ljóð eiga vel við þig, elsku mamma mín. Hið göfugasta’ í lífi okkar er, ást, er móðir ber til sinna barna. Hún fórnar, gefur helft af sjálfri sér og sækir styrk til lífsins dýpsta kjarna. Hún veitir ljós, sem ljómi bjartra stjarna. Hún veitir ljós og leysir hverja þraut, hún lífið unga styður fyrstu sporin, er fræðari á framvindunnar braut og fyrirmynd sem yljar best á vorin hinn unga stofn sem er til þroska borinn. Er stofninn ungi erfir hennar sið, ást og virðing geymir sér í hjarta, við munum eiga gnótt af yndi’ og frið að efla’ og styðja gleði lífsins bjarta. Þá hefði enginn yfir neinu’ að kvarta. Ef móðurástin mótaði’ okkar spor og mildi hennar gjörðum okkar réði, þá yrði lífið eins og fagurt vor, sem okkur færði hamingju og gleði. Þá lifðum við sem blóm í fögru beði. Þá kærleikur og tryggðin tækju völd og trú á lífið veitti sanna gleði. Þá ríkti fegurð lífsins fram á kvöld, því fagurt mannlíf stýrði voru geði, að forsjá hans, er fyrst oss hingað réði. Já, – móðurást – er yndi sérhvers manns og allra besta stoð á vegi hálum, hinn dýrmætasti kjarni kærleikans, sem kallar fram hið besta’ í vorum sálum. Hún ætti að ráða’ í öllum okkar málum. (Ágúst Böðvarsson) Þín dóttir, Fanney. Elskuleg tengdamóðir mín, Hólmfríður Jóna, eða Fríða eins og hún vildi ávallt láta kalla sig, er horfin á braut. Ég hitti Fríðu fyrst daginn eft- ir fertugsafmæli hennar árið 1971 er næstelsti sonur hennar Sigur- jón kynnti mig fyrir foreldrum sínum. Fríða var einstök kona og ásamt Þórmundi sínum ólu þau upp átta börn. Mér fannst þó allt- af uppeldið hvíla meira á Fríðu minni þar sem tengdapabbi vann langan vinnudag og yngstu börnin komin í ró er hann kom heim. Fríða vann ýmis störf um ævina, fyrst á meðan börnin voru ung tók hún að sér heimasaum og saumaði jakkaföt, dömukápur o.fl. og jók þannig tekjur heimilisins. Það er erfitt að minnast Fríðu án þess að nefna tengdapabba því líf þeirra var svo samofið. Árið 1976 festu þau hjón kaup á jörðinni Sóleyj- arbakka í Hrunamannahreppi og bjuggu þau þar í 8 ár. Ég held að sú vinna er fylgir því að vera bóndakona með öllum störfum bæði úti við og inni eins og Fríða gekk jafnt til hafi átt best við hana. Hún talaði oft um lífið á Sól- eyjarbakka þar sem barnabörnin voru ávallt velkomin og skottuð- ust þá í kringum ömmu og afa eins og skuggar þeirra. Er þau hjón fluttu aftur í borgina varð Fríða yfirmaður á saumastofu tengdri Kleppsspítala allt þar til þau hjón stofnuðu hreinsunina Hreint og klárt sem þau ráku um árabil. Fríða var mjög listræn sama hvort það var við saumavélina, með olíu- eða vatnslitapensil í hönd eða tréútskurð sem hún lærði á fullorðinsárum. Þegar tengdaforeldrar mínir fluttu í Gullsmárann var Fríða með leið- sögn í postulínsmálun fyrir aldr- aða. Fríðu var sýndur sá heiður að vera veitt viðurkenning vegna þeirra starfa og fyrir störf sín að félagsmálum aldraðra af bæjaryf- irvöldum í Kópavogi í desember árið 2002 og lét hún sig þau mál varða allt til dánardags. Við Sigurjón fórum oft í ferðir með foreldrum hans. Við fórum t.d. í örlagaríka sunnudagsbíltúr- inn með þeim þegar ekið var aust- ur að Sóleyjarbakka að líta á og meta hvort hægt væri að gera húsakost á jörðinni nothæfan á ný fyrir menn og búfénað áður en að kaupum yrði gengið. Sigurjón hjálpaði síðan for- eldrum sínum að koma húsunum í stand og við aðra uppbyggingu á jörðinni sem síðar komu einnig fleiri að. Seinna var farið til að líta á sumarbústaði eða lóðir sem þau höfðu hug á að eignast eftir að þau fluttu aftur í borgina þar sem þau söknuðu sveitasælunnar. Ég sagði oft að ég ætti bestu tengdamömmu í heimi. Við áttum mörg sameiginleg áhugamál eins og postulíns- og olíumálun og m.a. lærðum við saman að mála á postulín og tókum þátt í 2 sam- sýningum. Þar kynntumst við hópi kvenna og stofnuðu 10 af okkur klúbbinn Villiendurnar og ferðuðumst við oft bæði innan- og utanlands. Vorum við Fríða þá alltaf sam- an í herbergi og var mikið spjallað áður en Óli lokbrá lagði hönd yfir okkar brá. Ég trúi því að vel hafi verið tekið á móti Fríðu af eiginmanni og sonunum Sigurjóni og Jóni Gunnari í Ljósinu eilífa og að tengdapabbi dansi nú með Fríðu sína sér við barm þar sem þau öll undirbúa grundvöllinn áður en að okkur hinum kemur. Ég kveð þig nú, elsku tengda- mamma, með hjartans þökk fyrir allt. Ragnheiður L. Georgsdóttir. Elsku amma, amma á Sóleyj- arbakka, amma í Laufbrekku eða amma í Gullsmára, nú hefur þú fengið þína langþráðu hvíld, þó okkar missir sé mikill og sár þá huggar það mig að þetta er það sem þú varst svo tilbúin í. Þú hef- ur sagt það svo lengi að þú ættir þinn stað þarna uppi og værir tilbúin til að fara. Pabbi og Nonni eru búnir að taka á móti þér og afi búinn að bjóða þér upp í dans. Það var svo ótrúlega gaman að sjá ykkur afa dansa. Ég alla vega sé ykkur fyrir mér þannig núna, dansandi í sumarlandinu. Þú kenndir mér ýmislegt en eitt sem er svo ótrúlega fallegt og sterkt og ég hef farið eftir. Við fjölskyld- an mín höfum oft búið ansi þröngt en alltaf hefur mér fundist nóg pláss fyrir alla og jafnvel aukafólk líka, þú nefnilega sagðir eitt sinn við mig fyrir mörgum mörgum árum, ætli það hafi ekki verið þegar stóru strákarnir mínir voru bara litlir guttar, í samhengi við þröngt húsnæði: „Dadda mín, á meðan það er pláss í hjartanu þá er nóg pláss“ og þessu hef ég farið eftir og því er alltaf nóg pláss hjá mér. Af mörgum minningum er að taka, hvort sem er úr sveitinni eða Kópavogi, ein minning frá Sóleyjarbakka er mjög sterk en hún er að oft fékk maður að taka út í garð með sér sykurkarið og sækja rabarbara og dýfa í syk- urinn og borða, best var það þeg- ar maður sat í blómaskeifunni þinni og það þótti manni voða spari. Elsku amma mín, ég kveð þig í bili og þakka þér fyrir allt, við hittumst seinna í sumarland- inu fagra, ég veit að þú munt gæta okkar allra og það verður fullt starf þar sem við erum svo mörg. Logar slokkna einn og einn, einn logann áttir þú. Þó loginn þinn sé lengur ei neinn, í hjarta mér hann logar nú. (Dagbjört Hlín) Hvíldu í friði, elsku amma mín. Þín sonardóttir, Dagbjört Hlín. Amma mín. Farin er amma mín glæsileg á bjartari og betri stað. Hún klárað hefur sinn æviveg, hér hefur hún lengi blómstrað. Oft er erfitt að setja í orð þær hugsanir og minningar á erfiðum tíma legg ég á borð þessir tímar saman voru vinningar. Amma mín elegant ávallt var, og engan sakaði um illsku. Í hjarta sér bjartan kærleik bar og deildi orðum með visku. Sterka, brosmilda, flotta kona, þú varst og ert fyrirmynd mín. Ég vil í ellinni vera svona, Ég mun mitt allra besta gera að deila því sem þú kenndir mér. Ég mun þig í hjarta ávallt bera. Ég kveð nú og þakka þér. Rósa Sjöfn Arndal Gunnarsdóttir „Sæll eskan“ (lesist elskan) voru alltaf hin hlýju ávarpsorð Fríðu frænku. Þær systur mamma og hún voru nánar og það styrkti gott samband þeirra að pabbi og Bjössi hennar Fríðu voru líka góðir vinir. Það er margs að minnast þegar hugurinn leitar til Fríðu frænku. Það sem stendur upp úr er styrkur hennar, æðru- leysi og glaðværð. Listagyðjan var henni sérstaklega gjöful og var Fríða sannur fjöllistamaður, því allt lék í hennar höndum þegar kom að handverki og listsköpun. Fríða og Bjössi áttu gott líf saman en Fríða mín fékk líka sín- ar brekkur þegar hún þurfti að kveðja Bjössa sinn of fljótt. Erf- iðast var samt það hlutskipti hennar að jarða tvo syni sína sem kvöddu í blóma lífsins, sem á ekki að leggja á neina foreldra. Fríða hafði yfir mörgu að gleðj- ast í lífinu og afkomendahópur hennar er orðinn gríðarstór. Þar lá hennar gæfa og gleði. Með þessum fátæklegu orðum vil ég kveðja mína kæru góðu frænku. Það er stór hópur sem tekur á móti henni á himnum og þar eru án efa miklir fagnaðarfundir. Við sem enn erum með jarðsamband syrgjum hins vegar góða konu en fögnum ríku lífshlaupi hennar. Guð blessi minningu Fríðu frænku. Jóhann R. Benediktsson. Mig langar í fáum orðum að fá að þakka minni ástkæru tengda- móður fyrir samfylgdina og allt sem hún hefur fyrir mig gert. Fríða mín eins og hún var alltaf kölluð var einstaklega hjartahlý og yndisleg mannvera sem skipti aldrei skapi í öll þessi 27 ár sem ég hef þekkt hana. Hún var ótrúlega handlagin og það var ekkert sem hún gat ekki gert, eða lagað, alveg sama hvaða handverk eða handavinna það var. Hún prjónaði, saumaði, heklaði, hnýtti, skar út í tré, leiraði, blýj- aði, málaði á postulín, saumaði út og bjó til mynstrið um leið í alla þá dúka sem hún gerði fyrir mig. Hún var með með alla sína 86 af- komendur á kláru, hvað allir voru að gera og voru staddir í það og það skiptið, oft átti ég ekki orð hvernig hún gat fylgst með þeim öllum. Var hún einstaklega vel gefin kona með fallegan hugsun- arhátt og var hún ein af mínum fyrirmyndum. Í næði þiggur nóttin snjó í návist kyrrðarinnar. Og ljóðið finnur frið og ró í faðmi sálar þinnar. (Kristján Hreinsson) Helga Ragnarsdóttir. ✝ Margrét Kára-dóttir fæddist á Bjargi á Seltjarn- arnesi 7. desember 1947. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 26. nóvember 2019. Foreldrar henn- ar voru Kári Sig- urbjörnsson, f. 20.6. 1908 í Eyja- firði, d. 15.11. 1991, og Sigurbjörg Laufey Ein- arsdóttir, f. 17.7. 1911 á Kjal- arnesi, d. 15.9. 1992. Alsystkini Margrétar voru: Huldrún, f. 15.6. 1934, d. 11.4. 1935, Þorsteinn, f. 26.5. 1944, og Sig- urbjörn, f. 10.6. 1952. Hálfbræður hennar samfeðra Pálmi, f. 2.9. 1929, d. 19.7. 2003, og Lúkas, f. 29.8. 1931. Fóstursystir Mar- grétar var Anna Kristín Hafsteins- dóttir, f. 7.5. 1939, d. 12.12. 1996. Útför Margrétar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 6. desem- ber 2019, klukkan 13. Stóra systir mín hún Magga er á leið til himna. Mig langar til að lýsa henni og hennar persónu. Það er ekki erfitt að finna orð til að lýsa Möggu. Orð eins og gjafmild, gestrisni, gáfuð, stríðin og glæsileg eru bara sýnishorn. Góðhjörtuð. Magga gat aldrei láta það fara fram hjá sér ef ein- hver var í vandræðum og þurfti á hjálp að halda. Hún var alltaf reiðubúin að hjálpa til og hætti ekki fyrr en allt var orðið gott aft- ur. Magga talaði aldrei illa um fólk. Frekar lét hún þögnina taka yfir. Gjafmildi þjáði hana myndi ég segja. Oftar en einu sinni naut ég gjafmildi hennar og ég er viss um að það eru margir sem geta sagt hið sama. Gáfuð. Ef Magga var ekki að hekla, prjóna eða sauma, þá var hún að lesa bækur. Það útskýrir gáfurnar því að það eru ekki með- fæddir eiginleikar sem hrjá fjöl- skylduna. Gestrisin. Það var alltaf opið hús hjá Möggu fyrir vini og vandamenn og alltaf eitthvað ný- bakað á borðum. Stríðin! Já, hún var stríðin. Mér skilst að ég hafi átt það meira en skilið þegar Magga var að stríða mér með „Bjössa á mjólkurbílnum með aðra hönd á stýri“ og það var allt í lagi. En „Bjössi kvennagull“ og „á brúsa- pallinum bíður hans mær“ var verra og hún vissi að það hitti í mark í hvert sinn. Já, ég var stundum erfiður litli bróðir. Oftar en einu sinni kom Magga yfir í Ásgarð 5 til að sækja mig því að ég var of hræddur eftir að vera búinn að hlusta á leikrit í út- varpinu um mann étandi geim- verur. Ég þorði ekki að ganga einn þessa nokkru metra á milli 5 og 13 þar sem við bjuggum. Glæsileg. Magga var alltaf vel til fara, sjálfsagt af því að hún saumaði flest fötin sín sjálf. Magga hefur alltaf verið í mesta uppáhaldi hjá börnunum mínum Láru Björgu og Kára, einnig minnast synir mínir í Suð- ur-Afríku og Ástralíu „aunty“ Möggu með hlýjum hug. Vicki sambýliskona mín var mjög ánægð að hafa fengið tæki- færi til að hitta Möggu þegar við komum til Íslands árið 2017 og óskar hún Möggu friðar og sælu á nýjum hvíldarstað. Sjáumst, Magga mín. Þinn litli bróðir, Kári Sigurbjörnsson. Síðastliðið ár hef ég haft þau forréttindi að tengjast aftur Möggu frænku minni. Fyrir það er ég mjög þakklát. Í gegnum árin hef ég fengið að njóta hennar einstaka hand- verks, sem hún hefur gert handa mér og börnum mínum. Mér mun alltaf þykja vænt um þessi verk sem hluta af kærleika frá henni. Þakka þér fyrir kennslustund- irnar og samveruna elsku Magga. Ég elska þig og sakna þín nú þeg- ar. Andrea. Mig langar til að skrifa örfá kveðjuorð um elsku vinkonu mína, Margréti Káradóttur, sem var kölluð Magga af öllum. Ég kallaði hana alltaf Möggu mág- konu. Ég kynntist henni árið 1997, þegar ég kynntist mannin- um mínum, Hreini S. Hjartar- syni. Hann var þá búinn að missa konuna sína sem var fóstursystir Möggu og hann kallaði hana allt- af Möggu mágkonu. Hreinn lést 2003 en Magga mágkona hélt áfram að vera mjög góð vinkona mín. Magga mín var búin að stríða við slæm veikindi mestallt árið. Við áttum samt alls ekki von á því að þegar hún fór á spítalann nú í nóvember mundi hún ekki koma þaðan aftur. Hún lést 26. nóvem- ber sl. Magga hefði orðið 72 ára 7. desember næstkomandi en í stað þess að hún haldi upp á afmælið sitt þá mætum við í jarðarförina hennar í dag. Magga mín var einstök mann- eskja, afskaplega góð og hrein- skiptin og var öllum trú og trygg. Hún kom eins fram við alla hvort sem það var barn eða fullorðinn einstaklingur. Hún var mjög hjálpsöm og alltaf tilbúin að hjálpa öllum sem á þurftu að halda. Hún hjálpaði mér oft við ýmsa hluti sem ég gat ekki gert. Við Magga fórum oft saman upp á Læk í Borgarfirði til að heim- sækja Villu sem bjó þar. Magga var í sveit hjá Villu þegar hún var krakki og unglingur. Villa tók alltaf mjög vel á móti okkur og einu sinni gaf hún okkur Möggu nýuppteknar kartöflur sem við tókum með okkur í sumarbústað í Skorradal. Þegar þangað var komið nenntum við ekki að elda okkur mat en suðum kartöflurn- ar og borðuðum með smjöri og salti. Eitt árið fórum við Magga saman í bændaferð, fórum fyrst til Þýskalands og síðan til Ítalíu. Þetta var mjög skemmtilegt ferðalag og ekki veit ég hvernig á því stóð en þýski rútubílstjórinn fór að gefa okkur blóm. Ég held að hann hafi verið svolítið hrifinn af Möggu því hann var alltaf að gefa henni auga. Við Magga og Arna, dóttir Hreins, fórum oft saman í sum- arbústaðaferðir og hittumst einn- ig oft og gerðum handavinnu saman. Við Magga og Ása Jóhanna, Hanna, gömul og góð vinkona mín, stofnuðum saman prjóna- klúbb og hittumst tvisvar í mán- uði. Þegar við hittumst þá var sko unnið af kappi. Það eru til margir fallegir hlutir sem Magga gerði. Magga var yndisleg vinkona á öllum sviðum og maður gat trúað henni fyrir hverju sem var. Elsku Magga mín, ég þakka þér fyrir alla góðu vináttuna sem við áttum saman og ég mun sakna þín sárt. Það verður tómlegt að geta ekki komið til þín í Þórðarsveiginn, drukkið kaffi og talað við þig. Þakka þér fyrir alla tryggðina. Guð blessi þig og gefi þér frið og gefi þér góða ferð á æðri slóðir. Ég bið góðan Guð að styrkja fjölskyldu Möggu og sendi þeim mínar innilegustu samúðarkveðj- ur. Sólbjört Kristjánsdóttir (Sóla) og fjölskylda. Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi, hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér. Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi, og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér. (Ingibjörg Sigurðardóttir) Elsku Magga, við þökkum fyr- ir allt sem þú varst okkur og börnum okkar. Við geymum allar góðu minningarnar í hjörtum okkar um ókomin ár. Hafðu þökk fyrir allt og allt. Guð blessi minn- ingu þína. Systkinum og fjölskyldunni allri sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur. Guð geymi þig, elsku Magga okkar. Jóhanna og Reynir. Margrét Káradóttir hóf störf hjá Hagstofu Íslands 1. apríl 1981 og var því búin að vinna hjá Hag- stofunni í rúm 36 ár þegar hún lét af störfum í árslok 2017, þá sjö- tug að aldri. Ég varð þess heiðurs aðnjót- andi að vinna með Möggu í tæp 24 ár og allan þennan tíma brá aldrei skugga á okkar samvinnu. Magga mín var afskaplega vel gerð manneskja sem var alltaf ljúf og kát í viðmóti. Hún var eld- klár, bjó yfir yfirgripsmikilli þekkingu á fjölmörgum sviðum og var vel lesin. Það sem mér þótti alltaf skemmtilegast við hana var hversu nýjungagjörn hún var. Ef hún frétti af nýrri tækni sem gæti nýst henni í vinnunni kom glampi í augun á henni og það tók aldrei langan tíma fyrir hana að ná tökum á tækninni. Samt var hún svo hóg- vær. Reynsla hennar og þekking var ómetanleg enda hafði enginn eins víðtæka þekkingu á vöruvið- skiptum og hún. Þó að það væru komin nærri tvö ár síðan hún fór á eftirlaun er ekki langt síðan ég hringdi í hana til að spyrja hana álits á einhverju vinnutengdu enda fór enginn frá henni bón- leiður til búðar. Það er sagt að enginn sé ómissandi en fyrir okkur nálgað- ist Magga það klárlega. Okkur fannst vont að missa hana þegar hún fór loks á eftirlaun sjötug eft- ir að hafa haldið áfram að vinna að okkar ósk. En það var ekki bara þekking hennar sem við söknuðum heldur einnig hennar ljúfa nærvera og það var alltaf jafn yndislegt að hitta hana þegar hún kom við og kíkti á okkur. Það er mikil eftirsjá að Möggu og hennar verður saknað. Við samstarfsmenn hennar erum af- skaplega þakklátir fyrir sam- fylgdina með henni í gegnum ár- in. Eftir lifir minning hennar um ókomin ár. Við sendum ástvinum Möggu okkar innilegustu samúðarkveðj- ur. Auður Ólína Svavarsdóttir. Margrét Káradóttir Morgunblaðið birtir minningargreinar endurgjaldslaust alla útgáfudaga. Skil | Þeir sem vilja senda Morgunblaðinu greinar eru vinsamlega beðnir að nota innsendikerfi blaðsins. Smellt á Morgunblaðslógóið í hægra horninu efst og viðeigandi liður, „Senda inn minningargrein,“ valinn úr felliglugganum. Einnig er hægt að slá inn slóðina www.mbl.is/sendagrein Minningargreinar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.