Morgunblaðið - 19.12.2019, Qupperneq 90
90 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 19. DESEMBER 2019
BÍLAMERKINGAR
Vel merktur bíll er
ódýrasta auglýsingin
Sundaborg 3
104 Reykjavík
777 2700
xprent@xprent.is
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
„Það er gaman að þessu og mikill
heiður. Auðvitað er alltaf gaman að
fá viðurkenningu fyrir það sem mað-
ur hefur lagt mikla vinnu í,“ segir
Ásta Kristín Pjetursdóttir um gagn-
rýni sem birtist fyrir viku í Morgun-
blaðinu á fyrstu breiðskífu hennar,
Sykurbað. Gagnrýnandi, Ragnheiður
Eiríksdóttir, gaf plötunni fimm
stjörnur af fimm mögulegum og
skrifar m.a. að hún muni ekki hve-
nær hún hafi síðast orðið jafnupp-
numin við að hlusta á frumraun
íslensks listamanns. Komst platan
einnig á Kraumslistann, lista yfir
plötur tilnefndar til Kraumsverð-
launanna sem afhent voru í síðustu
viku.
Náttúran hefur áhrif
Ásta leikur á gítar og syngur á
plötunni og lög og texta samdi hún
þegar hún var við nám í Lýðskól-
anum á Flateyri. „Svo ákvað ég að
gefa þetta út og bara snilld að fólki
líki þetta, að fá meðbyr,“ segir Ásta.
Námið stundaði hún síðastliðinn vet-
ur, var á skapandi hugmyndabraut.
Gerði það mikið fyrir hana? „Já, ég
fékk tíma til að vera og komast í ann-
an takt en ég var í,“ svarar Ásta en
hún bjó áður í Kaupmannahöfn.
Hún segir þessa miklu breytingu á
umhverfi hafa skilað sér í sköpun-
inni. „Ég er borgarbarn, fædd og
uppalin í Reykjavík og að fá að búa á
svona einangruðum stað, langt frá
öllu, dýpkar skilninginn hjá manni að
mörgu leyti, m.a. á því hvernig er að
búa úti á landi við allt aðrar aðstæður
en við búum við hérna í borginni. Svo
hefur náttúran áhrif á sköpunina, ég
veit að það er klisjukennt að segja
frá því en hún hafði mikil áhrif á
sköpunina hjá mér,“ segir Ásta.
Sigurvegari í einleikarakeppni
Ásta hóf víólunám aðeins þriggja
ára í Suzuki-skólanum og er nú orðin
23 ára. Árið 2015 lauk hún fram-
haldsprófi frá Tónlistarskólanum í
Reykjavík og hélt þá Kaupmanna-
hafnar í BA-nám við Konunglega
danska konservatoríið.
Á lokaári sínu í Tónlistarskólanum
í Reykjavík fór hún með sigur af
hólmi í einleikarakeppni Tónlistar-
skólans í Reykjavík og lék einleik
með hljómsveit skólans.
Ásta hefur hlotið fjölda styrkja og
hlaut hvatningarverðlaun Reykja-
víkurborgar aðeins ellefu ára að
aldri. Þá hefur Ásta líka gegnt stöðu
leiðara Ungsveitar Sinfón-
íuhljómsveitar Íslands og upp-
færslumanns í Orkester Norden,
hefur leikið einleik með Sinfón-
íuhljómsveit Íslands og leikið með
Fílharmóníusveit Kaupmanna-
hafnar, kammersveitinni Elju og
verið meðlimur Hindsgavl Nordic
Chamber Ensemble. Og nú er hún
orðin söngvaskáld, sem fyrr segir.
Þurfti að anda
Ásta segir strembið að vera klass-
ískur hljóðfæraleikari og segist hún
hafa þurft á hvíld að halda að loknu
BA-námi.
„Ég þurfti aðeins að anda,“ segir
hún og blaðamaður spyr hvort plat-
an sé þá einhvers konar útrás eða
hvíld. „Já, það mætti alveg segja
það. Ég hafði aldrei áður sungið eða
samið neitt, ég hugsaði alltaf með
mér að ég gæti ekki samið. Ég hafði
aldrei spilað á gítar og ákvað bara að
prófa þetta. Klassískt tónlistarnám
er svo mikið þannig að manni eru
réttar nótur og svo á maður að spila
það sem stendur. Þegar ég dró mig í
hlé frá þeim heimi opnuðust ein-
hverjar dyr og út flæddi sköpunar-
kraftur líkt og ég hefði haldið honum
inni,“ segir Ásta.
Hún er sjálflærð á gítar og var
eldsnögg að ná tökum á hljóðfærinu.
„Ég var að læra að spila á gítar síð-
asta árið,“ segir hún, blaðamanni til
nokkurrar furðu þar sem gítarleik-
arinn ber þess ekki merki á plötunni
að um nýgræðing sé að ræða.
Yrkir út frá eigin reynslu
Textagerðin var líka nýtt listform
fyrir Ástu og segist hún í fyrstu hafa
ort ljóð, byrjað á því á lokaönninni í
náminu í Kaupmannahöfn. „Ég byrj-
aði eiginlega fyrst í textagerðinni og
hún þróaðist svo út í lagasmíðar,“
segir Ásta. „Ég yrki út frá minni
reynslu og hvernig ég sé heiminn og
skynja umhverfi mitt,“ segir Ásta um
textagerðina. „Ég lenti í mörgu átak-
anlegu á þessu tímabili þegar ég var
að gera þessa plötu sem hafði áhrif á
textagerðina,“ segir Ásta og vill ekki
fara of djúpt í þá sálma. Þó sé aug-
ljóst þegar rýnt er í textana að platan
sé nokkurs konar uppgjörsplata við
manneskju sem Ásta átti í sambandi
við og segir hún sambandið hafa haft
slæm áhrif á hana.
Ásta tók þátt í Músíktilraunum í ár
og hlaut viðurkenningu fyrir texta-
gerð á íslensku og landaði að auki
þriðja sæti keppninnar. Hún segist
halda tónleika annað slagið, hér og
þar, og kunna vel við sig í því hlut-
verki. „Þetta á mjög vel við mig, mér
líður rosalega vel á sviði að syngja og
með gítarinn. Þessi tónlist skiptir
mig svo miklu máli og mér þykir svo
vænt um öll lögin sem ég flyt. Þó að
mörg laganna á plötunni hafi sprottið
upp úr einhverju slæmu sem gerðist,
út frá slæmum tilfinningum, þá
finnst mér ég hafa náð að gera eitt-
hvað jákvætt og gott úr því.“
– Þig dreymir væntanlega um að
geta unnið við þetta?
„Já og í rauninni geri ég það, ég er
„freelance“ tónlistarkona og þá bæði
víóluleikari og söngkona og laga-
smiður,“ svarar Ásta, „það er ótrú-
lega gaman að geta unnið við þetta.“
Útgáfutónleikar í MR
Ásta heldur útgáfutónleika annað
kvöld, föstudag, kl. 20 á heldur
óvenjulegum stað, hátíðarsal
Menntaskólans í Reykjavík. „Ég
mun flytja plötuna í heild sinni og
segja söguna að baki hverju lagi. Það
gefur hlustendum vonandi betri inn-
sýn í þennan heim sem ég hef skapað
þarna,“ segir Ásta. Sérstakur gestur
Ástu á tónleikunum verður tónlist-
arkonan Una Torfadóttir. „Við mun-
um frumflytja nýtt lag saman,“ segir
Ásta. „Mér finnst rosalega gaman að
fá að koma fram í þessum sal því
þetta er svo merkilegur salur og fólk
fær aldrei að koma inn í hann, nema
það sé eða hafi verið í MR. Ég er
mjög spennt fyrir þessu og það er
miðasala á tix.is,“ segir Ásta að lok-
um.
Ljósmynd/Anna Maggý
Draumabyrjun Ásta hefur hlotið mikið lof fyrir fyrstu breiðskífu sína.
Gerði gott úr slæmu sambandi
Ásta Kristín Pjetursdóttir hefur hlotið mikið lof fyrir fyrstu breiðskífu sína, Sykurbað
Mörg laga plötunnar spruttu upp úr slæmri reynslu og tilfinningum Nýtur sín á sviði
Alliance Française og Franska
sendiráðið á Íslandi halda Frönsku
kvikmyndahátíðina í janúar á næsta
ári í samstarfi við Bíó Paradís og
verður það í tuttugasta sinn sem
blásið er til hennar. Dagskrá hátíð-
arinnar liggur nú fyrir og verða 11
kvikmyndir verða sýndar frá 24. jan-
úar til 2. febrúar. Þeirra á meðal er
kvikmyndin Fagra veröld (La Belle
Époque) eftir Nicolas Bedos sem
vakið hefur mikla athygli að undan-
förnu og einnig Portrait de la jeune
fille en feu eftir Céline Sciamma sem
hlotið hefur lof hvarvetna. Í henni er
rakin ástarsaga tveggja kvenna á 18.
öld og hlaut myndin hinsegin verð-
launin á kvikmyndahátíðinni í Cann-
es í vor og verðlaun fyrir besta hand-
rit.
Einnig verður nýjasta kvikmynd
Romans Polanski, J’accuse, eða Ég
ákæri, sýnd á hátíðinni en hún fjallar
um skipstjórann Alfred Dreyfus sem
er ranglega dæmdur fyrir landráð
og er dæmdur í lífstíðarfangelsi á
Djöflaeyju.
Dilili í París nefnist teiknimynd
fyrir börn jafnt sem fullorðna eftir
Michel Ocelot en hún verður sýnd
með íslenskum texta. Einnig verður
sýnd rómantíska gamanmyndin
Deux moi, eða Tvö sjálf eftir
leikstjórann Cédric Klapisch og
seinasta kvikmynd Quentins Du-
pieux, Deerskin. Ein kvikmynd frá
Kanada verður sýnd í samstarfi við
kanadíska sendiráðið á Íslandi og er
það nýjasta mynd Xavier Dolan,
Matthías og Maxime. Hún verður
lokamynd hátíðarinnar.
Á dagskrá verða einnig ýmsir við-
burðir og sérsýningar og má nefna
að á 20 ára afmæliskvöldinu verður
sýnd kvikmynd sem vann áhorf-
endakosningu í Bíó Paradís á sam-
félagsmiðlum, Amélie eftir Jean-
Pierre Jeunet. Þá verður eitt kvöld
helgað heimildarmynd um náttúru-
vín en hún heitir í íslenskri þýðingu
Guðaveigar. Eftir sýninguna verður
boðið upp á vínsmökkun með Dóra
DNA. Klassíska kvöldið verður lagt
undir glæpamyndir og kynnir á
kvöldinu verður rithöfundurinn Yrsa
Sigurðardóttir. Loks verða veitt Sól-
veigar Anspach verðlaunin fyrir
stuttmyndir.
Allar frekari upplýsingar má finna
á bioparadis.is.
Dagskrá liggur fyrir
Amélie Audrey Tautou í hlutverki
hinnar uppátækjasömu Amélie í
samnefndri kvikmynd.