Bændablaðið - 01.11.2018, Blaðsíða 32

Bændablaðið - 01.11.2018, Blaðsíða 32
Bændablaðið | Fimmtudagur 1. nóvember 201832 Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi fór nýverið fram í Húnaþingi vestra. Húnvetningar tóku vel á móti kollegum sínum í ferðaþjónustu og farið var í heimsóknir til ýmissa fyrirtækja á svæðinu og nýr útsýnispallur við Kolugljúfur var sömuleiðis skoðaður. Um kvöldið var svo haldin vegleg veisla í veislusalnum á Hótel Laugarbakka, þar sem dansinn dunaði fram eftir nóttu. Venju samkvæmt voru þrjár viðurkenningar veittar, Sproti ársins, Fyrirtæki ársins og viðurkenning fyrir störf í þágu ferðaþjónustunnar. Hotel Natur er Fyrirtæki ársins Viðurkenningin Fyrirtæki ársins er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði. Fyrirtækið hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun og er með höfuðstöðvar á Norðurlandi. Í ár féll viðurkenningin í skaut félaginu Hotel Natur sem þau Stefán Tryggvason og Inga Margrét Árnadóttir reka á Svalbarðsströnd. Þau höfðu um árabil rekið kúabú en fóru í kringum árið 2004 að hugleiða að hætta þeim búskap og snúa sér að ferðamennsku. Árið 2005 höfðu þau gert breytingar á fjósinu og hlöðu, og opnuðu þar 10 herbergja hótel. Árin á eftir fylgdu fleiri breytingar og herbergin eru nú 36 talsins. Hotel Natur er sannkallað fjölskyldufyrirtæki, þar sem foreldrarnir hafa séð um að stýra skútunni en börnin koma að daglegum rekstri og þá sérstaklega yfir sumartímann. Mikil áhersla hefur verið lögð á umhverfismál og endurnýtingu. Engar nýjar byggingar hafa verið byggðar heldur þeim gömlu breytt og nýjasta dæmið um það er útsýnispallurinn í súrheysturninum. Sumir myndu reyndar segja að Stefán hefði ákveðið blæti fyrir turnum, enda var hann ekki lengi að tryggja sér glerturnana sem áður hýstu keiluhöllina á Akureyri þegar hún var rifin niður. Hótel Laugarbakki er Sproti ársins Viðurkenningin Sproti ársins er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Það fyrirtæki sem fær verðlaunin í ár er Hótel Laugarbakki. Það er ekkert lítið verkefni sem þau Hildur Ýr og Örn réðust í þegar þau ákváðu að breyta gamla héraðsskólanum á Laugarbakka í heilsárshótel. Vel tókst til með breytingar. Hótelið er hið stærsta á Norðurlandi vestra og með opnun þess opnuðust nýir möguleikar bæði fyrir ferðafólk og þá sem starfa í ferðaþjónustu í nágrenninu. Mikilvægt þykir fyrir fjórðunginn að hafa þennan valmöguleika í gistingu á svæðinu og skemmir ekki fyrir hve auðvelt er að halda alls kyns viðburði og ráðstefnu á hótelinu. Veitingastaðurinn Bakki setur svo punktinn yfir i-ið. Svanhildur og störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi Viðurkenninguna fyrir Störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi fær einstaklingur sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Í ár var það Skagfirðingurinn Svanhildur Pálsdóttir sem hlaut þá viðurkenningu. Svanhildur hefur starfað í ferðaþjónustu í meira en áratug, en hún ásamt öðrum keypti Hótel Varmahlíð árið 2006 og gerðist hótelstjóri eftir að hafa starfað sem kennari. Svanhildur hefur um árin sinnt samstarfi ferðaþjónustuaðila vel og var lengi í stjórn Markaðsstofu Norðurlands, þar af formaður í nokkur ár. Auk þess var hún ein af stofnendum Félags ferðaþjónustunnar í Skagafirði og gegndi einnig formennsku þar til langs tíma. Auk þess hefur hún setið í stjórnum Ferðamálasamtaka Íslands og Ferðamálasamtaka Norðurlands vestra. Hótel Varmahlíð var selt til nýrra eigenda í fyrra og nú er veruleiki Svanhildar ekki bundinn við raunheima, því hún hóf nýlega störf hjá 1238 Battle of Iceland á Sauðárkróki. Sýndarveruleiki er þar nýttur til þess að leyfa gestum að upplifa Örlygsstaðabardaga og það er því ljóst að ferðaþjónusta í Skagafirði og á Norðurlandi öllu mun áfram njóta góðs af reynslu og kröftum Svanhildar. /MÞÞ LÍF&STARF Samningaviðræður standa enn yfir Nú hafa viðræður samninganefnda ríkis og bænda um endurskoðun á Samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar staðið yfir frá því 20. ágúst. Fljótlega eftir að samningaviðræður hófust var boðað að samningum um aðgerðir fyrir haustið yrði ekki lokið fyrir sláturtíð. Samningaviðræður standa enn yfir og ljóst er að tími til að klára samningaviðræður fyrir áramót er skammur. Áherslur LS eru óbreyttar, við höfum m.a. talað fyrir endurskoðun á niðurtröppun beingreiðslna og að tekið verði á þeim aðstæðum sem nú eru uppi þannig að kjör bænda batni sem fyrst. Við hefðum sannarlega þurft að ná í gegn aðgerðum fyrir sláturtíð sem hefðu stuðlað að kjarabót fyrir bændur næsta haust. Nú verðum við að sjá hvaða staða verður uppi þegar sláturtölur liggja fyrir og upplýsingar um ásetning. Það lítur út fyrir einhverja fækkun, en hversu mikla er erfitt að segja að svo stöddu. Staðan í haust er ekki svo ólík því sem hún var haustið 2017. Það urðu nær engar breytingar á afurðaverði milli ára. Hins vegar voru birgðir af lambakjöti mun minni í lok ágúst, eða um 700 tonn. Þær voru 1.100 tonn á sama tíma í fyrra. Við teljum vera til staðar ákveðnar forsendur fyrir hærra afurðaverði vegna bættrar birgðastöðu. Hins vegar var þróun á gengi og mörkuðum erlendis fyrstu 6 mánuði ársins ekki þannig að það gæfi tilefni til mikillar bjartsýni. Það er ljóst að veiking krónunnar, undanfarna vikur, mun hafa áhrif ef hún helst svona áfram. Ef að skilaverð fyrir útflutning væri 5 evrur/kg þá þýðir veiking krónunnar, þannig að gengi evru fari úr 120 í 135, verðhækkun í íslenskum krónum úr 600 kr/kg upp í 675 kr/kg. Þá hefur heimsmarkaðsverð verið að þokast upp á við. Heimsmarkaðsverð á ný sjálensku lambakjöti var um 3,0 evrur í janúar 2017 en var núna í september um 4,5 evrur. Þetta gefur okkur vísbendingu um styrkingu á heimsmarkaðsverði til lengri tíma. Hins vegar þurfum við að halda áfram að vinna af krafti við að sækja fram á erlendum mörkuðum í gegnum hið öfluga markaðsstarf Icelandic Lamb – Með áherslu á sérstöðu og gæði íslenska lambakjötsins. Þar er greinanlegur árangur á skömmum tíma. Mörg áhugaverð tækifæri eru í sjónmáli, en vert að hafa í huga að þessi vinna mun taka tíma, en hún mun líka styrkja framtíðarafkomu sauðfjárræktar á Íslandi. Það hefur nær allur tími og orka LS síðustu mánuði farið í það að taka á stöðu sauðfjárræktarinnar. Við hefðum gjarnan viljað sjá meiri árangur og vissulega gremst okkur það hversu hægt hefur miðað. Er það eðlilegt að við þurftum að bíða í nær 5 mánuði frá því að við héldum aðalfund LS í byrjun apríl þar til samninganefndir ríkis og bænda hófu samtalið í lok ágúst? Þann tíma hefði mátt nýta betur. Því verður ekki breytt úr þessu. Við þurfum að tryggja árangur í þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir. Við þurfum að bæta afkomu bænda og tryggja stöðugleika í starfsumhverfinu m.a. með því að efla þau verkfæri sem eru tiltæk til að takast á við síbreytilegar forsendur í starfsumhverfinu Breytingar á tollaumhverfi og ekki síður sá möguleiki að hingað verði flutt inn ófrosið kjöt felur í sér gífurlegar áskoranir fyrir íslenskan landbúnað. Vissulega felast tækifæri í tvíhliða tollasamningum en sú staðreynd að Bretland mun standa utan við Evrópusambandið breytir miklu í þessu samhengi. Það má eiginlega segja að útganga Breta úr EU sé ákveðinn forsendubrestur á þessum tvíhliða tollasamningi. Hvað sem öllu líður þá er ljóst að sauðfjárræktin þarf að takast á við breytt landslag þegar kemur að erlendri samkeppni. Henni mætum við best með því að efla okkur sem framleiðendur út alla virðiskeðjuna. Auka hagkvæmni og tryggja hreinleika og gæði. Við þurfum í meira mæli að horfa til þess að styrkja innviði greinarinnar. Tryggja að hér sé stundað öflugt rannsóknarstarf og stuðla að því að áfram sé sótt fram af krafti við að efla leiðbeiningarstarfið. Við þurfum að eiga virkara samtal við neytendur. Fylgja straumum og stefnum og vera framsýnni þegar kemur að vöruþróun. Íslendingar vilja að hér á landi sé stundaður öflugur landbúnaður, eins og glögglega kom í ljós í þeirri gífurlegu aðsókn sem var að Landbúnaðarsýningunni nú í haust. Við þurfum að skapa fleiri slík tækifæri. Sauðfjárbændur buðu til kjötsúpu á Skólavörðustígnum síðasta vetrardag, eins og þeir hafa gert í 14 ár í samstarfi við íbúa og söluaðila á svæðinu. Þarna myndast alltaf sama jákvæða stemningin og er gott dæmi um hvernig má efla samtalið og tengslin á milli neytenda og bænda. Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi: Natur, Laugarbakki og Svanhildur hlutu viðurkenningar Stefán Tryggvason hjá Hotel Natur ásamt þeim Hjalta Páli Þórarinssyni og Halldóri Óla Kjartanssyni, starfsmönnum Markaðsskrifstofunnar, og Unni Valborgu Hilmarsdóttur, stjórnarformanni Markaðsskrifstofunnar, við afhendingu viðurkenninga fyrir fyrirtæki ársins. Örn og Hildur Ýr hjá Hótel Laugarbakka hlutu viðurkeninguna Sproti ársins. Hér eru þau með Hjalta, Halldóri og Unni Valborgu. Magnús Ásgeir Elíasson, bóndi á Stóru Ásgeirsá, tók lagið fyrir gesti. Svanhildur Pálsdóttir, sem áður rak Hótel Varmahlíð, hlaut viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi. Með henni á myndinni eru Hjalti og Halldór frá Markaðsskrifstofunni og Unnur Valborg, stjórnarformaður hennar. Unnsteinn Snorri Snorrason.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.